Vinnumarkaðsnefndin

Vinnumarkaðsnefndin er skipuð af norrænu embættismannanefndinni um vinnumál (EK-A) sem heyrir undir ráðherranefndina um vinnumál (MR-A).

Vinnumarkaðsnefndin á að efla og þróa norrænt samstarf um vinnumála- og vinnumarkaðsstefnu almennt og vinnumarkaðsrannsóknir. Þar á meðal eru vinnumiðlun, vinnumarkaðsaðgerðir og atvinnuleysistryggingar. Nefndin á einnig að ráðast í verkefni sem geta leitt til framþróunar og nútímavæðingar á vinnumarkaðsstefnu á Norðurlöndum og jafnframt meta umsóknir og úthluta verkefnastyrkjum nefndarinnar á sviðum sem eru efst á baugi.

Starfsumboð og starfsáætlun

Vinnumarkaðsnefndin er skipuð af norrænu embættismannanefndinni um vinnumál (EK-A). Hlutverk hennar er að taka þátt í framkvæmd samstarfsáætlunar ráðherranefndarinnar um vinnumál (MR-A). 

Í þeim tilgangi að hrinda samstarfsáætlun vinnumálaráðherranna í framkvæmd semur vinnumarkaðsnefndin árlega starfsáætlun sem byggir á áherslum formennskulandsins og starfsumboði, verkefnum og stefnu nefndarinnar.  Nánari upplýsingar um starfsumboð og starfsáætlun nefndarinnar fást hjá nefndarritara.

Ársskýrslur

Í ársskýrslum vinnumarkaðsnefndarinnar er greint frá starfsemi nefndarinnar á liðnu ári, þar á meðal verkefnum sem ýmist er lokið eða eru enn í gangi á því ári sem skýrslan er unnið. Þar er að finna stutt mat á verkefnum sem lokið er og yfirlit yfir hvernig fjárveitingu nefndarinnar var ráðstafað á árinu. Hér á eftir eru upplýsingar um almenna starfsemi og verkefni á undanförnum árum.