Norræn gildi geta haft bætandi áhrif á heiminn

Nú fer að styttast í þjóðfundi sumarsins. Alls staðar á Norðurlöndum hefur myndast hefð fyrir því að fólk safnist saman í nokkra daga og ræði menn og málefni þvert á flokka og pólitískar skoðanir. Í Arendal í Noregi, á Borgundarhólmi í Danmörku, í Almedalen á Gotlandi, í Reykjavík og á SuomiAreena í Pori í Finnlandi.

Tekist er á í sátt og samlyndi, umræðan er opin og dagskráin fjölbreytt. Ráðherrar, þingmenn, hagsmunaverðir og álitsgjafar ræða saman um þjóðfélagsmál – og ekki síður við áhugasaman almenning. Rætt er af miklu kappi en andrúmsloftið er óneitanlega afslappaðra en í pólitískum skylmingum á virkum dögum. Ég hef alltaf haft mikla ánægju af að sækja þjóðfundi og ég er þegar farinn að hlakka til fundarins á Borgundarhólmi um miðjan júní.

Þjóðfundir með sínum norrænu notalegheitum eru einstakar samkomur en samtímis bera þeir vott um gildi sem eru undirstaða norrænna samfélaga: Lýðræði, tjáningarfrelsi, jafnrétti, gagnkvæma virðingu og traust.

Við Norðurlandabúar höfum löngum litið á umrædd gildi sem sjálfsagðan hlut. Kannski hættir okkur til að gleyma mikilvægi þeirra í samfélögum okkar. Gildin eru hornsteinn frjálsra velferðarsamfélaga þar sem jöfnuður ríki. Þau hafa skapað forsendur fyrir farsælli þróun í löndum okkar á síðustu öld.

En þegar við lítum út í heim erum við minnt á að gildi þessi eru ekki almenningseign. Og það er sótt að þeim. Lýðræði og tjáningarfrelsi standa andspænis hatursorðræðu, fölskum fréttum og valkvæðum staðreyndum. Í jafnréttisbaráttunni náðust gríðarlegir og mikilvægir áfangar á síðustu öld en nú sjáum við að afturför hefur orðið á því sviði. Traust og gagnsæi eru meira en gulls ígildi í norrænum samfélögum en nú er hætt við að þau gildi víki fyrir vantrausti og ótta.

Norræna ráðherranefndin er á ýmsan hátt árangur sameiginlegra gilda okkar Norðurlandabúa. Norrænu samstarfsráðherrarnir orðuðu það þannig í yfirlýsingu um framtíðarsýn norrænnar samvinnu:

Á Norðurlöndum er löng hefð fyrir traustu samstarfi sem byggist á sameiginlegri sögu, menningu og landfræðilegri legu landanna. Samfélög okkar eru einnig byggð á grunni sömu gilda; lýðræðis, mannréttinda og sjálfbærni. Við höfum nýtt þessa sérstöðu í norrænu samstarfi til að ná fram samlegðaráhrifum og skiptast á reynslu í því skyni að finna haldgóðar lausnir á fjölda sviða sem gagnast hinum almenna borgara á Norðurlöndum.

Við hjá Norrænu ráðherranefndinni vinnum daglega með þessi sameiginlegu gildi þjóðanna. Þau eru rauður þráður í mörgum norrænum samstarfsverkefnum hvort sem þau eru á sviði heilbrigðis, menningar, umhverfis eða sjálfbærs hagvaxtar.

En vinna okkar með umrædd gildi einskorðast ekki við Norðurlönd. Við miðlum einnig reynslu okkar til annarra landa.

Þegar jafnréttismálaráðherrar Norðurlanda taka þátt í fundum Kvennanefndar SÞ í New York hlustar fólk með eyrun sperrt þegar þeir segja frá norrænum lausnum í jafnréttismálum, t.a.m. fæðingarorlofi og barnagæslu.

Þegar Norræna ráðherranefndin styður við þróun óháðra rússneskra fjölmiðla í Eystrasaltsríkjunum – í þeim tilgangi að gefa fjölmennum og eingöngu rússneskumælandi þjóðarbrotum kost á vönduðum fréttaflutningi – er því fagnað af stjórnvöldum í Eystrasaltsríkjunum og samstarfsaðilum í Evrópu.

Við höfum ekki svör við öllu og við eigum enn margt verk óunnið, en áhuginn á Norðurlöndum og norrænum lausnum heldur aldrei verið meiri en nú. Í ljósi þessa ákváðu forsætisráðherrar Norðurlanda að kynna nokkrar bestu lausnir landanna á hnattrænum samfélagsáskorunum fyrir öðrum hlutum heims í verkefninu „Norrænar lausnir á hnattrænum viðfangsefnum“. Með því að miðla góðum norrænum lausnum á viðfangsefnum á sviðum umhverfis- og loftslagsmála, velferðar, matvælaframleiðslu og jafnréttis viljum við leggja okkar af mörkum til þess að heimsbyggðin nái þeim góðu markmiðum sem þjóðarleiðtogarnir settu sér árið 2015 þegar þeir undirrituðu Áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030.

Um leið mun Norræna ráðherranefndin einnig í framtíðinni standa vörð um frjálsa og opna umræðu. Í tilefni Alþjóðadags fjölmiðlafrelsis, sem Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. stendur að, gáfum við út ritið „Den svåra yttrandefriheten – 15 nordiska röster“. Þar skrifa norræn skáld, fréttafólk og háskólaborgarar um áskoranir tjáningarfrelsis á Norðurlöndum, m.a. út frá jafnrétti, fjölbreytileika og málefnum barna og ungmenna. Við viljum einnig sýna hvað traust er mikilvægur þáttur í samfélögum Norðurlanda og innan skamms kemur út skýrslan „Tillit – det nordiska guldet“. Skýrslan fjallar einnig um áskoranir traustsins og hvað glatast mun í samfélögum Norðurlanda ef traust fer minnkandi.

Norræn gildi eru öflug undirstaða samfélaga okkar. Norræna ráðherranefndin verður með fulltrúa á öllum þjóðfundum sumarsins. Við munum meðal annars taka þátt í umræðu um hvernig við stöndum vörð um gildi okkar og þróum þau enn frekar.