Náttúra, loftslag og umhverfi á Norðurlöndum

Nordic Council of Ministers
Ljósmyndari
Oddleiv Apneseth
Mikil strandlengja, djúpir skógar, fjöll, engi og dalir. Norræn náttúra er einstök, allt frá svölu heimskautssvæðinu í norðri til hlýrri svæða í suðri. Golfstraumurinn er meðal þess sem tryggir milt veðurfar en Norðurlöndum stendur, eins og öðrum svæðum heimsins, ógn af loftslagsbreytingum og umhverfi sem býr við vaxandi álag af mannavöldum.

Það getur tekið sinn tíma að finna þá en allt í einu birtast þeir og sjást þó ekki til fulls í mjúkum mosanum: ilmandi og fallegir kantarellusveppir. Pokinn er orðinn fullur af bláberjum og í körfunni eru fyrir nokkrir hattsveppir. Ferðir út í skóg seinnipart sumars og á haustinn til að safna sér til matar fyrir veturinn er tómstundaiðkun sem sem margir Norðurlandabúar meta mikils. Norræn náttúra er matarbúr fullt af girnilegum plöntum, fiski í vötnum og ám og villtum dýrum svo sem hjörtum, villisvínum og elgum.

Fyrir mörgum Norðurlandabúum er líf í sátt við náttúruna sjálfsagt, jafnvel þótt hvunndagur viðkomandi sé í miðri stórborg. Frá flestum borgum og bæjum á Norðurlöndum er beinn og auðveldur aðgangur að náttúrunni. Strandferðir með sjóböðum, síðsumarferðir þar sem tínd eru ber eða sveppir, skíðaferðir í sindrandi hvítu landslagi og skógarferðir þar sem fyrstu vorblómin eru tínd eru sjálfsagðir hlutir fyrir marga ár eftir ár.

Norræn náttúra er einstök og fögur en líka viðkvæm. Sérstaklega norðan við heimskautsbaug vaxa plönturnar hægt og það getur tekið náttúruna langan tíma að jafna sig eftir íhlutun mannsins ef hún er þá fær um það yfirleitt. Á þéttbýlustu svæðum Norðurlanda, ekki síst í Danmörku, eru aðeins fá svæði eftir þar sem finna má hina upprunalegu náttúru.

Ógnvekjandi loftslagsbreytingar

Loftslag er að breytast um allan heim af völdum hnattrænnar hlýnunar. Líklegt er að afleiðingar loftslagsbreytinga verði ekki síst alvarlegar á heimskautssvæðunum og þegar eru margar augljósar vísbendingar, ekki síst á Grænlandi, um að náttúra og umhverfi séu undir miklu álagi. Dýr missa heimkynni sín og mannfólkið verður að lifa með því að ýmsar aðstæður í náttúrunni breytast sem einnig hefur áhrif á efnahag og menningu.

Tíðari flóð sem er afleiðing af meiri rigningum og hækkun vatnsborðs meðfram ám og strandlengjum, valda þegar auknu álagi á innviði og byggingar um öll Norðurlönd og ákveðnum efnahagslegum þrýsingi.

Breytingarnar eru hraðari norðan heimskautsbaugs en annars staðar í heiminum. Meðalhitastig ársins á Norðurskautinu hefur hækkað tvöfalt meira en á syðri breiddargráðum undanfarna áratugi. Jöklar og hafís bráðna hraðar en gert hafði verið ráð fyrir og ríkisstjórnir norrænu ríkjanna líta þessa þróun afar alvarlegum augum.

Kutter ved Upernavik
Ljósmyndari
Mats Bjerde

Hafið undir álagi

Norðurlöndin eru umlukin sjó frá Eystrasalti í suðri til Norður-Íshafsins í norðri. Allt frá víkingaöld hefur hafið skipt miklu máli fyrir íbúa Norðurlanda, bæði sem flutningaleið og uppspretta fæðu. Flestir íbúar Norðurlanda eiga heima nálægt sjó og margir líta á auðvelt aðgengi að sjó sem mikilvæg lífsgæði. Vernd hafsins er því ofarlega á dagskrá í öllum norrænu ríkjunum. 

Unnið er að því að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins og að draga eins og kostur er úr því að til komi framandi og lífkerfi sem ógna umhverfinu. Vistkerfi hafsins er undir þrýstingi vegna efna sem eru hættuleg umhverfinu og losað er í hafið og vegna skipaumferðar. Eystrasaltinu stendur til dæmis ógn af auknum þörungavexti og unnið er að því að draga úr losun köfnunarefnis og fosfórs.

Annað dæmi er ógnin sem stafar af ágengum tegundum eins og rússneska Kamtjatka-krabbanum eða kóngakrabba sem hratt og örugglega ógnar heimkynnum upprunalegra tegunda meðfram stórum hlutum norsku strandlengjunnar.

Vinnan sem tengist lífríki sjávar á sér stað í nánu samstarfi við alþjóðleg samtök svo sem Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar og með stuðningi alþjóðlegra umhverfissáttmála.

Þjóðgarðar og óspillt náttúra

Þeim plöntu- og dýrategunum sem eru í hættu fer fjölgandi og um allan heim finnast dæmi um að tegundir hopi eða hreinlega deyi út. Þetta á einnig við um Norðurlönd. Norrænu ríkisstjórnirnar hafa þess vegna ákveðið að koma á fót þjóðgörðum þar sem náttúran fær að þróast án beinnar íhlutunar mannsins. Meira að segja í hinu þéttbýla landi Danmörku er nú að finna þjóðgarða og það er nauðsynlegt til þess að vernda og varðveita líffræðilegan fjölbreytileika.

Ferðamenn streyma til Norðurlanda til þess að upplifa hina einstöku náttúru. Þetta á við um allt frá dönskum sandströndum til norskra fjarða og fjalla, íssins á Grænlandi, sænskra skóga og hinna þúsund vatna í Finnlandi.

Vaxandi áhugi á fegurð og ró náttúrunnar er af hinu góða en veldur einnig álagi og í fjölgun fólks í náttúrunni getur beinlínis falist ógn. Hugtakið „people polution“ er notað um náttúruperlur sem eru mikið heimsóttar af ferðamönnum og víða á Norðurlöndum er unnið markvisst að því að verja náttúruna og umhverfið og komast hjá massatúrisma.

Birketræer
Ljósmyndari
Benjamin Suomela / Norden.org

Heilbrigðismál og umhverfi

Árið 1989 kom Norræna ráðherranefndin á fót Svansmerkinu sem nánast allir íbúar Norðurlanda þekkja nú. Vara ber þetta merki vegna þess að hún er meðal þeirra sem íþyngja umhverfinu minnst í tilteknum vöruflokki.

Norrænu ríkin eiga langa hefð fyrir því að vinna saman að umhverfismálum og Svansmerkið er aðeins eitt af mörgum dæmum um þetta samstarf. Lengi hefur verið vitað að ekki er hægt að vinna einangrað að umhverfismálum heldur verður að líta á þau sem hluta af hnattrænni heild. Til dæmis vinna norrænu ríkin saman að því að vernda náttúruna og umhverfið á norðurskautssvæðunum.

Þá snerta umhverfismálin einnig stundum lýðheilsumál, það á til dæmis við um skaðleg efni og efnavörur.

Þess vegna eiga ekki lengur að vera vörur á markaði árið 2020 sem innihalda skaðlegar efnavörur sem eru hættulegar umhverfi og heilsu manna. Þetta er hið metnaðarfulla markmið norræns umhverfissamstarfs um efni og efnavörur. Til að ná þessu markmiði þarf meðal annars að afla meiri vitneskju um þær efnavörur sem nú eru notaðar. Þess vegna er verið að þróa gagnagrunna og aðferðir sem eiga að kortleggja skaðleg efni. Niðurstöðurnar verða bæði notaðar á Norðurlöndum og í alþjóðlegu samhengi, svo sem hjá Sameinuðu þjóðunum og í Evrópusambandinu.

Loftið sem við öndum að okkur á heldur ekki að innihalda mengandi efni yfir þeim mörkum sem skaða umhverfið og heilsu manna.  Í þessum tilgangi á að draga úr losun skaðlegra efna frá iðnaði, stórborgum og frá samgöngugeiranum. Norrænu ríkin vinna einnig saman á þessu sviði og rannsóknir á samspili náttúru, umhverfis og lýðheilsu fara fram þvert á landamæri.

Cyklist i park
Ljósmyndari
Benjamin Suomela / Norden.org

Áhersla á sjálfbærni

Það er norrænt metnaðarmál að vera í forystu í vinnunni að þróun á hreinum vörum þar sem auðlindir eru nýttar eins vel og kostur er og að því að neysla verði sjálfbær. Hvorki vörur né þjónusta mega skaða umhverfi og heilsu og þetta á við um allt ferlið frá framleiðslu til úrgangs.

„Waste is money“ er orðinn kjarninn í mörgum norrænum framleiðslugreinum þar sem litið er á endurvinnslu úrgangs og hringrás sembæði ábyrga og arðsama leið til framtíðar. Auk þess er á öllum Norðurlöndum unnið að því að bæði í opinbera geiranum og einkageiranum séu umhverfismál höfð að leiðarljósi í innkaupum.

Norrænu ríkisstjórnirnar vinna að langtímamarkmiði loftslagssamningsins um að ná því jafnvægi í losun gróðurhúsalofttegunda að íhlutun mannsins hafi ekki enn frekari áhrif á loftslagið á jörðinni. Sérstaklega er unnið að þessu með öðrum löndum á Eystrasaltssvæðinu.

Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíðarsýn fyrir árið 2030

Framkvæmdaáætlunin lýsir því hvernig Norræna ráðherranefndin mun vinna að því að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar með röð verkefna sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Stefnumarkandi áherslurnar og markmiðin munu vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætlunin er í tólf hlutum og fjallar hver þeirra um eitt markmið