Um norræna vinnuhópinn um líffræðilega fjölbreytni

Norræni vinnuhópurinn um líffræðilega fjölbreytni, NBM, vinnur að því að stemma stigu við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni á Norðurlöndum og tryggja með því að vistkerfin verði áfram öflug og haldi áfram að veita þá vistkerfaþjónustu sem nauðsynleg er fyrir velferð og hagvöxt.

NBM leggur höfuðáherslu á líffræðilega fjölbreytni, vistkerfi, náttúruvernd og sömuleiðis útivist, landslag, menningarumhverfi, vistkerfaþjónustu og að tryggja að líffræðilegri fjölbreytni og vistkerfaþjónustu sé veitt athygli í vinnunni sem snýr bæði að loftslagsaðlögun og loftslagsbreytingum.
 
NBM starfar á grundvelli umhverfis- og loftslagsáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar, einkum 5. kafla um líffræðilega fjölbreytni.

Starf NBM er ætlað að vera raunverulegt framlag til starfsemi norrænna umhverfisstofnana. Vinnuhópurinn safnar upplýsingum og þekkingu, veitir upplýsingar um bestu mögulegu starfshætti og styður samstarf milli umhverfisstofnana einstakra ríkja og svæðisins í heild. Fulltrúar í NBM eru sérfræðingar frá Norðurlöndunum um umhverfismál, náttúruvísindi og menningararfleifð.
 
Vinnuhópurinn vinnur drög að ýmsum alþjóðlegum sáttmálum, þar með talið Samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni og Evrópska landslagssáttmálann.

NBM veitir árlega fé til ýmissa verkefna, hvort sem er um nákvæmlega skilgreind efni eða fjölbreytilegri efni í víðara samhengi. Á dæmigerðu ári veitir NBM um fjórum milljónum danskra króna til 5-8 verkefna. Í sumum tilvikum, ef verkefni beinast að málefnasviðum fleiri en eins vinnuhóps, hlýtur það styrk frá fleiri en einum vinnuhópi sem heyra undir Norrænu ráðherranefndina.
 
Starfi NBM og áherslumálum er lýst nákvæmlega í árlegri starfsáætlun. NBM gefur skýrslu beint til Norrænu ráðherranefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál (MR-MK) og Norrænu embættismannanefndarinnar um umhverfis- og loftslagsmál (EK-MK). Þegar NBM hefur tekið ákvörðun um áhersluefni ársins hvetur það aðila til þess að sækja um styrki til verkefna sem beinast að því efni.