Tíu vörður í sögu bókmenntaverðlaunanna

Den grönländska författaren Niviaq Korneliussen har tilldelats Nordiska rådets litteraturpris 2021 för romanen ”Naasuliardarpi” (Blomsterdalen)

Den grönländska författaren Niviaq Korneliussen har tilldelats Nordiska rådets litteraturpris 2021

Ljósmyndari
Norden.org/Magnus Fröderberg

Grænlenski rithöfundurinn Niviaq Korneliussen fékk Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2021 fyrir skáldsöguna „Naasuliardarpi“ (Blomsterdalen)

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt frá árinu 1962 og örvað bóklestur í sex áratugi. Sofie Hermansen Eriksdatter, yfirmaður skrifstofu Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, valdi ellefu verðlaunaverk sem borið hafa hátt í sextíu ára sögu verðlaunanna.

Sjöundi áratugur 20. aldar

1962:

Fyrstu Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs voru veitt Eyvind Johnson fyrir bókina Hans nådes tid. Að mati dómnefndarinnar tókst í Hans nådes tid að spegla nútímann í sögulegu efni með leyndardómsfullri íróníu.

Eyvind Johnson lét siðferðisleg og pólitísk álitamál samtíðarinnar til sín taka og tók einarða afstöðu gegn harðstjórn og með lítilmagnanum. Eyvind Johnson hlaut Nóbelsverðlaunin árið 1974.

1965: 

Árið 1965 var verðlaununum skipt milli tveggja verka (sem ekki hefur verið gert síðan) en það voru Det gode håb eftir William Heinesen og Från helvetet till paradiset eftir Olof Lagercrantz.

Dómnefndin sagði í umsögn sinni: „Det gode håb“ (Vonin blíð) er skáldsaga sem gerist í Færeyjum á sautjándu öld. Þar er brugðið upp litríkri mynd af stríðstímum í sögu Norðurlanda þar sem réttlæti og kúgun takast á. „Från helvetet till paradiset“ er listrænt og gagnrýnið verk þar sem höfundur túlkar sígilt efni um leið og hann kemur persónulegum boðskap sínum til skila.

Áttundi áratugur 20. aldar

1974:

Uden mål – og med eftir Villy Sørensen var fyrsta ritgerðasafnið sem hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Í ritgerðasafninu eru ýmis álitamál samtíðarinnar krufin til mergjar: Siðferðislegar og samfélagslegar afleiðingar nútíma vísinda og tækni, vandann sem í valdinu býr, pólitískar útópíur, sköpun þeirra eða niðurrif og málefni sem varða stöðu listar og heimspeki í nútímanum. Allt er þetta sett fram í mjög meðvituðum og listrænum prósa, að mati dómnefndarinnar.

Níundi áratugur 20. aldar

1980: 

Sara Lidman hlaut verðlaunin fyrir bók sína Vredens barn, en hún var fyrst kvenna til að hljóta verðlaunin frá stofnun þeirra 1962. Allnokkrar konur höfðu þó verið tilnefndar til verðlaunanna, meðal annars Inger Christensen.

Dómnefndin sagði í umsögn sinni um verðlaunabókina: „Sara Lidman bregður upp mynd af lífi fólks í heilu byggðarlagi og reynslu þess af hlýju, nærgætni, kíminni kaldhæðni og ótæmandi frásagnargleði sem fær oft á tíðum goðsagnakenndan blæ.“

1987:

Hudløs himmel (Dreyrahiminn) eftir Herbjørgu Wassmo var þriðji hluti trílógíu (Húsið með blindu glersvölunum og Þögla herbergið).

Dómnefndin sagði í umsögn sinni: „Dreyrahiminn er þriðja bindi sögunnar um Þóru sem finnur lífsstyrk sinn með því að lifa í gegnum aðra. Skáldsagan er óvenju blæbrigðarík frásögn um unga konu, skrifuð af milli næmni en jafnframt af harkalegu raunsæi.“
 

Tíundi áratugur 20. aldar

1995:

Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundson gaf fólki með geðfötlun rödd gegnum Pál sem þjáist af geðklofa en hann hefur allt sitt líf þurft að kljást við geðsveiflur, angist, óróa og ofsóknarbrjálæði. Sögusviðið er Reykjavík sem er í örum vexti og tekur miklum breytingum.

Dómnefndin sagði í umsögn sinni: „Heiminum og siðmenningunni er lýst af ljóðrænni geggjun í gegnum huga hins geðssjúka. Kímnin magnar alvöruna. Kaldhæðnin klæðst búningi einfeldninnar. Skáldsagan veitir innsýn í þann raunveruleika sem við erum vön að kalla eðlilegan.“

1998:

Höfundur bókarinnar Efter att ha tillbringat en natt bland hästar er Tua Forsström en hún var fyrst finnlandssænskra kvenna til að hljóta verðlaunin. Náttúran og dýrin, þar á meðal hestar, eru mikilvægir leikendur í verkum Tua Forsström. Dýrin tákna frelsið til að vera til og skynja en sýna einnig fram á óöryggi lífsins. Ljóðin berast umhverfis hnöttinn, þau lýsa hverfulleika alls og einsemd manneskjunnar - sem stöðugt er hluti af lífinu.

Dómnefndin sagði í umsögn sinni: „Finnska skáldkonan Tua Forsström hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998 fyrir ljóðabókina Efter att ha tillbringat en natt bland hästar, margræð ljóð þar sem gætir í senn kímni og sorgar. Ljóðin tengjast efnislega, eru hljómfögur og bera með sér sterka nærveru augnbliksins.“

Fyrsti áratugur 21. aldar

2007:

Drömfakulteten. Sara Stridsberg hlaut verðlaunin 2007 og var þá yngsti verðlaunahafinn í sögu verðlaunanna. Dómnefndin sagði í umsögn sinni: „Drömfakulteten“ er brennandi og margslungin skáldsaga um öfgafemínistann Valerie Solanas og dapurleg örlög hennar. Stridsberg blandar saman heimildum og skáldskap svo úr verður hrífandi verk. Draumadeildin ber undirtitilinn „viðbót við kynlífsfræðina“ og er verkið átakanlegt uppgjör við ólíkar kúgunaraðferðir í samfélaginu. Þrátt fyrir alvarlegt viðfangsefni er Drömfakulteten einstaklega kraftmikil skáldsaga með leikandi tungutaki.“

Annar áratgur 21. aldar

2019: 

Efter Solen. Þegar Jonas Eika (f.1991) hlaut verðlaunin var hann yngsti verðlaunahafinn fram að þessu. Dómnefndin sagði í umsögn sinni: „Jonas Eika hlýtur verðlaunin fyrir verk sem er markað þeim erfiðleikum sem steðja að heiminum í dag. Arðrán og misrétti, vonlaus tilvera og ofbeldisfull og dimm reynsla eru mikilvægir þættir frásagnarinnar. Þó má greina von í formi möguleika á breytingum. Okkar bíður eitthvað dásamlegt og fullt vonar sem minnir okkur á að bókmenntirnar eru færar um annað og meira en að spegla það sem við þekkjum nú þegar.“
 

Þriðji áratugur 21. aldar

2021:

Naasuliardarpi (Blomsterdalen). Þegar Niviaq Korneliussen hlaut verðlaunin fyrir Naasuliardarpi fór þytur um salinn í Skuespillerhuset í Kaupmannahöfn. Hún var fyrsti grænlenski verðlaunahafinn frá upphafi. Naasuliardarpi er tímamótaverk í grænlenskum bókmenntum sem með ákefð og blíðu veitir innsýn í tilveru Grænlendinga í dag og þau áföll sem enn setja mark sitt á daglegt líf þeirra.

Collage litteraturpriset 60 år
Ljósmyndari
norden.org