Grípum tækifærin, Norðurlönd!

Nú er tími tækifæranna á Norðurlöndum. Áhugi umheimsins á norrænum lausnum, norrænni menningu og þeim góðu lausnum sem löndin hafa náð með norræna samfélagsmódelinu, hefur varla nokkurn tíma verið meiri en nú.

Nú er mikilvægt að atvinnulífið, félagasamtök og pólitísk forysta grípi þau tækifæri sem þar leynast. Ýmsir aðilar hafa komið auga á og nýta sér sóknarfæri á þessum markaði tækifæranna. Norræna ráðherranefndin er orðin mun betur í stakk búin til að gera löndunum kleift að nýta þann virðisauka sem leynist í norrænu samstarfi. Um þessar mundir erum við að fara yfir árangurinn af umbótaferlinu Nytt Norden. Samstarf norrænu ríkisstjórnanna er fyrir vikið orðið hnitmiðað og tryggt til framtíðar:

Samstarfið er orðið pólitískara: Stefnumótandi úttektir hafa verið gerðar á mikilvægum samstarfssviðum í þeim tilgangi að greina sóknarfæri fyrir öflugra norrænt samstarf á næstu fimm til tíu árum. Tillögur sem þar komu fram setja svip sinn á pólitíska dagskrá í samstarfi um heilbrigðismál, vinnumál og orkumál svo eitthvað sé nefnt. Nýjum pólitískum verkefnum hefur verið ýtt úr vör á ýmsum sviðum og nægir að nefna stafræna væðingu, aðlögunarmál og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn öfgahyggju. Mikil áhersla er lögð á greiningar og verkefni sem skapa grundvöll fyrir pólitískar lausnir og eflingu samstarfsins. Á árinu 2018 tökum við fyrir samstarf um löggjafarmál, aukinn hreyfanleika milli landanna, loftslags- og umhverfismál og félagsmál.

Hagræðing: Ákvarðanaleiðir, starfshættir og skipulag hefur verið nútímavætt og leiðin stytt milli frumkvæðis og árangurs. Breytingar á fjárhagsáætlunarferlinu hafa leitt til betri árangursstjórnunar og skapað aukinn sveigjanleika. Norrænar stofnanir hafa fengið skýrara stjórnunarskipulag sem á þátt í því að mótuð stefna kemst til framkvæmdar. Dregið hefur úr stjórnsýslukostnaði.

Alþjóðavæðing: Ríki Norðurlanda hafa mótað sér sameiginlega stefnu um kynningu og markaðssetningu landanna erlendis. Alþjóðamál eru á dagskrá í öllum fagráðherranefndum. Löndin vinna í auknum mæli saman að ESB-málum sem varða sameiginlega hagsmuni þeirra. Löndin vinna saman í mikilvægum alþjóðaviðræðum, t.a.m. á sviði loftslags- og umhverfismála. Norrænum lausnum á hnattrænum samfélagsáskorunum er miðlað víða um heim þar sem er spurt er eftir þeim.

Og það er eftirspurn eftir Norðurlöndum um allan heim. Á sama tíma vill almenningur á Norðurlöndum meira norrænt samstarf. Með umbótastarfinu hefur tekist að gera norrænt samstarf betur í stakk búið til að nýta þau sóknarfæri sem felast í styrk Norðurlanda.

Ákallið er: Grípum tækifærin, Norðurlönd!