Stefna í félags- og velferðarmálum

Jordmor
Photographer
Karen Beate Nøsterud - norden.org
Önnur ríki heims líta oft til Norðurlanda sem fyrirmyndar í velferðarmálum. Fá önnur lönd hafa eins gott og þróað efnahagslegt öryggisnet fyrir borgara sína. Sú hugmynd að allir skuli hafa jöfn tækifæri er gegnumgangandi í norrænum samfélögum og hefur orðið hvati að aðgerðum sem miða að því að jafna efnahagslega misskiptingu meðal íbúanna.

Miklar breytingar áttu sér stað í norrænum samfélögum gegnum aldirnar, svo sem siðaskiptin, tilkoma borgarahreyfinga og stéttarfélaga, en það var ekki fyrr en endurreisa átti löndin að loknum tveimur heimsstyrjöldum að velferðarríkið í núverandi mynd varð til og norræna líkanið var mótað. Í stuttu máli gengur líkanið út á að skapa rými fyrir mikil og jöfn lífsgæði með hjálp traustrar stöðu í ríkisfjármálum, og það að velferðin deilist jafnt milli íbúanna.

Í litlum samfélögum á borð við þau norrænu, þar sem er fjöldi félagasamtaka, var grundvöllur fyrir flötum valdapíramídum. Þegar unnið var að því sameiginlega að byggja upp velferðarsamfélag var unnt að gera kröfu um að það yrði opið og gagnsætt og að þar yrði frjálst að tjá skoðanir sínar í ræðu og riti. Gagnsæinu hefur fylgt traust í garð samborgara og yfirvalda sem er einstakt í sinni röð í heiminum og forsenda þess að íbúarnir borgi tiltölulega háa skatta, sem nýttir eru til að fjármagna velferðarkerfið. Velferðarþjónusta er þó ekki háð skattframlagi hvers og eins heldur er hún veitt eftir þörfum.

Norræna líkanið í dag

Í dag einkennist norræna líkanið af opinberum geira sem sér borgurunum fyrir velferðarþjónustu og félagslegu öryggisneti. Þetta felur meðal annars í sér að foreldrar fá barnabætur og fæðingarorlof, heilbrigðisþjónusta og sjúkrahúsvist er almennt að kostnaðarlausu og samfélagið sinnir veikum, atvinnulausum og öldruðum. Til grundvallar liggja mannúð, umburðarlyndi og sú sannfæring að allar manneskjur séu jafn mikils virði.

Norræn velferð byggir á hugmyndinni um góða lýðheilsu fyrir alla. Alþjóðlegar aðgerðir hafa haft í för með sér að löndin hafa getað varist veirusýkingum með bólusetningum, og Norðurlönd hafa náð langt í baráttu sinni gegn lífsstílssjúkdómum með stefnu í áfengismálum og banni við reykingum.

Hinn efnahagslegi jöfnuður sem einkennir lönd okkar á þátt í því að skapa öruggara samfélag auk þess að stuðla að því góða heilsufari og miklu lífslíkum sem tíðkast á Norðurlöndum.

Áskoranir fyrir norræna líkanið

Grundvallargildi velferðarríkisins er að borgararnir eigi rétt á bótum frá hinu opinbera. Jafnframt er almennt álitið sjálfsagt að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Virk þátttaka borgaranna á hinum ýmsu sviðum samfélagsins og á vettvangi félagasamtaka auðgar norræna menningu og eflir lýðræðið. Þátttaka þeirra stuðlar einnig að auknum lífsgæðum. Norrænu löndin lenda í efstu sætum þegar gerðar eru alþjóðlegar samanburðarrannsóknir á gagnsæi, trausti og hamingju. 

Kannski er sérlega sárt að lenda utangarðs í samfélagi þar sem flestir hafa það tiltölulega gott? Einnig hér á Norðurlöndum stríðir fólk við fátækt, skort á heilbrigðisþjónustu og jaðarsetningu, og þessi mál eru stöðugt til umræðu í þjóðfélaginu. Getan til stöðugra umbóta til að mæta áskorunum samtímans er forsenda þess að varðveita norræna líkanið og finna nýjar velferðarlausnir.