Norrænt samstarf um orkumál

Norrænt samstarf um orkumál er einstakt í heiminum og á sér langa sögu. Fyrsta skrefið í þessu samstarfi var tekið fyrir meira en 100 árum þegar lagður var neðansjávarstrengur milli Svíþjóðar og Danmerkur árið 1915.

Nú er norrænt samstarf um orkumál samþættasta svæðisbundna samstarf í heimi og er oft bent á það sem alþjóðlega fyrirmynd. Norræna ráðherranefndin hefur verið með samstarf um orkumál á dagskrá frá því að ráðherranefndin var stofnuð árið 1972.

Öll norrænu ríkin hafa sett sér metnaðarfull markmið varðandi umskiptin til sjálfbærrar orku og löndin standa framarlega varðandi grænar orkulausnir á alþjóðavísu. Norræna samstarfið miðar að því að styðja við markmið einstakra ríkja til þess að Norðurlöndin verði áfram leiðandi alþjóðlega á þessu sviði.

Samstarfið hefur gegnum árin nýst öllu svæðinu og mun svo verða áfram. Orkulindir norrænu ríkjanna eru fjölbreytilegar og bæta því hver aðra upp þannig að ríkin geta gegnum náið samstarf sitt notið góðs af styrkleikum hvers annars. Þetta kerfi gagnast bæði fyrirtækjum og almennum borgurum í öllum norrænu ríkjunum. Orkuframboðið er öruggt og hlutur sjálfbærrar orku fer stöðugt vaxandi.

Norræna ráðherranefndin um sjálfbæran hagvöxt ber ábyrgð á samstarfinu innan Norrænu ráðherranefndarinnar og norrænir ráðherrar sem hafa orkumál á sinni könnu leiða starfið.

Samstarf um orkumál á sér einnig stað innan Norrænna orkurannsókna sem er ein af stofnunum Norrænu ráðherranefndarinnar.

Samstarf um orkumál er sömuleiðis á dagskrá Norðurlandaráðs, meðal annars í norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni og norrænu sjálfbærninefndinni.