Um Norrænu ráðherranefndina um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt (MR-FJLS)

Ráðherranefndin (MR-FJLS) nær yfir eftirtalin fjögur stefnumótunarsvið: Fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt. MR-FJLS er vettvangur samstarfs milli 20 ráðuneyta á Norðurlöndum.

Meginhlutverk MR-FJLS er að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúru- og erfðaauðlinda, en þær eru undirstaða þess að maðurinn geti lifað á jörðinni.

MR-FJLS beitir sér fyrir því að skapa traust og tryggja framboð á góðum matvælum, bæta mataræði sem eflir heilsu norræns almennings og þróa þau tækifæri sem leynast í norrænu hráefni og matarmenningu. Mikilvægur þáttur í starfi ráðherranefndarinnar er að styrkja og efla rannsóknir og þróun á sínu sviði.

Ráðherranefndin leggur mikla áherslu á þverlægt samstarf, innan deilda sem falla undir embættismannanefndina (EK-FJLS) en einnig við önnur fagsvið Norrænu ráðherranefndarinnar.

Skipulag

Skipulag embættismannanefndar ráðherranefndarinnar er eftirfarandi. Embættismannanefndin (EK-FJLS) samanstendur af fjórum samþættum undirnefndir, sem vinna saman en einnig sjálfstæðar einingar: framkvæmdanefnd auk þriggja fagnefnda fyrir fiskveiðar og fiskeldi, matvæli og landbúnað og skógrækt. Framkvæmdanefndin og fagnefndirnar þrjár hafa allar stöðu embættismannanefndar.

Ráðherranefndin fjármagnar ýmsar stofnanir, samstarfsstofnanir og starfshópa. Stofnanir og hópar vinna að því að uppfylla pólitísk markmið hver á sínu sviði.

Lesið nánar um embættismannanefndir ráðherranefndarinnar um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt (MR-FJLS):

Fiskveiðar og fiskeldi

Fiskveiða- og fiskeldissvið fjallar um líffræðilega sjálfbærni, meðal annars vistkerfisnálgun í nýtingu fiskistofna, eflingu tækniþróunar í atvinnugreininni og stuðla að því að heilbrigt sjávarumhverfi gefi af sér heilnæman fisk til neyslu.

Starfið að efnahagslegri sjálfbærni felur meðal annars í sér að skapa efnahagsleg rammaskilyrði sem stuðla að aukinni verðmætasköpun í fiskiðnaði.

Starfið að félagslegri sjálfbærni felst í að skapa skilyrði sem eru til þess fallin að tryggja velferð sjómanna og framtíðarmöguleika strandsvæða.

Landbúnaður

Landbúnaðarsvið fjallar um varðveislu erfðaauðlinda og sjálfbæra nýtingu líforku. Þessir þættir eru mikilvægir til að tryggja sveigjanleika í landbúnaði og auðvelda vinnuna við að takast á við loftslagsbreytingar.

Jafnframt er lögð áhersla á byggða- og atvinnuþróun.

Meginverkefnið, en framkvæmd þess fer fram í nánum tengslum við sjávarútvegs- og matvælasvið, felst í því að beina sjónum að þeim gæðum og tækifærum sem norræn matvæli fela í sér.

Matvæli

Matvælasviðið starfar með hliðsjón af hinum almenna norræna neytanda og hefur eftirtalin fjögur atriði í brennidepli: að stuðla að góðri heilsu neytenda með öruggum matvælum; að auka aðgerðir sem stuðla að heilbrigði dýra og velferð; að efla greinagóða merkingu, markaðssetningu og rekjanleika matvæla; að hvetja til heilbrigðra matarvenja og lífsstíls.

Skógrækt

Fagleg kjarnasvið skógræktarsviðs eru atvinnuþróun, skógrækt og líforka. Áhersla er lögð á staðbundið og svæðisbundið mikilvægi skóglendis og að efla efnahagsleg, vistfræðileg, félagsleg og menningarleg gildi.

Þáttur lífrænnar orku og loftslagsmála eykst stöðugt í samstarfinu. Sjálfbær skógrækt á Norðurlöndum er tryggð með rannsóknum, þróun og menntun, einkum með rannsóknasamstarfi á vegum Norrænna skógarannsókna (SNS), tengslamyndun og þekkingar- og reynslumiðlun.

Markmið og framtíðarsýn

Í samstarfsáætluninni eru tilgreindar tvær helstu áherslur í norrænu samstarfi á árunum 2017–2020 á sviðum fiskveiða og fiskeldis, landbúnaðar, matvæla og skógræktar en þær eru þróun norræna lífhagkerfisins og sjálfbær matvælakerfi. Samstarfsáætlunin á að þróa og styrkja norrænt samstarf um fiskveiðar, fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt. Norrænt samstarf stuðlar jafnframt að lausn ýmissa hnattrænna viðfangsefna sem lönd heimsins náðu samkomulagi um að leggja áherslu á í Dagskrá 2030 og heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun en þar ber að nefna loftslagsbreytingar, sýklalyfjaónæmi og aukinn vanda vegna lífsstílssjúkdóma.

Lesið nánar um samstarfsáætlun ráðherranefndarinnar um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt (MR-FJLS):