Alþjóðleg heilbrigðisógn kallar á norræna samvinnu

08.09.20 | Fréttir
.
Photographer
Scanpix.dk
Á Norðurlöndum er um þessar mundir allt kapp lagt á að opna samfélagið aftur með tilslökunum en COVID-19-faraldrinum er því miður ekki lokið enn. Þess vegna vilja heilbrigðisráðherrar Norðurlanda skoða betur hvernig styrkja megi norræna samvinnu um viðbrögð við kórónuveirunni og öðrum mögulegum heilbrigðisógnum í framtíðinni.

„Mikilvægt er að heilbrigðisráðherrarnir séu sammála um að auka þurfi samvinnu landanna, meðal annars um aðfangaöryggi og lyf. Mörg norrænu landanna standa frammi fyrir sömu áskorunum vegna aukinna smita í sumar. Reynslan sem við deilum hver með öðrum á að efla aðgerðir yfirvalda í löndunum, meðal annars í þeim tilgangi að stöðva útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu,“ segir Magnus Heunicke, ráðherra heilbrigðismála og málefna eldri borgara í Danmörku. Norðurlönd eiga sameiginlegt að standa enn frammi fyrir ýmsum áskorunum, meðal annars að því er varðar sérstaklega viðkvæma hópa á borð við eldra fólk sem glímir við einmanaleika og jaðarsetta hópa. Þó má öllum vera ljóst að heimsfaraldurinn hefur afleiðingar fyrir alla samfélagshópa, þar á meðal ungt fólk. Sameiginlega var lýst yfir áhyggjum af svonefndum ofurútbreiðsluviðburðum þar sem margir koma saman, til dæmis á næturlífinu en einnig á miklum menningar- og íþróttaviðburðum.

Prófun, rakning og einangrun 

Alls staðar á Norðurlöndum hefur verið lögð áherslu á prófun, rakningu og einangrun í baráttunni við COVID-19. Heilbrigðisráðherrarnir hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að prófunargeta sé nægileg. Í þessu sambandi skýrði færeyski heilbrigðisráðherrann Kaj Leo Holm Johannesen frá því að í Færeyjum hefðu svo margir verið prófaðir að svaraði til tvöfalds fjölda íbúanna. Minni lönd og eyjasamfélög byggju við þá sérstöku áskorun að eiga auðvelt með að gera víðtækar prófanir og fækka smitum hratt en aftur á móti væru þau viðkvæmari fyrir staðbundinni útbreiðslu.

Í Færeyjum hafa svo margir verið prófaðir að svarar til tvöfalds fjölda íbúanna.

Kaj Leo Holm Johannesen, heilbrigðisráðherra Færeyja

Reynslan sem við deilum hver með öðrum á að efla aðgerðir yfirvalda í löndunum, meðal annars í þeim tilgangi að stöðva útbreiðslu COVID-19 í samfélaginu.

Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra og ráðherra málefna eldri borgara í Danmörku

Eðlilegur vettvangur fyrir samvinnu 

Enn fremur eru ráðherrarnir sammála um að leggja áherslu á norræna samvinnu um aðfangaöryggi, meðal annars varðandi lyf en einnig var vilji til aukins almenns samstarfs í heilbrigðismálum sem gladdi framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, Paulu Lehtomäki:

„Það er lykilatriði að norrænu löndin læri hvert af öðru og Norræna ráðherranefndin er eðlilegur vettvangur til þess. Hér hafa ráðherrarnir tækifæri til að ræða um áskoranir og reynslu landanna og skoða sameiginlegar lausnir á sviði heilbrigðismála og annarra málaflokka.“