Norræna ráðherranefndin og málefni barna og ungmenna

Markmiðið með starfi Norrænu ráðherranefndarinnar í málefnum barna og ungmenna er að skapa góð lífskjör fyrir börn og ungmenni og auka möguleika þeirra til áhrifa.
Öll börn og ungmenni eiga rétt á góðum lífskjörum og að geta látið að sér kveða óháð kyni, þjóðernis-, menningar- eða efnahagslegum bakgrunni, aldri, búsetu, kynhneigð og hreyfihömlunum.
Norræna barna- og ungmennanefndin (NORDBUK) veitir ráðgjöf og samhæfir starf ráðherranefndarinnar að málefnum barna og ungmenna. Starfssvið NORDBUK nær til allra samstarfssviða Norrænu ráðherranefndarinnar. Nánari upplýsingar um NORDBUK:
Stefna í málefnum barna og ungmenna
Norrænu ráðherranefndinni ber að vinna á grundvelli Barnasáttmála SÞ með því að standa vörð um og efla réttindi barna og ungmenna og gefa þeim kost á að nýta réttindi sín og taka virkan þátt í samfélaginu. Í því felst að öll börn og ungmenni á Norðurlöndum eigi rétt á góðum lífskjörum og geti látið að sér kveða óháð kyni, kynvitund eða kyngervi, þjóðernisuppruna, trú eða annarri lífsskoðun, fötlun, kynhneigð og aldri. Öll börn og ungmenni eigi rétt á félagslegu og efnahagslegu öryggi, andlegu og líkamlegu hreysti, frístundum og menningu, samsemd og tungumáli auk tækifæra til menntunar og þroska. Öllum börnum og ungmennum ætti að gefast kostur á að hafa áhrif á líf sitt sem og nærumhverfi og samfélagið almennt.
Meginmarkmið stefnunnar eru að (1) ráðherranefndin í heild sinni leggi meiri áherslu á að flétta réttindi barna og ungmenna inn í starf sitt þannig að betur verði hugað að og hlustað á það sem börn og ungmenni hafa að segja. Jafnframt að (2) Norræna ráðherranefndin beini í auknum mæli sjónum að þeim þremur stefnumótandi áherslusviðum sem samkvæmt stefnu þessari eru mikilvægust í starfinu fram til ársins 2022.
Stefnumótandi áherslusviðin eru:
- Öflugur stuðningur við börn og ungmenni í áhættuhópum og virkni þeirra í samfélaginu
- Áframhaldandi samstarf og stuðningur við borgaralegt samfélag
- Betri þekkingarmiðlun og aukin færniþróun
Hér getur þú lesið stefnuna í heild:
Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíðarsýn fyrir árið 2030
Framkvæmdaáætlunin lýsir því hvernig Norræna ráðherranefndin mun vinna að því að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar með röð verkefna sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Stefnumarkandi áherslurnar og markmiðin munu vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætlunin er í tólf hlutum og fjallar hver þeirra um eitt markmið