Norðurlöndin eru mætt á leiðtogafund SÞ um líffræðilega fjölbreytni, COP15

Toppmötet COP15 bygs i Montreal
Ljósmyndari
Paul Chiasson/Zuma/Ritzau Scanpix
Allur heimurinn kemur saman í Montreal 7.-19. desember til að ná samkomulagi um nýjan alþjóðasamning til varnar náttúrunni. Norðurlöndin eru mætt með ráðherra, þingmenn og fjölmennan hóp ungs fólks.

Leiðtogafundi SÞ um líffræðilega fjölbreytni er ætlað að skila heiminum nýjum samningi um líffræðilega fjölbreytni – Parísarsamningi um náttúruna.

Hópur skipaður 18 fulltrúum ungs fólks frá Norðurlöndum tekur þátt í lokaviðræðunum í Montreal og kemur sjónarmiðum sínum á framfæri.

Um 3000 ungir Norðurlandabúar hafa komið að gerð „Nordic Youth Position paper on Biodiversity“. Ungt fólk á aldrinum 16 til 30 ára hefur unnið saman í tvö ár að mótun 19 krafna til nýja alþjóðasamningsins og verður þeim fylgt eftir í lokaviðræðunum.

Mælanleg markmið og skýrar kröfur

Loftslags- og umhverfisráðherrar Norðurlanda eru með sameiginlega hvatningu fyrir lokasprettinn í samningaviðræðum SÞ: Stöðva verður hnignun líffræðilegrar fjölbreytni með alþjóðasamningi sem felur í sér mælanleg markmið og skýrar kröfur um framkvæmd hans.

Margar kröfur unga fólksins endurspeglast einnig í yfirlýsingu umhverfisráðherranna.

Norrænn sjóður ungs fólks fyrir starf að líffræðilegri fjölbreytni og loftslagsmálum.

Norðurlönd hafa og eiga áfram að sýna mikinn metnað á sviði líffræðilegrar fjölbreytni og loftslagsmála. Sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs samþykkti nýlega tillögu um norrænan sjóð fyrir starf ungs fólks að líffræðilegri fjölbreytni og loftslagsmálum.

Nefndin hvetur Norðurlöndin til að taka forystu og vera nýskapandi á sviði líffræðilegrar fjölbreytni og loftslagsmála.

Hvers vegna er nýi samningurinn mikilvægur?

Ástand náttúrunnar fer hratt versnandi um allan heim. Af átta milljónum dýra- og plöntutegunda er ein milljón í útrýmingarhættu.

Náttúrukreppan er einnig staðreynd á Norðurlöndum.

Líffræðileg fjölbreytni skiptir sköpum fyrir heilbrigði og vellíðan fólks, efnahagslega velgengni, matvælaöryggi og öryggi á fleiri sviðum. Þessir þættir eru ekki aðeins nauðsynlegir mannkyninu og samfélögum þess heldur einnig jörðinni sjálfri og öllum lífverum sem hana byggja.

Í samningi SÞ voru fyrir tíu árum sett 20 markmið fyrir líffræðilega fjölbreytni til að takast á við sívaxandi hnignun hennar.

Ekkert þessara markmiða hefur náðst að fullu. Næstu ár munu ráða úrslitum um hvort tekst að stöðva hnignun líffræðilegrar fjölbreytni.