Aukið samstarf til gagns fyrir norræna sprotastarfsemi

13.11.18 | Fréttir
Dagfinn Høybråten

Dagfinn Høybråten

Mikil vannýtt gæði liggja í samstarfi um fjármögnun nýsköpunar- og sprotafyrirtækja á Norðurlöndum. Svæðið okkar getur verið í forystu í heiminum á þessu sviði ef við nýtum þau tækifæri sem felast í norrænu samstarfi. Þetta er meðal niðurstaðna skýrslu sem Idar Kreutzer, framkvæmdastjóri Finans Norge, hefur unnið fyrir Norrænu ráðherranefndina og var nýlega afhent norrænu samstarfsráðherrunum.

Bloggfærsla eftir Dagfinn Høybråten

Skýrsla Idars Kreutzer er afar hvetjandi lesning. Í henni er dregin upp mynd af svæði þar sem öll skilyrði til fjárfestinga eru í góðu lagi og þar sem er góður jarðvegur fyrir nýsköpun og nýja hugsun. Norðurlöndin eru í efstu sætum á ýmsum listum sem tengjast nýsköpun og þar er auk þess fyrir hendi metnaðarfull stefnumótun um stafræna væðingu en það svið er einnig í forgangi í norrænu samstarfi.

Til viðbótar eru hér þegar fyrir hendi góð tækifæri til fjárfestinga fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtækin okkar, eins og bent er á í skýrslu Kreutzers.

Með öðrum orðum eru skilyrðin því afar góð og það gefur tilefni til bjartsýni. Ekki er þar með sagt að allt hafi verið gert. Saman getum við náð enn lengra og orðið enn eftirsóknarverðari fyrir alþjóðlega fjárfesta og hæfileikafólk og einmitt þar kemur skýrsla Idars Kreutzer til skjalanna. Í henni er horft til framtíðar og bent á tækifærin sem eru fyrir hendi ef Norðurlöndin auka samstarf og samþættingu enn frekar.

Idar Kreutzer leggur fram 16 tillögur um hvað hægt sé að gera til þess að laða meira áhættufjármagn inn í norræn sprotafyrirtæki með það fyrir augum að það leiði til fjölgunar starfa. Hann bendir meðal annars á samræmingu skattareglna, aukna skilvirkni fjármögnunarkerfa og opinberra leiða ásamt aðgerðum sem greiða leið fyrir fagfjárfesta, svo sem lífeyrissjóði, til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum.

Mig langar sérstaklega að benda á það mikilvæga sjónarhorn sem fram kemur í skýrslunni að eitt norrænt land má sín fremur lítils þegar kemur að því að laða til sín alþjóðlegt áhættufjármagn. Oft er litið á Norðurlöndin sem eitt svæði og það svæði hefur góðan orðstír. Þessi orðstír og þetta aðdráttarafl getur orðið styrkur okkar í alþjóðlegri samkeppni ef við sýnum fram á að við getum unnið saman

Norrænu samstarfsráðherrarnir fögnuðu skýrslunni þegar þeir tóku við henni á fundi sínum í lok október. Það var gott fyrsta skref og ég vona og trúi að skýrslan geti orðið grunnur að norrænu samstarfi um nýsköpunar- og sprotafyrirtæki í framtíðinni. Tillögurnar 16 fara nú til áframhaldandi meðferðar hjá ráðherrunum.

Það gladdi mig einnig að fá skýrsluna í hendur. Efni hennar er afar brýnt og tillögur Idars Kreutzer koma fram á hárréttum tíma. Við sjáum að nýsköpunar- og sprotafyrirtæki verða stöðugt mikilvægari í norrænu atvinnulífi.

Skýrslan bendir á mikil tækifæri í norræna nýsköpunargeiranum og það verður áhugavert að fylgjast með vinnunni við að koma þeim í framkvæmd.

Tengiliður