Um norræna menningarátakið Nordic Bridges

Harbourfront Centre i Toronto
Ljósmyndari
Mike Lee
Hið eins árs langa menningarátak Nordic Bridges er eitt metnaðarfyllsta alþjóðlega verkefnið á sviði norræns samstarfs til þessa, en með því er leitast við að tengja saman norræna listamenn, hugsuði og frumkvöðla – frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum – og samstarfsaðila og fagfólk víðsvegar um Kanada. 

Frá janúar til desember 2022 mun átakið vekja athygli á norrænni samtímalist og -menningu í fjölda greina, svo sem dansi, leikhúsi, sirkuslistum og tónlist, myndlist og stafrænni list, handverki og hönnun, bókmenntum, kvikmyndum og matargerðarlist. 

Harbourfront Centre, sem er alþjóðleg og þverfagleg miðstöð fyrir nútímalist og -menningu í Toronto, stýrir Nordic Bridges. Listræn stjórnun miðstöðvarinnar og á þriðja tug samstarfsaðila hennar víða um land hvílir á fjórum meginstoðum: nýsköpun í listum, aðgengi og inngildingu, sjónarmiðum frumbyggja og viðnámsþoli og sjálfbærni.   

„Við höfum unnið að undirbúningi Nordic Bridges ásamt hundruðum norrænna og kanadískra listamanna í á þriðja ár og við erum mjög spennt fyrir því að geta boðið upp á sköpunarverk þeirra um land allt út árið 2022,“ segir Iris Nemani, aðaldagskrárstjóri við Harbourfront Centre. 

 

Listamenn frá öllum Norðurlöndum

Norrænir listamenn og hagsmunaaðilar frá öllum Norðurlöndum starfa og koma fram með kanadískum listamönnum á listahátíðum, í listastofnunum og á söfnum víðsvegar um landið, auk þess sem fyrirhugað er að setja upp nokkra viðburði vítt og breitt um Kanada og Norðurlönd.  

Á meðal samstarfsaðila í átaksverkefninu eru alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Toronto, BreakOut West og National Arts Centre, en allir þessir aðilar munu leggja sitt af mörkum til að vekja athygli á norrænum listum og menningu, allt frá Toronto til Calgary, Montreal, Winnipeg, Whitehorse og svona mætti lengi telja.  

Á meðal annars sem Nordic Bridges býður upp á er norræn-kanadíski styrkurinn fyrir umhverfisblaðamennsku þar sem efnilegum blaðamönnum á aldrinum 18–25 ára býðst að læra, ferðast og kynna sér í þaula helstu ógnirnar sem steðja að umhverfinu.   

Útrás til Kanada

Norræna ráðherranefndin um menningarmál valdi Kanada sem vettvang norræns menningarátaks árið 2019 í kjölfar opins útboðs. Harbourfront Centre í Kanada varð fyrir valinu vegna áherslu miðstöðvarinnar á nýsköpun í listum, að draga úr kolefnisspori sínu og að sýna fram á hvernig listir og menning geta verið meðal grunnþátta samfélagsins. 

Auk þess gegndi öflugt samstarf Harbourfront Centre og norrænu sendiráðanna í Ottawa lykilhlutverki í því að tryggja að Kanada yrði vettvangur næsta norræna menningarátaks.  

Nordic Bridges-átakið kemur til með að kveikja samtal milli Kanada og Norðurlanda um hlutverk menningar í þróun og viðgangi sjálfbærra samfélaga. Skipti og snertipunktar eins og þessir hafa því ekki aðeins þýðingu fyrir menningargeirann sjálfan heldur geta líka leitt til annarra tengsla milli Norðurlanda og umheimsins og þannig bætt bæði ímynd Norðurlanda og mikilvæg samskipti Norðurlanda og Kanada. Norræna ráðherranefndin um menningarmál hyggst styðja við þessa möguleika með átaksverkefnum á sviði menningar.

„Við hlökkum til þessa lykilárs fyrir norrænar listir og menningu, árs þar sem Kanada og Norðurlönd mætast til að miðla listum, menningu, þekkingu og hugmyndum“ segir norski menningar- og jafnréttisráðherrann Anette Trettebergstuen, sem jafnframt gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um menningarmál árið 2022. Hér skapast einstakt tækifæri til þess að vekja athygli á mikilvægi lista og menningar fyrir samfélagið og daglegt líf fólks.“  

Gáruáhrif og sannreyndur árangur

Nordic Bridges er þriðja stóra átakið upp á síðkastið og fylgir í kjölfar velgengni Nordic Cool í Kennedy Center í Washington DC árið 2013 og Nordic Matters í Southbank Centre í Lundúnum 2017. Öll þrjú átökin fengu upphafsstyrk frá Norrænu ráðherranefndinni um menningarmál og hafa auk þess leitað eftir viðbótarfjármagni frá opinberum aðilum innanlands og á Norðurlöndum og frá einkaaðilum. 

Norræna ráðherranefndin um menningarmál á frumkvæði að menningarstarfi utan Norðurlanda til þess að efla tengsl milli norrænnar menningar og umheimsins, vekja athygli erlendis á því sem norræn menning hefur upp á að bjóða og skapa virðisauka fyrir þátttakendur og listamenn. Með því eru Norðurlönd jafnframt markaðssett sem skapandi svæði. 

Menningarátakið skal hafa dagskrá þar sem áhersla er lögð á listræn gæði og menningarlegt gildi. Það skal vera gagnkvæm eftirspurn og áhugi á norrænu menningarátak á staðnum sem valinn er, og átakið skal efla menningarlegt samtal á milli lykilaðila báðum megin.