2030-kynslóðin: Norræn áætlun um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun

I am Generation 2030
Ljósmyndari
norden.org
Þann 5. september 2017 samþykktu samstarfsráðherrar Norðurlanda áætlunina „2030-kynslóðin“. Áætluninni er ætlað að stuðla að samstarfi um sameiginlegar áskoranir Norðurlandanna við Dagskrá 2030 og 17 heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Í september 2015 samþykktu SÞ alþjóðlega áætlun um sjálfbæra þróun fram til ársins 2030, þar sem sett eru fram 17 heimsmarkmið (Sustainable Development Goals – SDG) og 169 undirmarkmið. Þar með skuldbundu aðildarríki SÞ sig – þar með talin norrænu ríkin – til að innleiða áætlunina. Til að auka sýnileika og styrkja stöðu áætlunarinnar innan norræns samstarfs samþykktu norrænu ríkin, á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar, að setja af stað norræna áætlun um framfylgd heimsmarkmiðanna, undir heitinu „2030-kynslóðin.“

Í „2030-kynslóðinni“ er einblínt á börn og ungmenni sem afl til breytinga – í nútíð og framtíð. Meginmarkmið áætlunarinnar eru þrjú. Þau eru:   

  • Að tryggja að starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar stuðli að framfylgd heimsmarkmiðanna, gegnum pólitískar aðgerðir og viðeigandi verkefni.
  • Að stuðla að þátttöku og þekkingarmiðlun á Norðurlöndum er varðar heimsmarkmiðin.
  • Að vekja athygli á starfi Norrænu ráðherranefndarinnar að heimsmarkmiðunum, á Norðurlöndum og alþjóðlega.
     

Tilgangurinn er því ekki að samhæfa framfylgd heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun í norrænu ríkjunum, heldur frekar að stuðla að framkvæmdinni með því að sjá fyrir viðeigandi greiningum, þekkingarmiðlun og umræðum, þróun aðferða, ásamt því að hvetja til þátttöku norrænna félagasamtaka, einkageirans, norræns vísindasamfélags og ungmennasamtaka í norrænu starfi að heimsmarkmiðunum.   

Í „2030-kynslóðinni“ er sérstaklega einblínt á sameiginlegar áskoranir Norðurlanda í að ná heimsmarkmiðunum 17. Því verður á tímabilinu fram til ársins 2020 lögð sérstök áhersla á sjálfbæra neyslu og framleiðslu. Sjálfbær neysla og framleiðsla er mjög fyrirferðarmikið málefni í áætlun SÞ og um það er meðal annars fjallað í skýrslunni Bumps on the Road to 2030 . Þar er sjálfbær neysla og framleiðsla sögð vera það svið sem Norðurlönd eiga lengst í land með, sem og svið sem hefur áhrif á framgang annarra markmiða í áætluninni.

Áætlunin er unnin á grunni kortlagningar sem sett var fram í Sustainable Development Action – the Nordic Way (2017) sem og í samræðu við fjölda aðila úr norrænum félagasamtökum, einkageiranum og ungmennasamtökum. Kortlagningin sýnir mikla möguleika á norrænu samstarfi um áætlunina, ásamt því að staðfesta að núverandi starfsemi og sjálfbærnistefna Norrænu ráðherranefndarinnar, „Gott líf á sjálfbærum Norðurlöndum,“ hafa nú þegar marga snertifleti við áætlun SÞ um sjálfbæra þróun.

Samstarfsráðherrar Norðurlanda samþykktu áætlunina þann 5. september 2017. Heildarfjármagn merkt áætluninni fram til ársins 2020 er 12,9 milljónir danskra króna. Hafið samband við skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar til að fá nánari upplýsingar.