Framkvæmdastjórinn

Paula Lehtomäki
Ljósmyndari
Kristian Septimius Krogh
Þann 18. mars 2019 tók Paula Lehtomäki við sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar. Hún starfaði síðast sem ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti Finnlands.

- Ég er gríðarlega spennt og lít á þetta sem einstakt tækifæri, segir Lehtomäki. Hún vísar í óróleika í Evrópu og víðar í heiminum og bendir á að traust á norrænu samstarfi hafi aukist á síðustu árum.

- Norðurlönd – norræna fjölskyldan – þykja traustur og áreiðanlegur samstarfsaðili nú þegar önnur svæði heimsins virðast óútreiknanleg, segir framkvæmdastjórinn. Það er bæði spennandi og áhugavert að fá tækifæri til að starfa að þessu verkefni einmitt á þessum tímapunkti, segir Paula Lehtomäki.

Þótt Norðurlönd þyki almennt skara fram úr þegar kemur að jafnréttismálum, er Lehtomäki fyrsta konan sem gegnir hlutverki framkvæmdastjóra ráðherranefndarinnar. Hún er líka yngsti framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar frá upphafi.

- Ég tel að Norræna ráðherranefndin gefi mikilvæg skilaboð með því að velja framkvæmdastjóra sem er bæði kona og stödd á miðjum starfsferli sínum. Ég er uppfull af orku gagnvart þessu nýja verkefni mínu, tekur Lehtomäki fram.

Paula Lehtomäki var kjörin á finnska þingið árið 1999 fyrir Miðflokkinn og sat á þingi í16 ár. Hún var ráðherra utanríkis- og þróunarmála 2003-2007 og umhverfisráðherra 2007-2011. Á báðum ráðherratímabilum sínum fór hún í 6 mánaða foreldraorlof. Lehtomäki var meðlimur í Norðurlandaráði 1999-2003 og starfaði þá í grannsvæðanefndinni.