Norðurlandaráð 70 ára

Nordiske flag
Ljósmyndari
norden.org
Norðurlandaráð vinnur fyrir þig og daglegt líf þitt. Það hefur ráðið gert frá árinu 1952 þegar myndaður var opinber rammi um samstarf norrænu þjóðþinganna. Norðurlandaráð fagnar því 70 ára afmæli í ár.

Fulltrúarnir 87 í Norðurlandaráð vinna að lausnum sem eiga að bæta daglegt líf Norðurlandabúa, einkum með tilliti til aukinna tækifæra á því að starfa þvert á landamæri án vandkvæða.

Á undanförnum árum hafa utanríkis- og öryggismál orðið æ mikilvægari innan Norðurlandaráðs eftir að hafa verið feimnismál áratugum saman. Í dag tekur ráðið afstöðu í utanríkismálum og vinnur að því að efla lýðræðið.

Almenningur á Norðurlöndum er enn mjög hlynntur norrænu samstarfi. Samkvæmt rannsókn frá árinu 2021 telja 86 prósent Norðurlandabúa samstarfið mikilvægt.

Mikilvægur vettvangur

Erkki Tuomioja, núverandi formaður Norðurlandaráðs hefur setið í ráðinu frá árinu 1970 ef undan er skilið tímabil þegar hann gegndi ráðherraembætti og hann lítur á ráðið sem mikilvægan pólitískan vettvang.

„Norrænt samstarf nýtur afar mikilla vinsælda meðal Norðurlandabúa svo okkur ber skylda til að standa undir væntingum og sjá til þess að það beri árangur. Lönd okkar standa frammi fyrir svipuðum úrlausnarefnum á mörgum sviðum. Þar gegnir Norðurlandaráð veigamiklu hlutverki sem vettvangur þar sem við getum miðlað af reynslu okkar og lært hvert af öðru, en einnig sem vettvangur þar sem við getum lagt fram beinar tillögur að norrænum lausnum í þágu almennings.“

Staðreynd:

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur norrænu þjóðþinganna. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.

Ráðið fundar fimm sinnum á ári. Mikilvægasti fundur ráðsins er Norðurlandaráðsþingið sem haldið er í viku 44 ár hvert.

Ráðið hefur forsætisnefnd, fjórar fagnefndir og fimm flokkahópa.