Norrænt samstarf á sviði jafnréttismála

Jöfn tækifæri og jafnvægi milli vinnu og heimilis eru ekki aðeins réttindamál heldur einnig efnahaglegur ávinningur. Aukið jafnrétti karla og kvenna hefur aukið hagsæld á Norðurlöndum. Umönnun barna á viðráðanlegu verði, menntun og fæðingarorlof fyrir báða foreldra hafa aukið velferð og hagvöxt. Kynnist sex einstaklingum sem hafa náð jafnvægi – milli heimilis og vinnu. Þetta er #NordicEquality

Jafnréttismál eru eitt þeirra sviða sem Norðurlöndin eiga hvað mest samstarf á. Þetta mikla samstarf hefur stuðlað að því að Norðurlönd eru nú það svæði þar sem jafnrétti er mest í heiminum.

Samstarf norrænu ríkisstjórnanna á sviði jafnréttismála fer fram undir stjórn ráðherra jafnréttismála, sem saman mynda MR-JÄM.

Á milli þess sem ráðherrarnir funda sjá fulltrúar í embættismannanefndinni um jafnréttismál, ÄK-JÄM, til þess að málum sé fylgt eftir eða þau undirbúin á ýmsum pólitískum forgangssviðum.  

Sameiginleg menningarsaga og lýðræðishefð hefur gert norrænu löndunum kleift að byggja upp náið og gagnlegt samstarf sín á milli á sviði jafnréttismála.

Árið 1974 ákvað Norræna ráðherranefndin að ríkisstjórnir allra landanna skyldu útnefna einstakling til að sjá um tengsl við hinar ríkisstjórnirnar á sviði jafnréttismála. Nokkrum árum síðar hafði verið unnin framkvæmdaáætlun fyrir norrænt samstarf í jafnréttismálum og embættismannanefnd var stofnuð.

Löndin bera sig saman

Jafnrétti getur aukist eða farið minnkandi í einstökum löndum, en alltaf er eitthvað til staðar sem hin löndin geta sótt innblástur í. Séu löndin fimm skoðuð sem ein heild sést það betur en ella að í samfélögum þeirra hefur átt sér stað samfelld þróun í átt til aukins jafnréttis allt frá áttunda áratug 20. aldar.

Í alþjóðlegum samanburðarrannsóknum eru Norðurlönd iðulega meðal þeirra landa þar sem jafnrétti er mest. Niðurstöður rannsókna á valdahlutföllum og tölfræðilegar upplýsingar sýna þó að enn er langt í land.

Kynjaskiptur vinnumarkaður

Hlutfall kvenna á vinnumarkaði á Norðurlöndum er hátt í samanburði við aðra heimshluta. Þó er þátttaka kvenna og karla á vinnumarkaði ekki á jöfnum forsendum. Vinnumarkaðurinn er kynjaskiptur og launamunur er enn til staðar. Konur vinna auk þess hlutastörf í meiri mæli en karlar. Þá er mikið verk óunnið hvað varðar kynbundið ofbeldi.

Á þessari vefsíðu má nálgast nýlegar pólitískar áætlanir fyrir jafnréttissamstarf Norðurlanda og ítarlegt efni um stöðu og þróun jafnréttismála á Norðurlöndum.