Taktu þátt í könnun um líffræðilega fjölbreytni og láttu rödd þína heyrast

Það tekur ekki nema tíu mínútur en getur skipt máli fyrir Jörðina.

Þetta er mikilvægt markmið - svona verða svör þín notuð

Svörin þín verða notuð til þess að móta kröfur í alþjóðlegu viðræðunum um heimsmarkmið um líffræðilega fjölbreytni. Kröfurnar verða kynntar í samningaviðræðum SÞ og í norrænu ríkisstjórnunum vorið 2021. Lokaviðræðurnar um ný markmið fyrir samninginn um líffræðilega fjölbreytni verða haustið 2021.

Tilgangurinn með þessari könnun er sýna hvað ungu fólki á Norðurlöndum finnst mikilvægt og þrýsta á samningafólkið um metnaðarfull ný markmið til að vernda líffræðilega fjölbreytni.

Hver getur tekið þátt?

Könnunin er opin fólki á aldrinum 13 til 30 ára í öllum norrænu löndunum í febrúar 2021.

Hver stendur að baki könnuninni?

Könnunin er unnin af ungum norrænum umhverfissinnum sem vinna saman í hreyfingunni Nordic Youth Biodiversity Network og njóta stuðnings Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og WWF í Danmörku.

Hvað gerist nú?

Svörin við könnuninni verða tekin saman og notuð sem grundvöllur undir „stöðuskjal“ (position paper), kröfulista fyrir alþjóðlegu samningaviðræðurnar um líffræðilega fjölbreytni, Post2020 Global Biodiversity Framework. Ritsjórnarhópur mun skrifa kröfulistann og senda hann til umsagnar norrænna ungmennahreyfinga. Lokaumræður um listann verða svo á stafrænum umræðufundi síðar í vor.  Þið eruð öll velkomin á umræðufund

Hvernig ná svörin mín eyrum samningafólksins?

Þegar samkomulag hefur náðst um kröfulista ungs fólks á Norðurlöndum í „stöðuskjali“ verður það kynnt fyrir norrænu umhverfisráðherrunum fimm og samningafólkinu. Svigrúm verður til að útfæra þær skoðanir sem settar eru fram og tengja efni skjalsins við grasrótina sem það sprettur úr í vor og sumar þegar kröfulistinn verður ræddur opinberlega. Sendinefnd norrænna ungmenna verður með áheyrn við sjálfar lokaviðræðurnar á alþjóðlega leiðtogafundinum. Sendinefndin sem verður skipuð fulltrúum ungmenna frá öllum Norðurlöndunum mun koma kröfum sínum á framfæri í samningaviðræðunum á leiðtogafundinum.

Viltu auka þekkingu þína á kreppu líffræðilegrar fjölbreytni?

Finnst þér þetta mikilvægt og áhugavert en telur að þig vanti meiri þekkingu? Til að auðvelda ungu fólki að taka þátt í ferlinu hefur norrænt samstarf útbúið verkfæri til að auka þekkingu og hafa áhrif. Efnið endurspeglar það nýjasta úr vísindunum og inniheldur margar lykilspurningar varðandi nýjan alþjóðasamning um líffræðilega fjölbreytni. Verkfærakassinn varð til í samstarfi við alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin WWF í Danmörku. Hver sem er getur hlaðið verkfærakassanum niður án endurgjalds. Appið virkar á öllum Norðurlandamálunum og ensku.