Norðurlönd eiga að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi

Hinn 19. júní komu norrænu samstarfsráðherrarnir sér saman um nýja framtíðarsýn fyrir Norrænu ráðherranefndina. Forsætisráðherrarnir samþykktu framtíðarsýnina hinn 20. júní 2019.

Við umfjöllun um framtíðarstefnuna lögðu forsætisráðherrarnir áherslu á að allt starf á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar eigi að þjóna þessari framtíðarsýn. Skipting fjárveitinga innan samstarfsins skal einnig taka mið af þeim stefnumótandi áherslum sem framtíðarsýnin felur í sér.

Það mun hafa í för með sér ákveðna endurskipulagningu á starfinu og áherslum þess.

Til þess að þessi framtíðarsýn megi rætast verður sérstök áhersla lögð á þrjá þætti í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar á næstu fjórum árum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd.

Allar ráðherranefndir og stofnanir eiga að stuðla að því með beinum aðgerðum og tryggja í sameiningu að framtíðarsýnin rætist. Á haustdögum 2019 mun einnig fara fram undirbúningsvinna, bæði í löndunum, Norðurlandaráði og meðal almennings og atvinnulífsins á Norðurlöndum í heild.