Sjálfbær þróun á Norðurlöndum

Fyrtårn på Island
Ljósmyndari
Yadid Levy / Norden.org
Norðurlöndin eru sammála um að vinnan að sjálfbærri þróun sé meðal mikilvægustu áskorana sem við stöndum frammi fyrir. Hnattvæðing, þróun upplýsingasamfélags, hækkandi meðalaldur fólks og ósjálfbærir neyslu- og framleiðsluhættir sem meðal annars leiða af sér loftslagsbreytingar, fela bæði í sér áskoranir og tækifæri fyrir Norðurlöndin. Til að mæta þessum áskorunum og nýta tækifærin þarf samnorræn þverfagleg verkefni sem byggja á meginreglunni um sjálfbæra þróun. Á tímabilinu 2017- 2020 forgangsraðar Norræna ráðherranefndarin vinnu að áætluninni „2030-kynslóðin“ til þess að stuðla að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á Norðurlöndum.

Norðurlöndin eru sammála um að vinnan að sjálfbærri þróun sé meðal mikilvægustu áskorana sem við stöndum frammi fyrir. Sjálfbær þróun er metnaðarfullt en nauðsynlegt markmið. Það er engin önnur lausn: Við verðum að bæta velferð og lífsgæði í heiminum öllum og samtímis að tryggja getu jarðarinnar til að styðja við lífið í allri sinni fjölbreytni.

Gott líf á sjálfbærum Norðurlöndum

Tryggja ber núlifandi og komandi kynslóðum öruggt, heilbrigt og mannsæmandi líf. Í norrænu ríkjunum hefur að miklu leyti tekist að sameina strangar umhverfiskröfur, hátt tekjustig, hagvöxt, þjóðhagslegan stöðugleika og félagsleg lífsgæði. Þetta er þó ekki nóg. Við verðum að styrkja verkefnin og verða betri í að hugsa sjálfbært, bæði í stefnumótandi ákvarðanatökuferlum og frá degi til dags.

Norræna ráðherranefndin byrjaði að vinna að sjálfbærri þróun fyrir síðustu aldamót. Í norrænu áætluninni um sjálfbæra þróun, Gott líf á sjálfbærum Norðurlöndum, koma fram megináherslur í starfi ráðherranefndarinnar. Sjálfbærnisjónarmið eiga að setja mark sitt á allt starf sem unnið er innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar.

Í áætluninni er að finna verklagsreglur fram til ársins 2025 sem ætlað er að efla þverfaglegt samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar á eftirfarandi áherslusviðum: Norrænt velferðarkerfi, lífvænleg vistkerfi, breytt loftslag, sjálfbær nýting auðlinda jarðar ásamt menntun, rannsóknum og nýsköpun.

2030-kynslóðin

Í áætluninni 2030-kynslóðin er lögð áhersla á að virkja börn og ungt fólk í vinnunni við breytingar, nú og í framtíðinni. Í áætluninni 2030-kynslóðin leggja norrænu ríkin áherslu á sameiginlegar áskoranir Norðurlandanna varðandi innleiðingu heimsmarkmiðanna 17 um sjálfbæra þróun. Þetta er gert með því að leggja áherslu á sjálfbæra neyslu og framleiðslu fram til ársins 2020.

Áætlunin felur í sér þrjú meginmarkmið:

  • Tryggja að starf Norrænu ráðherranefndarinnar stuðli að því með pólitískum áherslum og verkefnum að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun verði náð
  • Stuðla að þátttöku og þekkingarmiðlun varðandi heimsmarkmiðin á Norðurlöndum
  • Vekja athygli á starfi Norrænu ráðherranefndarinnar að heimsmarkmiðunum, á Norðurlöndum og alþjóðlega.

Norrænir haghafar

Samstarfsráðherrarnir bera meginábyrgð á samstarfi ríkisstjórna Norðurlanda um sjálfbæra þróun. Komið hefur verið á fót sérfræðingahópi um sjálfbæra þróun sem aðstoðar við að fylgja eftir sjálfbærnistefnu Norrænu ráðherranefndarinnar „Gott líf á sjálfbærum Norðurlöndum“ og vinnu Norrænu ráðherranefndarinnar að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Norræni sérfræðingahópurinn um sjálfbæra þróun er einnig stýrihópur fyrir 2030-kynslóðina, norrænu áætlunina þar sem unnið er að heimsmarkmiðunum á tímabilinu 2017-2020. Stýrihópsstarfsemin felur í sér að sérfræðingahópurinn leggur norrænu samstarfsnefndinni/norrænu samstarfsráðherrunum til tillögur að innleiðingu og þróun áætlunarinnar.

Framkvæmd norrænu áætlunarinnar um sjálfbæra þróun á sér stað á ýmsum samstarfssviðum ráðherranefndarinnar. Samþætta á markmið áætlunarinnar í áætlanir allra fagsviða og umbreyta í tilteknar aðgerðir með mælanleg markmið.

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlandaráðs ber ábyrgð á norrænu samstarfi þingmanna um sjálfbæra þróun.