Við megum engin ungmenni missa

Á dögunum rakst ég á eftirfarandi fyrirsögn í danska dagblaðinu Politiken: „Sjónvarpsþáttaröðin „Skam“ fær fólk til að líða eins og 16 ára stelpum“. Nú hefði mátt ætla að fyrirsögnin vísaði til hamingjuástands, en einn af mörgum kostum hinna vinsælu þátta er að þar er sagt frá ýmsum þrautum ungmenna sem standa á þröskuldi fullorðinsáranna.

Á unglingsárunum reynum við margt í fyrsta sinn. Við tökum ákvarðanir sem hafa áhrif á allt líf okkar, mörg flytjum við að heiman og yfirgefum jafnvel átthagana. Ósköp eðlilegt er að finna fyrir óöryggi, fiðringi í maga og eirðarleysi ef það heftir ekki þroska einstaklingsins. Í sumum tilvikum reynir á geðheilsuna.

Geðkvilla verður æ oftar vart meðal ungs fólks og eru þeir einn helsti lýðheilsuvandinn í samfélögum Norðurlanda. Þegar ég gegndi embætti heilbrigðisráðherra í Noregi var ég einn af upphafsmönnum Eflingaráætlunar geðheilbrigðisþjónustunnar þar í landi, en eitt markmið hennar var að hjálpa ungmennum sem þess þurftu með.

10-20 af hundraði þjást

Tölur sýna að 10 til 20 prósent Norðurlandabúa þarfnast hjálpar vegna geðrænna kvilla á unglingsárunum. Þetta er há tala. Ungmenni með geðkvilla fara ekki aðeins á mis við gleði og lífsnautn heldur einnig því sem kalla mætti „aðgöngumiða“ að fullorðinsárunum. Þau dragast aftur úr jafnöldrum sínum og verða jafnvel útundan á vinnumarkaði og í öðru félagslegu samhengi.  Þetta tel ég óásættanlegt og það af tveimur ástæðum:

  1. Öll ungmenni hafa eitthvað einstakt fram að færa sem samfélagið hefur ekki ráð á að missa af.
  2. Geðrænir kvillar eiga ekki að svipta fólk lífsnautn eða verða þess valdandi að fólk lendi útundan á Norðurlöndum – óháð aldri.

Við getum gert betur

Norræna velferðarmiðstöðin leggur fram fjórar tillögur um hvernig hjálpa megi ungmennum með geðræna kvilla en þær eru:

  • Að skapa bætt skilyrði fyrir þverfaglegt samstarf Í dag lendir ýmislegt milli skips og bryggju þegar stofnanir samfélagsins eiga að vinna saman.
  • Að skapa forsendur fyrir fyrirtæki sem geta boðið upp á snemmbær og aðgengileg úrræði Stuðninginn á að miða við þarfir einstaklingsins.
  • Að efla og auka aðgerðir á frumstigi Gera þarf ýmsum stofnunum, þar á meðal skólum og félagsþjónustu, kleift að grípa inn á frumstigi vandans.
  • Að fjárfesta í heilsueflingu í grunnskólum og framhaldsskólum Vel heppnuð skólaganga er ein öflugasta forvörnin fyrir öll ungmenni og því verður að tryggja valkosti í menntun á öllum skólastigum.

Í dag sit ég ráðstefnu um ungmenni, menntun, vinnu og geðheilsu sem Norðmenn standa að, en þeir gegna formennsku í ráðherranefndinni 2017. Enginn vafi leikur á því að við verðum að gera betur til að hjálpa ungmennum sem eiga örðugt með að fóta sig í tilveru fullorðna fólksins. Því gleðst ég yfir því að hafa átt þátt í því að formennskulandið setti málið á dagskrá.

Ungmennin er dýrmætustu verðmæti okkar og við verðum að gæta þeirra vel.

Tengiliður