Blogg: Traust – norræna gullið

Í starfi mínu sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar hef ég notið þess að segja fólki víðs vegar að úr heiminum frá Norðurlöndum og norrænu samstarfi. Viðbrögð fólks hafa kennt mér að eitt er það sem það hrífist af umfram annað og það er það traust sem við berum hvert til annars í okkar heimshluta.

Generalsekretærens Blogg

Dagfinn Høybråten, Secretary General

Pólitískt samstarf á Norðurlöndum einkennist af gagnsæi sem á hvergi sinn líka í heiminum en tengir löndin saman sterkum böndum. Gagnsæi stjórnvalda er mögulegt vegna þess hve mikið traust ríkir í samfélaginu miðað við önnur lönd í heiminum. Við berum hreinlega meira traust hvert til annars meira en gengur og gerist annars staðar.

Ný greiningardeild á skrifstofu ráðherranefndarinnar birtir í dag skýrslu um þetta málefni. Titill skýrslunnar er Tillit – det nordiske gullet(Traust – norræna gullið) vegna þess að traustið er sú auðlind sem hefur skapað mest verðmæti í samfélögum okkar. Norræna módelið í heild sinni byggir á samkomulagi um gagnkvæmt traust milli stjórnvalda og almennings.

Titill skýrslunnar er Tillit – det nordiske gullet(Traust – norræna gullið) vegna þess að traustið er sú auðlind sem hefur skapað mest verðmæti í samfélögum okkar. 

Norræna módelið hefur átt sinn þátt í því að hagkerfi landanna okkar er eitt hið öflugasta í heimi. Þá höfum við – og það er kannski það sem skiptir mestu máli – skapað hagkerfi sem er vel í stakk búið til að standa af sér efnahagslegar lægðir og sveiflur. Lýðræði, lágt glæpastig og hamingja eru jafnframt gildi sem gera það að verkum að mikið traust ríkir í samfélaginu.

Athygli vakin á traustinu

Gull er víða að finna á Norðurlöndum þó í litlu mæli sé, meðal annars í fjalllendi. Gullið í fjöllunum er svo fínt að erfitt er að sjá það með mannsauganu þrátt fyrir að samanlagt sé töluvert magn af gulli í fjallinu. Þannig er því líka farið með norræna traustið. Þrátt fyrir að traust hafi gagnger áhrif á samfélagið og lífsaðstæður okkar hér í norðrinu er traustið sjaldan sýnilegt þema í samfélagsumræðunni.

Umrædd skýrsla er framlag ráðherranefndarinnar til að vekja athygli á hve mikilvægt er að við berum traust hvert til annars. Því það er ekki gefið að búa í samfélagi sem byggir á trausti eins og ástandið er í heiminum í dag. Gull er mjúkur og þjáll málmur og ég vona að norrænt traust reynist hafa sömu aðlögunarhæfni.