Belarús og COVID-19 í brennidepli þegar Norðurlandaráð fundaði með Eystrasaltsríkjaráðinu og Benelúx-þinginu

07.09.20 | Fréttir
Silja Dögg Gunnarsdóttir och Oddný Harðardóttir i möte med Baltikum och Belarus.

Silja Dögg Gunnarsdóttir och Oddný Harðardóttir i möte med Baltikum och Belarus.

Ljósmyndari
Iris Dager

Silja Dögg Gunnarsdóttir forseti Norðurlandaráðs og Oddný G. Harðardóttir varaforseti sátu fjarfund með Eystrasaltsríkjaráðinu og Benelúx-þinginu en sjá má forseta þess, Gusty Graas, á skjánum á myndinni.

Norðurlandaráð átti fjarfund með Eystrasaltsríkjaráðinu og Benelúx-þinginu. Á fundinum ræddu þingmenn meðal annars ástandið í Belarús, COVID-19 og sameiginlegt starf í þágu lýðræðisins í Evrópu.

Fundinn sátu meðal annars forsetar og varaforsetar allra þinganna. Voru allir á einu máli um mikilvægi þess að sýna stjórnarandstöðuinni í Belarús stuðning. Áhersla var lögð á að það myndi senda sterk skilaboð ef þingin þrjú stæðu öll sem eitt á bak við þjóðina og lýðræðisöfl í Belarús.

Forseti Norðurlandaráðs, Silja Dögg Gunnarsdóttir, sagði frá fundi sem hún átti með leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Belarús, Svetlönu Tíkanovskaju, hinn 2. september, og greindi meðal annars frá því að stjórnarandstaðan kynni vel að meta allan utanaðkomandi stuðning.

„Það skiptir fólkið í Belarús máli að það standi ekki eitt. Á fundi okkar lagði Tíkanovskaja líka á það áherslu að þau væru ekki lengur í andstöðu heldur í meirihluta. Það er ríkisstjórn Lúkasjenkós sem er í andstöðu,“ sagði Silja Dögg sem sat fundinn fyrir hönd Norðurlandaráðs ásamt Oddnýju G. Harðardóttur varaforseta og Bertel Haarder.

Oddný sagði mikilvægt að sýna stjórnarandstöðunni stuðning áfram.

„Sem þingmenn verðum við að gera allt sem við getum til að hjálpa fólki í Belarús. Eftir nokkrar vikur kunna fjölmiðlar og ríkisstjórnir okkar að vera hættar að fjalla um þessa atburði og þá er það skylda okkar sem þingmanna að minna þau á ástandið.“

Faraldurinn fært með sér svipaðar áskoranir

Í umræðum um COVID-19 kom í ljós að öll þrjú svæðin hafa glímt við nokkurn veginn sömu erfiðleika varðandi landamæri meðan faraldurinn hefur geisað og að takmarkanir sem löndin hafa innleitt hafa skapað vanda í svæðisbundnu samstarfi. Einnig ríkti einhugur um að menn þyrftu að draga lærdóm af kórónukrísunni til að standa betur að vígi næst.

Þá gerði Silja Dögg ógnina sem steðjar að lýðræðinu í Evrópu að umtalsefni sínu. Sagðist hún hafa þungar áhyggjur af þróun mála í Póllandi og Ungverjalandi með tilliti til lýðræðis, málfrelsis, sjálfstæðis dómstóla og réttinda kvenna og LGBTI-fólks.

„Það er nýtt að hætta steðji að þessum gildum innan ESB. Við eigum vitaskuld að bera virðingu fyrir ólíkum stjórnmálaskoðunum og gildum en hvað eigum við að gera þegar stórir hlutar ESB-lands lýsa sig LGBTI-laus svæði eða þegar aðildarland leggur niður lýðræðislegar stofnanir sínar?“

Löng hefð er fyrir samstarfi Norðurlandaráðs, Eystrasaltsríkjaráðsins og Benelúx-þingsins. Þingin þrjú deila sömu gildum og vinna öll að því að efla lýðræði mannréttindi og grundvallarreglur réttarríkisins í Evrópu.