Samstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum

Bad i varme kilder
Photographer
Karin Beate Nøsterud/norden.org
Heilsufar Norðurlandabúa er almennt gott. Lífslíkur Norðurlandabúa eru yfir 80 ár og það lítur út fyrir að fólk búi við góða heilsu sífellt stærri hluta ævinnar. Ungbarnadauði á Norðurlöndum er einn sá lægsti í heimi. Norrænu ríkin fimm eru öll í hópi þeirra tuttugu landa þar sem ungbarnadauði er minnstur og fjögur norrænu ríkjanna eru í hópi þeirra fimm til sex landa í heiminum sem koma best út í þessu sambandi.

Í ljós hefur komið að mikill áhugi er á auknu samstarfi Norðurlanda á sviði heilbrigðismála og umönnunar. 

Bo Könberg, fyrrum ráðherra í sænsku ríkisstjórninni, hefur tekið saman óháða skýrslu um það hvernig hægt sé að þróa og efla norrænt samstarf í heilbrigðismálum á næstu fimm til tíu árum. Þar leggur hann fram fjórtán tillögur um framtíðarsamstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum.

Í upphafi skýrslunnar er bent á að það sé lykilatriði í tengslum við þessar tillögur hvaða málefnum á sviði heilbrigðismála og umönnunar sé betur sinnt með norrænu samstarfi. Einnig þarf að kanna hvaða viðfangsefni sé best að takast á við á evrópskum vettvangi.  

Eftir að skýrslunni var skilað til ráðherranefndarinnar árið 2014 hafa félags- og heilbrigðisráðherrar Norðurlanda ítrekað rætt hana og tekið ákvarðanir um að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem tengjast tillögunum í skýrslunni. Fyrir neðan eru tillögurnar kynntar í stuttu máli og sagt frá stöðu mála í hverju tilviki.

 

1. Róttækar aðgerðir gegn auknu sýklalyfjaónæmi

Draga úr notkun sýklalyfja á Norðurlöndum þannig að hún verði, á innan við fimm árum, á við það sem lægst gerist í Evrópu. Efla fjárhagslega hvata til rannsókna á nýjum sýklalyfjum.

Staða: Ráðherranefndin um félags- og heilbrigðismál (MR-S) hefur, ásamt norrænu ráðherrunum á sviði matvæla og landbúnaðar, sett á fót þverfaglegan norrænan stefnumótunarhóp gegn sýklalyfjaónæmi á árinu 2016. Hópurinn á að styðja við alþjóðastarf og sameiginlegar aðgerðir Norðurlanda gegn sýklalyfjaónæmi. Auk þess hittast norrænir sérfræðingar á sviðinu reglulega og skila stefnumótunarhópnum tilmælum sem sett hafa verið í forgang. Norðmenn, sem gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2017, hafa einnig tekið frumkvæði að verkefni um að móta samnorræna almenna samskiptaáætlun á sviði sýklalyfjaónæmis.

 

2. Efla samstarf um mjög sérhæfðar meðferðir á Norðurlöndum

Koma á fót norrænum vinnuhópi skipuðum háttsettu fólki sem getur verið vettvangur reglubundinna viðræðna milli landanna um þarfir og tækifæri í tengslum við samstarf á þessu sviði. 

Staða: Embættismannanefndin um félags- og heilbrigðismál (ÄK-S) hefur skipað norrænan vinnuhóp um mjög sérhæfðar meðferðir sem hóf störf árið 2016. Í vinnuhópnum eru fulltrúar norrænna heilbrigðisyfirvalda og honum er ætlað að treysta og styðja við norrænt samstarf á þessu sviði.

 

3. Koma á fót norrænu samstarfsneti um sjaldgæfa sjúkdóma

Koma á fót norrænu samstarfsneti um framtíðarsamstarf um sjaldgæfa sjúkdóma í því skyni að efla hvort tveggja verkefni sem nú er verið að vinna að og ný verkefni og til þess að bæta samhæfingu þeirra.

Staða: Embættismannanefndin um félags- og heilbrigðismál (ÄK-S) hefur myndað norrænt samstarfsnet um sjaldgæfa sjúkdóma sem hóf störf árið 2016. Hlutverk samstarfsnetsins er að leita leiða til þróa og endurnýja norrænt samstarf um sjaldgæda sjúkdóma, efla norrænt samstarf á sviðinu og bæta samhæfingu sameiginlegra aðgerða.

 

4. Stofna norræna netmiðstöð fyrir rannsóknir sem byggja á gagnagrunnum

Efla rannsóknarsamstarf um gagnagrunna, lífsýnabanka og íhlutandi klínískar rannsóknir. Innleiða kerfi fyrir gagnkvæma viðurkenningu á siðfræðilegu mati á norrænum rannsóknarverkefnum.

Staða: Formennska Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2017 hefur tekið frumkvæði að forgangsverkefni til þriggja ára, á sviði rannsóknasamstarfs um bætta heilsu: „Nordiskt forskningssamarbete för bättre hälsa“. Undir verkefnið mun falla ýmiss konar starfsemi sem tengist þessari tillögu.

 

5. Efla samstarf um aðgerðir til að bæta lýðheilsu

Auka miðlun reynslu um lýðheilsumál, einkum hvað varðar tóbaksnotkun og misnotkun áfengis.

Staða: Norrænu félags- og heilbrigðismálaráðherrarnir hafa ákveðið að taka tillögur 5 og 6 til sameiginlegrar umfjöllunar (sjá tillögu 6 hér að neðan).

 

6. Koma á fót norrænum vettvangi um lýðheilsu til að draga úr heilsuójöfnuði

Búa til vettvang fyrir tillögur að norrænum verkefnum og starfsemi sem hefur að markmiði að draga úr heilsuójöfnuði.

Staða: Félags- og heilbrigðismálaráðherrar Norðurlanda ákváðu að fjalla sameiginlega um tillögur 5 og 6. Árið 2016 samþykktu þeir að stofna Norrænan lýðheilsuvettvang með fulltrúum þeirra ráðuneyta á Norðurlöndum sem fara með lýðheilsumál. Vettvangurinn á að efla stefnumótun og framkvæmd aðgerða sem miða að góðu heilbrigði og heilsujöfnuði í löndunum. Norræna velferðarmiðstöðin (NVC) fer með umsýslu vettvangsins.

 

7. Auka hreyfanleika sjúklinga innan Norðurlanda

Leggja mat á áhrif innleiðingar Norðurlanda á tilskipun Evrópusambandsins um hreyfanleika sjúklinga á stöðu sjúklinganna sjálfra og að reyna að efla enn frekar réttinn til læknismeðferðar og umönnunar í einhverju hinna norrænu landanna.

Staða: Búist er við að ráðherranefndin fjalli um málið síðar.

 

8. Efla samstarf um velferðartækni

Móta samnorrænar skilgreiningar og sameigilegar viðmiðunarreglur um velferðartækni í því skyni að samræma staðla fyrir velferðartæknivörur. Fá notendur til að taka þátt í þróunarvinnunni.

Staða: Búist er við að ráðherranefndin fjalli um málið síðar.

 

9. Efla samstarf um rafræna heilbrigðisþjónustu

Halda áfram samstarfi um rafræna lyfseðla. Stofna norrænt bókasafn um heilbrigðismál á vefnum og þróa norræna leitarvél, „Sjúklingurinn minn“ (Min Patient).

Staða: Búist er við að ráðherranefndin fjalli um málið síðar.

 

10. Efla samstarf Norðurlanda um geðlækningar

Halda árlega norræna fundi forystufólks á sviði geðlækninga, efla norræna þekkingaröflun og miðlun reynslu um líkön fyrir bestu aðferðir

Staða: Ráðherranefndin hefur skipað norrænan vinnuhóp um geðlækningar sem á að móta ramma fyrir norrænt samstarf um aðgerðir í þágu einstaklinga sem glíma við geðsjúkdóma. Hópurinn hefur sett sér það markmið að norrænn leiðtogafundur verði haldinn annað hvert ár. Formennska Dana í ráðherranefndinni stóð fyrir norrænum leiðtogafundi á sviði geðlækninga árið 2015 og formennska Norðmanna stóð fyrir leiðtogafundi um geðheilsu í Ósló í febrúar 2017.

 

11. Víðara starfsumboð fyrir samstarf um heilbrigðisviðbúnað

Víkka starfsumboð norræna heilbrigðisviðbúnaðarhópsins (Svalbarðahópsins) og láta það ná til allra þátta samstarfs Norðurlanda um heilbrigðisviðbúnað.

Staða: Norræni heilbrigðisviðbúnaðarhópurinn hefur fengið nýtt og víðara starfsumboð sem tekur gildi 1. janúar 2017.

 

12. Efla norrænt samstarf um lyfjamál til að auka hagkvæmni og öryggi

Stofna sameiginlegt apótek fyrir óvenjuleg lyf og efla samstarfið um sjaldgæf lyf. Auka miðlun upplýsinga um innkaupasamninga og notkun nýrra lyfja.

Staða: Árið 2016 var unnið að athugun á reynslu Norðurlanda af sviði lyfjamála. Í mars 2017 voru niðurstöðurnar lagðar fyrir ráðherranefndina, sem ákvað að stofna norrænan starfshóp fyrir upplýsinga- og reynslumiðlun um verðlag og styrkjakerfi á sviði lyfjamála.

 

13. Koma á fót nýrri norrænni embættismannaskiptaáætlun

Efla núgildandi samning um embættismannaskipti með því að vinna þriggja ára tilraunaverkefni með styttri dvalartíma fyrir embættismenn sem starfa að heilbrigðismálum í ráðuneytum.

Staða: Tilraunaverkefni um stutt embættismannaskipti norrænu félags- og heilbrigðisráðuneytanna hófst á árinu 2015 og var gerð úttekt á því í árslok 2016. Á grundvelli úttektarinnar ákvað ráðherranefndin að framlengja tímabil tilraunaverkefnisins til ársins 2017 og kanna jafnframt möguleika á því að fella í framhaldinu embættismannaskipti af þessu tagi undir þær skiptaáætlanir sem fyrir eru.

 

14. Hefja norrænt samstarf um sérfræðinga sem starfa við Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins

Hefja nýtt, óformlegt samstarf um að koma sérfræðingum sem starfa fyrir hönd norrænu landanna að við Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að starfa að félags- og heilbrigðismálum.

Staða: Á fundi sínum í mars 2017 ákvað ráðherranefndin að vinna áfram að tillögunni.

Framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíðarsýn fyrir árið 2030

Framkvæmdaáætlunin lýsir því hvernig Norræna ráðherranefndin mun vinna að því að uppfylla markmið framtíðarsýnarinnar með röð verkefna sem tengjast þremur stefnumarkandi áherslum: Græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Tólf markmið hafa verið sett fyrir þessar stefnumarkandi áherslur. Stefnumarkandi áherslurnar og markmiðin munu vísa veginn í starfi Norrænu ráðherranefndarinnar næstu fjögur árin. Framkvæmdaáætlunin er í tólf hlutum og fjallar hver þeirra um eitt markmið