Starfsumboð vinnuhópsins um hafið og strandsvæði (NHK) 2019-2024

Havsbild tagen av Johannes Jansson. 

Havsbild tagen av Johannes Jansson. 

Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Vinnuhópur um hafið og strandsvæði á að stuðla að vistkerfisnálgun við stjórnun sjávarauðlinda og stemma stigu við losun eiturefna, örplasts og næringarefna í hafið. Vinnuhópurinn á að auka þekkingu á áhrif loftslags á haf og strandsvæði.

1. Hlutverk og markmið vinnuhópsins

Markmið norræna vinnuhópsins um hafið og strandsvæði er að stuðla að vistkerfisnálgun við stjórnun sjávarauðlinda með það fyrir augum að ná jafnvægi í vistkerfinu. Á þessum grunni á vinnuhópurinn að vinna að því að takmarka losun næringar- og eiturefna í hafið og á strandsvæðum og jafnframt að draga úr losun úrgangs, þar með talið plasts og örplasts. Auk þess er vinnuhópnum ætlað að auka þekkingu á sambandi hafs og loftslags. Vinnuhópurinn um hafið og strandsvæði á að stuðla að því að heimsmarkmið SÞ sem snerta starfssvið hans verði náð.

2. Verkefni

Vinnuhópurinn á að stuðla að því að Norrænni samstarfsáætlun um umhverfis- og loftslagsmál 2019–2024 sé framfylgt. Hópurinn ber einkum ábyrgð á markmiðum og forgangsmálum í 6. kafla áætlunarinnar sem fjallar um hafið og strandsvæði. Hópurinn á einnig að styðja önnur fagsvið og samstarfsáætlanir þar sem við á innan vébanda norrænu embættismannanefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál (EK-MK).

Í samræmi við meginmarkmið hópsins á hann að hafa umsjón með Kaupmannahafnarsamningnum um samvinnu í baráttu gegn mengun sjávar af völdum olíu og annarra skaðlegra efna.

Hópurinn á að vinna að brýnum pólitískum forgangsmálum þegar það á við.

Verkefnavinna hópsins á að taka mið af reglum og markmiðum Norrænu ráðherranefndarinnar. Hópurinn á að stuðla að aukinni alþjóðlegri þekkingu og þróun á sínu sviði, einnig á vettvangi ESB, svæðisbundið og um heim allan.

3. Samstarf við aðra vinnuhópa og fagsvið

Sérstakt forgangsmál hópsins er að finna samlegðaráhrif í samstarfi við aðra vinnuhópa á sviði umhverfis- og loftslagsmála.

Hópurinn á að vinna þverlægt að samþættingu sjónarmiða umhverfis- og loftslagsmála á öðrum fagsviðum í þeim tilgangi að ná fram mikilvægum samlegðaráhrifum. Þetta á einnig við um samstarf við rannsóknarumhverfi, atvinnulíf og borgaralegt samfélag.

4. Samsetning vinnuhópsins

Norrænu löndin tilefna fulltrúa í vinnuhópinn. Þeir skulu vera fulltrúar sjónarmiða heimalandsins og tryggja að starfsemi hópsins eigi hljómgrunn heima fyrir. Norræna ráðherranefndin tekur reglulega þátt í fundum vinnuhópsins sem áheyrnarfulltrúi.

 

Formennska flyst milli landanna. Formennska er valin til tveggja ára í senn og hægt er að framlengja hana um önnur tvö ár. Formaður, verkefnisstjóri og fulltrúar vinnuhópsins skipta með sér hlutverkum og ábyrgð. Hópurinn getur myndað undirhópa en þeir eru háðir fyrirfram samþykki norrænu embættismannanefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál.

5. Umsýsla vinnuhópsins

Stjórnvaldsstofnun í einu Norðurlandanna er umsýslustofnun hópsins og sér um rekstur hans. Hópurinn er með að minnsta kosti einn fastan verkefnastjóra. Umsýslustofnunin getur ákveðið að fela fleiri en einum starfsmanni verkefnin.

6. Miðlun upplýsinga og samskipti

Starfsemi hópsins á að samræmast samskiptastefnu ráðherranefndarinnar, sjá kafla 7.5 í samstarfsáætluninni. Skýrar samskiptaáætlanir skulu vera um verkefni hópsins og markhópar skilgreindir meðan verkefnin eru í þróun.

 

Vekja á athygli á afraksti verkefna hópsins með markvissri miðlun og notaðar skulu hentugar samskiptaleiðir og miðlar. Skýrslur skulu gefnar út á ensku þegar það á við.

7. Skýrslugjöf og fjárhagsáætlun

Hópurinn á að gera starfsáætlun fyrir komandi ár ásamt fjárhagsáætlun vegna verkefna og umsýslu. Hópurinn á að skila ársskýrslu á hverju ári ásamt ársreikningi vegna verkefna og umsýslu á liðnu ári.

Hópurinn á í starfsáætlunum og ársskýrslum að greina frá samstarfi við aðra vinnuhópa á fagsviðinu og þeim virðisauka sem í samstarfinu felst.

 

Starfsemi mögulegra undirhópa skal tilgreind í starfsáætlunum og ársskýrslum. Starfsáætlanir og ársskýrslur eru háðar samþykki embættismannanefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál.

Verkefnastyrkir vinnuhópsins greiðast út í áföngum í samræmi við reglur Norrænu ráðherranefndarinnar.

Hvert og eitt land stendur straum að kostnaði vegna vinnu fulltrúa sinna og þátttöku þeirra í fundum.

8. Skipunartími

Starfsumboðið gildir frá 1. janúar 2019 til 31. desember 2024.

Embættismannanefndin um umhverfis- og loftslagsmál hefur samþykkt starfsumboðið. Embættismannanefndin getur gert breyingar á starfsumboðinu á tímabilinu. Vinnuhópnum er heimilt að leggja til breytingar við embættismannanefndina.