Starf Norrænu ráðherranefndarinnar að sjálfbærri þróun

Fyrtårn på Island
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Norðurlöndunum er ætlað að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030. Það er framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir norrænt samstarf. Norrænu löndin hafa náð langt í vinnunni að sjálfbærri þróun en við stöndum enn frammi fyrir ýmsum áskorunum á sviði sjálfbærni sem við þurfum að takast á við. Norræna ráðherranefndin stuðlar með virkum hætti að sjálfbærri þróun á Norðurlöndum með því að hafa í brennidepli í allri starfsemi sinni tólf markmið sem tengjast grænum, samkeppnishæfum og félagslega sjálfbærum Norðurlöndum.

Norðurlöndin eru sammála um að vinna að sjálfbærri þróun sé meðal mikilvægustu áskorana sem við stöndum frammi fyrir. Sjálfbær þróun er metnaðarfullt en nauðsynlegt markmið. Það er engin önnur lausn: Við verðum að bæta velferð og lífsgæði í heiminum öllum og um leið tryggja getu jarðarinnar til að styðja við lífið í allri sinni fjölbreytni.

Norrænu löndin hafa náð langt í vinnu að sjálfbærri þróun og við erum ofarlega á alþjóðlegum listum um það hversu vel gengur að vinna í samræmi við heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun en við stöndum enn frammi fyrir ýmsum áskorunum á sviði sjálfbærni sem við verðum að takast á við. Þetta eru fyrst og fremst áskoranir sem tengjast vistfræðilega sjálfbærri þróun vegna þess að ósjálfbær neysla og framleiðsla, loftslagsbreytingar og kreppa líffræðilegrar fjölbreytni brenna sérstaklega á okkur.

Framtíðarsýn fyrir árið 2030

Norðurlöndum er ætlað að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030. Það er framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir norrænt samstarf. Þetta felur í sér að við verðum öll að vinna með öflugum hætti saman að því að tryggja að þróunin sé sjálfbær og að Norðurlöndin séu vel samþætt. Framtíðarsýnin fyrir 2030 er norræni samstarfsramminn í vinnu landanna að sjálfbærri þróun. Skýr tengsl eru milli framtíðarsýnarinnar fyrir 2030 og heimsmarkmiða SÞ fyrir 2030 vegna þess að framtíðarsýnin stuðlar að framkvæmd heimsmarkmiðanna og alþjóðlegu sjálfbærnimarkmiðanna.

Norrænu samstarfsráðherrarnir hafa samþykkt aðgerðaáætlun fyrir framtíðarsýnina fyrir 2030 sem nær til áranna 2021-2024. Í aðgerðaáætluninni er lýst hvernig Norræna ráðherranefndin hyggst vinna að því að framkvæma framtíðarsýnina. Aðgerðaáætluninni er skipt í þrjá hluta í samræmi við forgangsmálefni framtíðarsýnarinnar - græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd - með 12 undirliggjandi markmiðum. Öll starfsemi Norðurlandaráðs næstu fjögur ár verður byggð á aðgerðaáætluninni.

Það er afar mikilvægt að fylgjast með þróuninni í átt að hinum metnaðarfullu markmiðum. Þess vegna hafa norrænu samstarfsráðherrarnir samþykkt norræna vísa fyrir framtíðarsýn fyrir árið 2030 og er þeim ætlað að gefa heildarmynd af þróun í átt til framtíðarsýnarinnar um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims fyrir árið 2030. Norrænu vísarnir eru 45 alls og byggja á stefnumarkandi áherslum og undirliggjandi áherslusviðum.

Samþætting sjálfbærrar þróunar

Samþætta á sjálfbæra þróun við allt starf Norrænu ráðherranefndarinnar. Það er forsenda þess að við getum uppfyllt framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030. Það var ákvörðun norrænu samstarfsráðherranna þegar þeir samþykktu nýja stefnumörkun vegna samþættingar sjálfbærrar þróunar, jafnréttis og sjónarmiða um réttindi barna og ungmenna í júní 2020.

Í samþættingu sjálfbærrar þróunar við starfsemi Norrænu ráðherranefndarinnar felst að kynna sér og taka tillit til þeirra samfélagslegu áhrifa sem hljótast af verkefnum og ákvörðunum út frá félagslegum, efnahagslegum og vistfræðilegum hliðum sjálfbærrar þróunar. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2030 vísa okkur veginn, fyrst og fremst í heild sinni en einnig gegnum stök markmið og hlutamarkmið þeirra.

Norræni sérfræðingahópurinn um sjálfbæra þróun

Norrænu samstarfsráðherrarnir bera meginábyrgð á sjálfbærri þróun innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Norrænu samstarfsráðherrarnir hafa skipað norrænan sérfræðingahóp um sjálfbæra þróun til þess að aðstoða þá í vinnunni að framtíðarsýninni og sjálfbærri þróun í Norrænu ráðherranefndinni. Í sérfræðingahópunum eru fulltrúar ráðuneyta á Norðurlöndum og ungmennahreyfinga sem tengjast vinnu að sjálfbærri þróun og heimsmarkmiðunum.

Vinna sérfræðingahópsins tekur mið af norrænu aðgerðaáætluninni um sjálfbæra þróun fyrir tímabilið 2021-2024. Í aðgerðaáætluninni er staðfest að Norræna ráðherranefndin skuli hrinda í framkvæmd aðgerðum til þess að styrkja hið víðtæka samstarf um sjálfbæra þróun í Norrænu ráðherranefndinni. Sú vinna á að vera framlag til framtíðarsýnarinnar fyrir 2030 og hinna þriggja stefnumarkandi áherslna sem um leið stuðla að framkvæmd heimsmarkmiðanna, markmiða um sjálfbæra þróun til ársins 2030. Áhersla er lögð á að stuðla að samþættingu sjónarhorns sjálfbærni og leysa sameiginlegar áskoranir á sviði sjálfbærni á Norðurlöndum með því að vinna að sjálfbærri neyslu, félagslega sjálfbærum grænum umskiptum og aðkomu borgaralegs samfélags.

Starfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar vegna víðtækrar vinnu að sjálfbærri þróun byggir á hinum þremur víddum sjálfbærrar þróunar: hinni vistkerfislegu, hinni félagslegu og hinni efnahagslegu. Áætlunin byggir einnig á grundvallarreglunni um að enginn skuli hafður út undan og mannréttindum í samræmi við heimsmarkmið SÞ.