Norræna ráðherranefndin um jafnréttismál og LGBTI (MR-JÄM)

Sameiginleg menning, saga og lýðræðishefð Norðurlandanna hefur gert þeim kleift að þróa náið og árangursríkt samstarf á sviði jafnréttismála.

Sameiginleg menning, saga og lýðræðishefð Norðurlanda hefur gert þeim kleift að þróa náið og árangursríkt samstarf á sviði jafnréttismála.

Jafnrétti snýst um jafna skiptingu valds, umönnunar og áhrifa og að konur/stúlkur og karlar/drengir hafi sömu réttindi, ábyrgð og tækifæri á öllum sviðum tilverunnar. Jafnrétti gerir líka kröfu um samfélag án kynbundins ofbeldis. Til að ná markmiðinu um samfélag sem byggir á jafnrétti og réttlæti er nauðsynlegt að hafa almenna jafnréttisstefnu sem nær bæði til kvenna og karla.

Samstarf norrænu ríkisstjórnanna um jafnréttismál er leitt af norrænu jafnréttisráðherrunum sem mynda Norrænu ráðherranefndina um jafnréttismál og LGBTI (MR-JÄM). Ráðherrarnir funda að minnsta kosti einu sinni á ári og ræða málin og taka sameiginlegar ákvarðanir á þeim sviðum þar sem norrænt samstarf er árangursríkara en þegar unnið er að málefnum í hverju landi fyrir sig – svonefnt norrænt notagildi.

Norræna embættismannanefndin um jafnréttismál og LGBTI (EK-JÄM) sem er skipuð fulltrúum allra norrænu ríkjanna og Álandseyja, Grænlands og Færeyja hittist að minnsta kosti þrisvar á ári. Embættismannanefndin leiðir starfið og undirbýr fundi ráðherranna.

Skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn annast dagleg störf og framkvæmd norræna ríkisstjórnarsamstarfsins. Á skrifstofunni er einnig Menningar- og auðlindadeild sem undirbýr málefni sem meðal annars eru til meðferðar í Norrænu ráðherranefndinni um jafnréttismál og LGBTI. Skrifstofan sér einnig um að koma ýmsum málum sem samþykkt hafa verið í framkvæmd.

Ráðherranefndin á í virku samstarfi við grannsvæðin, en til þeirra teljast Eystrasaltsríkin, norðvesturhluti Rússland, Norðurskautið og svæðið við Barentshaf. Norrænir embættismenn á sviði jafnréttismála hitta samstarfsfólk sitt frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen annað hvert ár og ræða sameginleg áherslumál. Norrænt samstarf um jafnréttismál er einnig sýnilegt í alþjóðasamfélaginu, til dæmis með þátttöku í árlegum fundum kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (CSW).

Markmið og framtíðarsýn

Pólitískur rammi norræns samstarfs um jafnréttismál er settur fram í samstarfsáætlun sem gildir fyrir tímabilið 2015-2018. Árlegar aðgerðaáætlanir bætast við samstarfsáætlunina. Í samstarfsáætluninni 2015-2018 eru tvö áherslusvið: opinbert rými ásamt velferð og nýsköpun. Í áætluninni eru einnig tvö þverlæg þemu: sjálfbær þróun með áherslu á margbreytileika ásamt virkri þátttöku karla og drengja í jafnréttisstarfi. Framkvæmd jafnréttisáætlunarinnar byggir á samþættingu jafnréttissjónarmiða.

Áherslur og árangur

Ráðherranefndinni er ætlað að vinna áfram að því að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið á öllum sviðum samfélagsins.

Á sviði áherslusviðsins „opinbert rými“ leitast Norðurlöndin, Álandseyjar, Færeyjar og Grænland við að:

  • Konur og karlar eigi sama aðgang að og tækifæri til áhrifa og valda í ákvarðanatökuferlum og í uppbyggingu norrænu velferðarsamfélaganna.
  • Konur og karlar á Norðurlöndum hafa sama aðgang að fjölmiðlum og tækifæri til að nota þá.
  • Vinna gegn því að opinbert rými sé kynferðislegt.
  • Vinna gegn andstöðu við jafnrétti og kynbundinni hatursorðræðu.

Á sviði áherslusviðsins „velferð og nýsköpun“ sækjast Norðurlöndin, Álandseyjar, Færeyjar og Grænland eftir því að:

  • Konur og karlar ásamt stúlkum og drengjum á Norðurlöndum hafi sömu tækifæri til menntunar og rannsókna ásamt því að þróa persónulegan metnað, áhugamál og hæfileika.
  • Konur og karlar á Norðurlöndum hafi sömu tækifæri til þess að sameina fjölskyldulíf og starf.
  • Kynbundið ofbeldi sé ekki liðið.
  • Auka þekkingu á að konur og karlar ásamt stúlkum og drengjum hafi sama aðgang að heilbrigðisþjónustu og félagslegri þjónustu og að það sama eigi við um tækifæri til heilbrigðis og vellíðunar.

Norræn samstarfsáætlun um jafnrétti 2019–2022