Aukin aðkoma jaðarsettra að mótun félagslegra úrræða

27.03.19 | Fréttir
Jumpstory
Ljósmyndari
Creative Commons
Úrræði félagsmálayfirvalda á Norðurlöndum fyrir jaðarsett börn, ungmenni og fullorðna ættu að taka mið af óskum og þörfum notendanna sjálfra. Þetta er niðurstaðan af fundi Norrænu ráðherranefndarinnar um félags- og heilbrigðismál sem haldinn var í Reykjavík. Núna þurfum við að finna réttu verkfærin til að koma þessu til leiðar, segja félags- og heilbrigðismálaráðherrarnir.

- Við þurfum að efla og þróa samráð við notendur - sérstaklega við það fólk sem er í viðkvæmri stöðu og þarf stuðning velferðarkerfisins. Það á við um börn, ungmenni sem og fullorðna. Virk aðkoma notendanna er mikilvægur þáttur í að skapa jöfn tækifæri fyrir alla, segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra Íslands. Tilefni umræðnanna var árlegur fundur norrænu félags- og heilbrigðismálaráðherranna, sem haldinn var í Reykjavík nú á dögunum. Ráðherrarnir voru á einu máli um að leggja áherslu á þekkingar- og reynsluskipti, í þeim tilgangi að þróa verkfæri sem geta aukið aðkomu notendanna. 

Virk aðkoma notendanna er mikilvægur þáttur í að skapa jöfn tækifæri fyrir alla. 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra

Þekking sem nýtist 

Á ráðherrafundinum kynnti Árni Páll Árnason, fyrrum félagsmálaráðherra Íslands, skýrsluna „Þekking sem nýtist í reynd“ sem hann vann fyrir Norrænu ráðherranefndina. Skýrslan byggir á fleiri en 200 viðtölum og í henni eru lagðar fram 14 tillögur um hvernig má efla norrænt samstarf á sviði félagsmála. Aðkoma notenda er einmitt veigamikill þáttur í tillögunum. Árni Páll segir að efla megi félagslega þjónustu með því að þróa gagnleg úrræði sem notendurnir sjálfir óska eftir.     

Yfirvöld þurfa að öðlast betri skilning á veruleika barna og ungmenna

Norrænu ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi þess að yfirvöld og aðrir aðilar í félagsmálum stofnuðu til samráðs við þá jaðarsettu hópa sem málið varðar, hvort sem um ræðir fullorðna, börn eða ungmenni. Stefnan í málefnum barna og ungmenna. Í umræðunum var sjónarhorn barna og ungmenna sérstaklega dregið fram. Í formennskuáætlun Íslands er lögð sérstök áhersla á velferð barna og ungmenna, þvert á málefnasvið, og félags- og heilbrigðismál eru þar ekki undanskilin. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra Íslands, hefur bent á þau neikvæðu áhrif sem misnotkun samfélagsmiðla getur haft á líðan og heilsu ungs fólks. Yfirvöld þurfi að hlusta á raddir ungs fólks til að öðlast betri skilning á vandamálinu:   - Líf barna og ungmenna í dag er flókið. Því miður glímir margt ungt fólk við slæma andlega heilsu. Til þess að getað hjálpað þessum ungmennum þurfum við að hlusta á raddir þeirra og öðlast betri skilning á vandamálum þeirra, segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.    

Nordisk Ministerråds social- og sundhedsministre
Ljósmyndari
BIG

Norræna ráðherranefndin um félags- og heilbrigðismál í Reykjavík

Samstarf með félagasamtökum 

Í skýrslunni „Þekking sem nýtist“ er lagt til að yfirvöld starfi í auknum mæli með félagasamtökum. Fyrir því eru ýmsar ástæður, segir í skýrslunni. Til dæmis hafi félagasamtök gjarnan mikla reynslu af aðkomu notenda. Félagsmálayfirvöld geta lært af þeirri reynslu, segir Árni Páll.    

Raunverulegt gagn fyrir einstaklinginn 

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, er ánægð með að Norræna ráðherranefndin beini sjónum að aðkomu ungra notenda og segir: - Þetta snýst um að veita aðstoð áður en skaðinn er skeður. Yfirvöld geta betur veitt slíka aðstoð ef þau eiga í nánu samráði við það unga fólk sem úrræðin varða og með því að leggja áherslu á snemmtækar og fyrirbyggjandi aðgerðir.   

Þetta snýst um að veita aðstoð áður en skaðinn er skeður. Yfirvöld geta betur veitt slíka aðstoð ef þau eiga í nánu samráði við það unga fólk sem úrræðin varða og með því að leggja áherslu á snemmtækar og fyrirbyggjandi aðgerðir. 

Paula Lehtomäki framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar