Norðurlönd eiga að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi

Landsväg
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Hinn 19. júní komu norrænu samstarfsráðherrarnir sér saman um nýja framtíðarsýn fyrir Norrænu ráðherranefndina. Forsætisráðherrarnir samþykktu framtíðarsýnina hinn 20. júní 2019.

Við umfjöllun um framtíðarstefnuna lögðu forsætisráðherrarnir áherslu á að allt starf á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar eigi að þjóna þessari framtíðarsýn. Skipting fjárveitinga innan samstarfsins skal einnig taka mið af þeim stefnumótandi áherslum sem framtíðarsýnin felur í sér.

Það mun hafa í för með sér ákveðna endurskipulagningu á starfinu og áherslum þess.

Til þess að þessi framtíðarsýn megi rætast verður sérstök áhersla lögð á þrjá þætti í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar á næstu fjórum árum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd.

Allar ráðherranefndir og stofnanir eiga að stuðla að því með beinum aðgerðum og tryggja í sameiningu að framtíðarsýnin rætist. Á haustdögum 2019 mun einnig fara fram undirbúningsvinna, bæði í löndunum, Norðurlandaráði og meðal almennings og atvinnulífsins á Norðurlöndum í heild. 

Framtíðarsýn okkar 2030

Hér eru markmiðin tólf á íslensku:

Græn Norðurlönd

Saman ætlum við að greiða fyrir grænum umskiptum í samfélögum okkar og vinna að kolefnishlutleysi og sjálfbæru hringrásarhagkerfi og lífhagkerfi.

​Á árunum 2021–2024 leggur Norræna ráðherranefndin áherslu á:

 • 1. Að efla rannsóknir, þróun og stuðning við lausnir sem stuðla að kolefnishlutleysi og aðlögun að loftslagsbreytingum, í samgöngum, byggingariðnaði, matvælageira og á sviði orkumála.
 • 2. Að tryggja líffræðilega fjölbreytni og sjálfbæra nýtingu sjávar og náttúru á Norðurlöndum.
 • 3. Að styrkja hringrásar- og lífhagkerfi, sjálfbæra og samkeppnishæfa framleiðslu, sjálfbær matvælakerfi svo og auðlindanýtnar og eiturefnalausar hringrásir á Norðurlöndum.
 • 4. Sameiginlegar aðgerðir í þágu sjálfbærrar neyslu sem auðvelda norrænum neytendum að finnast  eftirsóknarvert að velja hollt, umhverfis- og loftslagsvænt.
 • 5. Að stuðla að jákvæðri þróun í alþjóðlegu umhverfis- og loftslagsmálastarfi, meðal annars með kynningu á norrænum umhverfislausnum um allan heim.
Samkeppnishæf Norðurlönd

Saman ætlum við að efla grænan hagvöxt á Norðurlöndum, byggðan á á þekkingu, nýsköpun, hreyfanleika og stafrænni samþættingu.

​Á árunum 2021–2024 leggur Norræna ráðherranefndin áherslu á:

 • 6. Að styðja við þekkingu og nýsköpun og auðvelda fyrirtækjum á Norðurlöndum að nýta sér til fulls þá þróunarmöguleika sem skapast í grænum, tæknilegum og stafrænum umskiptum og vaxandi lífhagkerfi.
 • 7. Færniþróun og öflugan vinnumarkað sem mætir þörfum vegna grænna umskipta og stafrænnar þróunar og styður við frjálsa för innan Norðurlanda.
 • 8. Að nýta stafvæðingu og menntun til að tengja Norðurlönd enn nánar saman.
Félagslega sjálfbær Norðurlönd

Saman ætlum við að efla samfellt svæði án aðgreiningar þar sem jafnrétti ríkir og sem byggist á sameiginlegum gildum og enn öflugri menningarsamskiptum og velferð.

​Á árunum 2021–2024 leggur Norræna ráðherranefndin áherslu á:

 • 9. Góða og örugga heilbrigðisþjónustu og velferð án aðgreiningar og þar sem jöfnuður ríkir.
 • 10. Að allir Norðurlandabúar taki þátt í grænum umskiptum og stafrænni þróun, að nýta styrkleikana og vinna gegn því að umskiptin leiði til aukinnar misskiptingar í samfélaginu.
 • 11. Að efla rödd og þátttöku norrænna félagasamtaka, einkum barna og ungmenna, í norrænu samstarfi, og auka þekkingu þeirra á tungumálum og menningu nágrannaþjóðanna
 • 12. Að standa vörð um traust og samloðunarkraft á Norðurlöndum, sameiginleg gildi og norrænt samfélag með áherslu á menningu, lýðræði, jafnrétti, þátttöku allra, bann við mismunun og tjáningarfrelsi.