Velheppnuð aðlögun lykillinn að (norrænni) velgengni

Margir líta svo á að flóttafólk og innflytjendur séu fjárhagsleg og jafnvel samfélagsleg byrði. Eins og svo oft áður er mikilvægt að skoða málið fordómalaust.

Nýjasta tölublað Nordic Economic Policy Review (NEPR) var kynnt í Húsi Norðurlanda í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum vikum. Í tímaritinu gera ýmsir höfundar grein fyrir því hvernig flóttafólk getur lagt sitt af mörkum til samfélagsins.

Hækkandi meðalaldur almennings og brottflutningur fólks úr dreifbýli gera það að verkum að mörg norræn sveitarfélög standa frammi fyrir stórum vanda. Þegar skólar og leikskólar loka er erfitt að laða ungt fólk heim aftur að loknu námi. Fámennum sveitarfélögum reynist erfitt að viðhalda góðri þjónustu ef íbúarnir eru ekki nógu margir til að standa undir henni. Í dreifbýli víða á Norðurlöndum, þar sem flóttafólki hefur verið komið fyrir til bráðabirgða, hefur fólkið valið að vera um kyrrt í sveitarfélaginu og setjast þar að. Þannig leggur það sitt af mörkum til að draga úr fólksfækkun. Eigi þetta að ganga upp þarf færni fólks að vera í samræmi við störf sem bjóðast á vinnumarkaði, en það reikningsdæmi hefur löngum reynst ærið snúið. Staðreyndin er sú að vöxtur í 26% sveitarfélaga á Norðurlöndum er undir því kominn að nýbúar setjist þar að.  Ef innflytjendur komast fljótt í vinnu verður einnig hægt að draga verulega úr útgjöldum vegna komu flóttafólks. Rannsóknaniðurstöður sem greint er frá í tímaritinu eru unnar af hagfræðingum í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Þær sýna að þrátt fyrir að okkur takist þokkalega að finna störf fyrir flóttafólk á norrænum vinnumarkaði þá er enn langt í land þar til okkur hefur tekist að tryggja nýbúum vinnu í jafnmiklum mæli og innfæddum íbúum landanna, og að þeir haldi störfunum. Flóttafólk er í þeim hópi sem er helst hætt við að fá erfið og óörugg störf og þegar kreppir að er það yfirleitt lausráðið fólk sem er látið fjúka fyrst. Hvað er til ráða? Við getum byrjað á því að læra hvert af öðru eins og við höfum gert hingað til og litið nánar á það sem virkar í löndunum. Lausnir sem gefa góða raun í Danmörku gæti einnig gert það í Svíþjóð og öfugt.

Flóttafólk er í þeim hópi sem er helst hætt við að fá erfið og óörugg störf og þegar kreppir að er það yfirleitt lausráðið fólk sem er látið fjúka fyrst. Hvað er til ráða? Við getum byrjað á því að læra hvert af öðru eins og við höfum gert hingað til og litið nánar á það sem virkar í löndunum. Lausnir sem gefa góða raun í Danmörku gæti einnig gert það í Svíþjóð og öfugt.

NEPR birtir einnig útreikninga á kostnaði vegna komu flóttafólks. Greinina skrifar hagfræðingurinn Joakim Ruist en hann vill að umræðan byggi á staðreyndum. Hann segir svonefndan „reikning“ vegna flóttafólks ekki ógna velferðarkerfum Norðurlanda og minnir á að útgjöldin lækka þegar flóttafólk kemst í vinnu og fer að greiða skatta. Hvorki meira né minna en 80% kostnaðarins má rekja til skorts á skattatekjum vegna atvinnuleysis.   Fleiri norræn verkefni og áætlanir fjalla um aðlögun og þátttöku nýbúa, hvað við getum lært hvert af öðru og hvernig við getum bætt okkur enn frekar. Norrænu samstarfsráðherrarnir ákváðu í fyrra að ráðast í víðtæka samstarfsáætlun um aðlögunarmál. Áætlunin tengir þá aðila sem hafa umsjón með aðlögunarmálum, á landsvísu og staðbundið, samtök sjálfboðaliða og annað fólk sem starfar að aðlögunarmálum og -verkefnum á Norðurlöndum. Markmiðið er að skiptast á þekkingu og læra hvert af öðru. Áætlunin á að styðja við starf sem greiðir fyrir aðlögun flóttafólks og innflytjenda – kvenna, karla, barna og ungmenna – og einfalda samstarf um aðlögun milli landa. Á nýrri heimasíðu er að finna nánari upplýsingar um áætlunina, nýjar tölur, niðurstöður rannsókna, dæmi sem hægt er að læra af, viðtöl við flóttafólk o.fl.

Ég vil hvetja alla, sem hafa áhuga á að taka þátt og leggja sitt af mörkum eða sækja um styrk til aðlögunarverkefnis, til að láta verða af því.

Við berum öll ábyrgð á aðlögun og þátttöku allra. Það snýst um miklu meira en áætlanir og skipulegt, rétt eins og norrænt samstarf.

Tengiliður