Um norrænu ráðherranefndina um menntamál og rannsóknir (MR-U)

Torbjørn Røe Isaksen
Photographer
Liisa Takala
Ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir á að beita sér fyrir því að Norðurlöndin verði í fararbroddi hvað varðar þekkingu og samkeppnishæfni. Markmiðið er að tryggja að Norðurlöndin séu heildstætt og öflugt mennta-, rannsókna- og nýsköpunarsvæði, auk þess að leggja áherslu á norrænan virðisauka og styrkleika.

Samstarfi norrænu ríkisstjórnanna um menntamál og rannsóknir er stýrt af norrænu ráðherrunum sem fara með málefni menntamála og rannsókna, en saman mynda þeir ráðherranefndina um menntamál og rannsóknir.

Samstarfið í norrænu ráðherranefndinni um menntamál og rannsóknir snýst einkum um að stuðla að norrænum virðisauka á eftirfarandi meginsviðum:

  • Leik- og grunnskólasviði
  • Framhaldsskóla- og starfsnámi
  • Námi á háskólastigi og símenntun
  • Rannsóknum
  • Tungumálasamstarfs milli Norðurlanda

Samstarfsvettvangur

Ráðherrarnir funda einu sinni eða tvisvar á ári til að ræða og taka ákvarðanir um aðgerðir, sem styrkja samstarfið á sviðum þar sem sameiginlegar aðgerðir og stefnumótun hafa meiri áhrif en ef unnið væri í löndunum hverju fyrir sig. Þetta kallast norrænt notagildi.

Norræn embættismannanefnd um menntamál og rannsóknir tengist ráðherranefndinni. Í henni eiga sæti fulltrúar ráðuneyta og annarra yfirvalda í löndunum, einnig Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum. Embættismannanefndin fundar fjórum til fimm sinnum á ári. Embættismannanefndin leiðir starfið og undirbýr fundi ráðherranna.

Skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn ber ábyrgð á daglegum rekstri norræns samstarfs.

Þekkingar- og velferðarsvið undirbýr mál til meðferðar í ráðherranefndinni um menntamál og rannsóknir og embættismannanefndinni. Skrifstofan sér einnig um að allar ákvarðanir komi til framkvæmdar.

Norrænar stofnanir og samstarfsaðilar

Fjöldi stofnana og samstarfsaðila, sem eru fjármagnaðar að fullu eða að hluta af ráðherranefndinni um menntamál og rannsóknir, vinna á sviði menntunar og rannsókna. Hver stofnun um sig stuðlar að því innan síns sviðs að settum pólitískum markmiðum Norðurlandaráðs verði náð.

Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um menntamál og rannsóknir 2019–2023 (framlengd til og með 2024)

Menntun, rannsóknir og tungumál eru grundvöllur samkeppnishæfra og félagslega sjálfbærra Norðurlanda, sem byggjast meðal annars á þekkingu, nýsköpun og hreyfanleika, ásamt áherslu á velferðarsamfélagi fyrir öll. Um leið standa norrænu velferðarsamfélögin frammi fyrir áskorunum sem skapast af hnattvæðingu, efnahagsástandi, lýðfræðilegum breytingum ásamt loftslags- og orkumálum. Samstarfsáætlunin á því að skerpa á áherslum og markmiðum samstarfsins, sem ráðast af pólitískum viðfangsefnum landanna, þar með talið Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Samstarfið beinist jafnframt að því að þróa áfram núverandi samstarfsvettvang og aðgerðir, jafnframt því að greina nýjar aðgerðir.

Hér má lesa samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um menntamál og rannsóknir: