Atvinnu- og efnahagslíf

Nordic Council of Ministers
Photographer
Oddleiv Apneseth

Á Norðurlöndum er náið og gott samstarf opinberra yfirvalda og aðila vinnumarkaðarins og gott öryggisnet tekur við þeim sem af einhverjum ástæðum detta út af vinnumarkaði. Saman mynda þessir þættir „norræna líkanið“, sem hefur vakið athygli á alþjóðavettvangi og talið er að því megi að miklu leyti þakka það að Norðurlönd hafa komist tiltölulega vel úr kreppum.

Ókeypis menntun er grundvöllur mikillar og víðfeðmrar kunnáttu. Fjárfesting í rannsóknum, sem er einhver sú mesta í heimi, hefur skilað sér í því að við á Norðurlöndum búum í nútímalegum og hátæknivæddum samfélögum.Eitt af einkennum vinnumarkaðarins á Norðurlöndum er mikil atvinnuþátttaka og einkum stuðla konur og eldri borgarar að góðri útkomu á því sviði. Tekjumunur er almennt lítill í samanburði við önnur lönd.

Norðurlönd mörkuðu sér þó fyrst fyrir alvöru stöðu á alþjóðavettvangi í kjölfar efnahagshrunsins 2009. Þá sýndi norræna stjórnkerfis- og velferðarlíkanið enn einu sinni getu sína til endurnýjunar. Sum af helstu efnahagsveldum heims fóru að ræða hvort líkanið okkar geti verið höggdeyfir og aukið stöðugleika í efnahagslífi heimsins þar sem ríkir sífellt meira óöryggi.

Öryggi og nýsköpun

Sagt er að það öryggi sem hið félagslega kerfi okkar hefur í för með sér hafi einnig stuðlað að auknum nýsköpunarkrafti á Norðurlöndum. Fólk getur tekið áhættu og farið ótroðnar slóðir án þess að leggja alla tilveru sína undir. Mörg dæmi eru um stór norræn fyrirtæki á borð við Volvo, Ikea og Lego, sem eru afurð sköpunargáfu einstaklinga og dæmi um norrænar vörur sem fluttar eru út um allan heim.

Norrænu löndin eru þekkt fyrir miklar náttúruauðlindir, svo sem fisk, vatnsorku og olíu (Noregur). Í dag stefna Norðurlönd að sjálfbærari lausnum á sviði umhverfistækni og löndin vinna að umskiptum frá jarðefnaeldsneyti til umhverfisvænni orkugjafa. Jafnvægið milli þess að varðveita náttúruauðlindir og skapa hagvöxt er enn ofarlega á baugi í stjórnmálunum.

Í norrænu líkani nútímans felst að opinberi geirinn sér almenningi fyrir velferðarþjónustu og félagslegu öryggisneti. Á vinnumarkaði er farið eftir kjarasamningum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gert. Norræna líkanið og traust staða ríkisfjármála hefur skapað grundvöll fyrir góðum og jöfnum lífskjörum, háu atvinnustigi sem einkennist af jafnrétti og af miklum fjárfestingum í menntun og rannsóknum.

Markmiðið er velsæld og áframhaldandi þróun fyrir einstaklinga og samfélög. Þeir sem koma til Norðurlanda í því skyni að starfa, rannsaka eða mennta sig finna hversu mikla áherslu atvinnulífið og samfélagið í heild leggur á möguleikana á að fá að lifa mannvænu lífi í góðu jafnvægi þar sem tími gefst hvort tveggja til starfsframa og félagslegra tengsla.

Getur norræna líkanið haldið velli?

Fjöldi vísindagreina og skýrslna bendir til þess að norræna líkanið sé undir þrýstingi. Stafræna byltingin, alþjóðavæðingin og hækkandi meðalaldur fela í sér erfið úrlausnarefni fyrir vinnumarkað á Norðurlöndum og fyrir norræna velferðarlíkanið.

Við sjáum nú þegar að í sumum norrænu landanna er atvinnuleysi mikið í hópi ungmenna og þeirra sem hafa litla menntun. Smæð norrænu ríkjanna hvers fyrir sig dregur úr möguleikum þeirra á að búa til markaði með sterkri samkeppni og mikilli skilvirkni, og það verður akkilesarhæll á alþjóðamarkaði. Hækkandi meðalaldur íbúanna leiðir til aukinna útgjalda til heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Þessi viðfangsefni má meðal annars leysa með því að virkja getu landa okkar til nýsköpunar og umskipta á vinnumarkaði. Samþættari markaður á Norðurlöndum, þar sem dregið hefur verið úr hindrunum í vegi fyrirtækja og einstaklinga sem vilja starfa þvert á landamæri, er mikilvægt markmið fyrir norrænt samstarf.