Stjórnmál

Hans Wallmark
Ljósmyndari
Morten Brakestad/norden.org
Á Norðurlöndum er löng hefð fyrir lýðræði og víðtæku jafnrétti. Í öllum ríkjunum fimm er svokallað neikvætt þingræði, mikil kosningaþátttaka – og lítil spilling.

Síðan snemma á 20. öld hefur markviss lýðræðisþróun átt sér stað í norrænu löndunum. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er þingbundin konungsstjórn þar sem þjóðhöfðinginn er konungur eða drottning, en Finnland og Ísland eru lýðveldi þar sem forseti gegnir stöðu þjóðhöfðingja.

Kóngafólk Norðurlanda hefur ekki raunveruleg pólitísk völd, en þjóðhöfðingjar Danmerkur og Noregs sitja í ríkisráði ásamt ríkisstjórnum landanna og undirrita öll lög sem sett eru. Aðalsfólk í Danmörku og Svíþjóð hefur heldur engin pólitísk áhrif og tekur í dag fullan þátt í borgaralegu samfélagi.

Á Íslandi er forsetinn þjóðhöfðingi á svipaðan hátt og kóngar og drottningar skandinavísku ríkjanna. Forseti Finnlands hefur aftur á móti áhrif á utanríkisstefnu landsins, málefni hersins og skipan í tiltekin embætti.

Í norrænu löndunum er ríkisvaldinu þrískipt í löggjafar-, dóms- og framkvæmdavald. Stundum er talað um hina frjálsu fjölmiðla sem „fjórða valdið“ í löndunum. Hart er tekið á misferli og norrænu löndin eru ofarlega á blaði yfir þau lönd heims þar sem spilling er með minnstu móti

Þjóðþing og ríkisstjórnir

Alls staðar á Norðurlöndum er lýðræði í formi þingræðis. Valdið er í höndum meirihluta þingsins. Ríkisstjórn þarf ekki að hafa meirihluta á þingi, en hægt er að mynda meirihluta um einstök mál. Minnihlutaríkisstjórnir hafa verið algengar á Norðurlöndum. Ríkisstjórnir á Norðurlöndum geta aðeins setið meðan þær njóta samþykkis meirihluta á þingi. Ekki er þó gerð krafa um að þingmeirihluti styðji ríkisstjórnina heldur nægir að meirihlutinn sé henni ekki andvígur. Þetta er kallað „neikvætt þingræði“.

Norrænu þjóðþingin bera mismunandi nöfn og eru misjafnlega fjölmenn. Danska Þjóðþingið (Folketinget) skipa 179 þjóðkjörnir fulltrúar, þar af tveir fulltrúar Færeyja og tveir frá Grænlandi.

Finnska Ríkisdaginn (Eduskunta/Riksdagen) skipa 200 þjóðkjörnir fulltrúar og er einn þeirra frá Álandseyjum. Á Alþingi Íslendinga sitja 63 þjóðkjörnir fulltrúar, á norska Stórþinginu (Stortinget) 169 og á sænska Ríkisdeginum (Riksdagen) 349.

Á Lögþingi Færeyinga (Lagtinget) sitja 33 þjóðkjörnir fulltrúar, 31 á Landsþingi Grænlands (Inatsisartut) og 30 á Lögþingi Álandseyja (Lagtinget).

Kosningaaldur í löndunum er 18 ár.

Víðtækt jafnrétti

Þegar árið 1862 fengu sumar konur í Svíþjóð kosningarétt til sveitarstjórnarkosninga. 1906 fengu konur kosningarétt í Finnlandi en 1921 í Svíþjóð. Í Noregi gerðist það 1913 og í Danmörku (og á Íslandi þar með) 1915. Öll norrænu ríkin fimm voru þannig með þeim fyrstu í heimi til að innleiða kosningarétt kvenna. Til samanburðar fengu konur kosningarétt í Sviss árið 1971.

Kosningaréttur kvenna hefur verið þýðingarmikill hornsteinn í þróun jafnréttis kynjanna á Norðurlöndum. Konur hafa verið forsetar bæði á Íslandi og í Finnlandi, og í öllum löndunum hafa konur gegnt embætti forsætisráðherra. Á árunum 1972 til 2024 var kona verið þjóðhöfðingi Danmerkur frá; Margrét Þórhildur önnur Danadrottning.

Hlutfall kvenna á þjóðþingum norrænu landanna er með því hæsta sem gerist í heiminum.

 

Mikil kosningaþátttaka

Kosningaþátttaka á Norðurlöndum er yfir meðaltali á heimsvísu en þátttaka í þingkosningum er mismikil eftir löndum.

Aðeins ríkisborgarar landanna hafa kosningarétt til þingkosninga og löndin gera mismunandi kröfur um fasta búsetu. Norrænir ríkisborgarar sem búa í öðru norrænu landi mega kjósa til sveitarstjórnarkosninga í búsetulandi sínu. Þó er misjafnt eftir löndum hve lengi þarf að hafa búið þar til að öðlast slíkan rétt.

Norræn stefna í utanríkismálum

Á Norðurlöndum hefur almennt ríkt hefð fyrir því að sækjast eftir áhrifum á alþjóðavettvangi. Gegnum árin hefur fjöldi norrænna stjórnmálaskörunga gegnt áhrifastöðum á vettvangi m.a. Sameinuðu þjóðanna og NATO (Norður-Atlantshafsbandalagsins). Þá hefur norrænt stjórnmálafólk margsinnis boðið krafta sína til sáttamiðlunar í alþjóðlegum deilumálum og mörg norrænu landanna eru í fararbroddi hvað varðar þróunaraðstoð sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu.

Danmörk hefur átt aðild að ESB/EB allt frá árinu 1973 en Finnland, Álandseyjar og Svíþjóð gengu í sambandið árið 1995. Ísland, Noregur, Færeyjar og Grænland eiga ekki aðild að ESB en eru aðilar að innri markaði ESB, svonefndu EES (Evrópska efnahagssvæðinu).

Danmörk, Ísland og Noregur hafa verið aðilar að varnarsamstarfi NATO allt frá stofnun þess 1949, en Finnar urðu aðilar árið 2023. Svíþjóð bíður þess að umsókn að bandalaginu sé samþykkt að fullu.

Öll norrænu ríkin eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) og Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD).

Norðurlandaráð var sett á fót árið 1952. Allar götur síðan hafa sjálfstæðu ríkin fimm og sjálfstjórnarsvæðin þrjú átt náið stjórnmálasamband sem einkennst hefur af trausti.

Samstarf þjóðþinganna fer fram í Norðurlandaráði og ríkisstjórnanna í Norrænu ráðherranefndinni.


Auk Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar eiga norrænu löndin í óformlegu samstarfi á sviðum atvinnulífs, menningarmála, íþrótta, menntamála o.s.frv. Norrænt samstarf á sér djúpar rætur meðal almennings og mikill fjöldi félaga og samtaka í löndunum eiga samstarf við sambærileg samtök í norrænu nágrannalöndunum. Til er sérstakt félag fyrir norræna borgara, Norræna félagið, sem beitir sér fyrir því að efla norrænt samstarf