Blogg: Við eflum norrænt samstarf – til gagns fyrir almenning á Norðurlöndum

Generalsekretærens Blogg

Dagfinn Høybråten, Secretary General

Akershus-virki í Ósló hefur orðið vitni að ýmsum breytingum á Norðurlöndum gegnum tíðina. Þessar fallegu byggingar, sem í dag eru á meðal helstu kennileita Óslóar, hafa verið vettvangur átaka norrænna konunga og aðalsmanna.

Fimmtudaginn 30. mars síðastliðinn hýsti þessi sögulegi staður fund norrænu félags- og heilbrigðismálaráðherranna, sem staðfesti nokkuð sem hefur verið raunin í meira en 200 ár – að við Norðurlandabúar vinnum saman í stað þess að berjast hvert við annað. Fundurinn sýndi einnig að nýtt skeið er hafið í norrænu samstarfi, þar sem samstarfið er þróað og eflt.

Þegar ég tók við embætti framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir fjórum árum fékk ég skýrt umboð til að gera umbætur á samstarfinu. Ávöxtur þess voru umbætur sem nefndar hafa verið „Ný Norðurlönd“, og fólust í því að norrænu ríkisstjórnirnar réðust í fjölda aðgerða með það að markmiði að tryggja pólitískara, kraftmeira og skilvirkara norrænt samstarf sem ætti erindi við ríkisstjórnir, almenning og atvinnulíf á Norðurlöndum.

Lykilþáttur í umbótastarfinu eru hinar svonefndu stefnumótandi úttektir. Þá er virtur norrænn einstaklingur – oft fyrrum stjórnmálamaður eða framkvæmdastjóri fyrirtækis – beðinn að leggja fram tillögur um það hvað leggja eigi áherslu á næstu 5–10 árin í norrænu samstarfi á tilteknu sviði. Viðkomandi vinnur tillögurnar á grundvelli samráðs við fjölda aðila frá öllum norrænu löndunum, sem starfa á því sviði sem um ræðir.

Svið heilbrigðismála var fyrsta samstarfssviðið þar sem slík úttekt var unnin. Það var fyrrum tryggingarmálaráðherra Svía, Bo Könberg, sem vann úttektina árið 2014. Síðan höfum við efnt til úttekta um samstarfið á sviðum vinnumála, orkumála og umhverfismála. Markmiðið hefur ávallt verið að efla og hleypa lífi í norrænt samstarf á þessum sviðum.

Fundur félags- og heilbrigðismálaráðherranna í Akershus sýndi að þetta gefur góða raun. Á fundi ráðherranna var ljóst að við erum þegar komin vel á veg með að fylgja fjölmörgum af tillögum Könbergs eftir, en það hefur meðal annars skilað norrænu samstarfi um sýklalyfjaónæmi, mjög sérhæfðar meðferðir, sjaldgæfa sjúkdóma, geðlækningar, félagslegan jöfnuð varðandi heilsu, og lýðheilsu. Einnig samþykktu ráðherrarnir að efla norrænt samstarf tengt lyfjum. Þetta eru allt málefni sem eru norrænum almenningi mikilvæg. Norrænt samstarf á þessum sviðum mun koma sjúklingum í löndunum til góða, í formi bættra læknismeðferða og ódýrari og betri lyfja.

Á Norðurlöndum er staðreyndin nefnilega sú að við erum lítil hvert fyrir sig, en saman erum við stærri. Og svo eigum við ýmislegt sameiginlegt á mörgum sviðum. Þess vegna er skynsamlegt að ráðherrar og yfirvöld á sviði heilbrigðismála deili reynslu sinni af því hvað virkar og hvað virkar ekki – til dæmis á sviði geðheilbrigðisþjónustu. Og einnig er gagnlegt að eiga samstarf um mjög sérhæfðar meðferðir og sjaldgæfa sjúkdóma, sem greinast svo sjaldan í hverju landi fyrir sig að sjúklingar eru of fáir til að unnt sé að viðhalda og þróa þá sérfræðiþekkingu sem nauðsynleg er.

Svo góð er reynslan af eftirfylgni við tillögur Könberg-skýrslunnar um samstarf á sviði heilbrigðismála, að á fundi sínum í Akershus samþykktu félags- og heilbrigðisráðherrarnir að láta vinna svipaða úttekt á norrænu starfi á sviði félagsmála. Það má nefnilega líka finna ýmislegt svipað með norrænu löndunum hvað snertir úrræði okkar fyrir börn, aðþrengda samfélagshópa, einstaklinga með fötlun og aldraða. Einnig þar getum við lært hvert af öðru og náð betri árangri í sameiningu. Ég ber miklar væntingar til þess að slík úttekt muni leiða til aukins norræns samstarfs á sviði félagsmála, rétt eins og raunin varð í heilbrigðismálunum.