BLOGGSÍÐA FRAMKVÆMDASTJÓRANS: Neyslan á Norðurlöndum er ekki sjálfbær

20.02.19 | Fréttir
Dagfinn Høybråten på COP24

Dagfinn Høybråten i samtale med Sveriges ungdomsdelegat til COP24 Henrietta Flodell og kommunikasjonssjef Mary Gestrin

Ljósmyndari
Robert Bednarczyk/norden.org
Danmörk og Norðurlöndin eru best í sjálfbærri þróun en það dugir ekki til þegar við á sama tíma þyrftum fjórar jarðarkringlur ef allur heimurinn neytti jafnmikils og við gerum. Þetta skrifar Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar í síðustu bloggfærslu sinni.

Danmörk er leiðandi þegar kemur að sjálfbærni með reiðhjólahefð sem fáar þjóðir heims geta jafnað, vindorku á heimsmælikvarða og framúrskarandi velferðarkerfi. Eftir sex ár í Kaupmannahöfn hef ég kynnst þessu í návígi. Ég er hrifinn.

En við verðum líka að gera hreint fyrir okkar dyrum. Vistspor Dana og losun gróðurhúsalofttegunda á íbúa er meðal þess mesta í heimi. Ef allt fólk neytti eins mikils og Danir gera að meðaltali þyrftum við 4,24 jarðarkringlur. Þessi tala er milli 3 og 4 á hinum Norðurlöndunum en meðaltalið í heiminum er 1,69.

Meðvitundin um þetta eykst stöðugt. 46 prósent Dana líta á loftslagsmál sem „mjög alvarlegt vandamál“. Það er góð byrjun. Ef við ætlum að leysa vandamál verðum við að horfast í augu við það.

Á föstudag í þessari viku er mér sem framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs boðið í danska þingið til að halda þar ræðu á opinberum fundi um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Hvernig vinnur Norræna ráðherranefndin með heimsmarkmiðin og hvernig getur Danmörk haft gagn af okkar reynslu?

Öll norrænu ríkin eru í efstu tíu sætum sætum alþjóðlega listans yfir þau ríki sem lengst eru komin með heimsmarkmiðin. Heimsbyggðin horfir til Danmerkur og Norðurlandanna í leit að sjálfbærum lausnum. Þess vegna hafa norrænu forsætisráðherrarnir átt frumkvæði að því að við miðlum góðum norrænum lausnum með skipulögðum hætti til annarra ríkja.

Eftir standa samt margar erfiðar áskoranir til þess að geta náð heimsmarkmiðunum. Sú stærsta snýst um umskiptin til sjálfbærrar neyslu og framleiðslu - 12. heimsmarkmiðið.

Norðurlöndin eru í forystu um sjálfbæra þróun en það þarf að lyfta Grettistaki og grípa til aðgerða ef við ætlum að uppfylla öll heimsmarkmiðin 17. Ég tel að við eigum alla möguleika á að ganga á undan með gott fordæmi til að tryggja sjálfbæra framtíð fyrir okkur sjálf, börnin okkar og barnabörnin. Því ef Norðurlöndin geta ekki tekið forystu, hver á þá að gera það?  

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Norðurlandaþjóðirnar hafa þegar starfað saman á þessu sviði í áraraðir. Meðal þess fyrsta og þekktasta er norræna umhverfismerkið Svanurinn sem er 30 ára á þessu ári. Norræna ráðherranefndin kom Svansmerkinu á fót til þess að hjálpa neytendum að velja á umhverfisvænan hátt. Nú má finna merkið á tugþúsundum vara og þjónustutilboða. 

Árið 2017 sammæltust norrænu samstarfsráðherrarnir um að auka sameiginlegar aðgerðir sem snúa að heimsmarkmiðunum. Þá varð verkefnið 2030-kynslóðin til. Megináherslan er einmitt á sjálfbæra neyslu og menningu. Verkefnið á að hvetja til aðgerða og stuðla að hreinskilnum og árangursríkum samræðum um hvernig við breytum allri neyslu- og framleiðslukeðjunni þannig að hún verði efnahagslega, félagslega og vistfræðilega sjálfbær.

Þessi umskipti eru afar flókin og krefjast þess að allir geirar taki þátt. Vinna Norrænu ráðherranefndarinnar að heimsmarkmiðunum einkennist þess vegna af þverfaglegu starfi sem allar ráðherranefndirnar koma að, allt frá atvinnulífi til menningar. Ég tel að samstarf sé lykillinn á mörgum sviðum. Danir glíma við svipaðar áskoranir og norrænu nágrannar þeirra og Norðurlöndin komast langt ef við leggjum áherslu á að leysa vandamálin saman og skiptumst á reynslu og lausnum á mismunandi sviðum.

Norðurlöndin eru í forystu um sjálfbæra þróun en það þarf að lyfta Grettistaki og grípa til aðgerða ef við ætlum að uppfylla öll heimsmarkmiðin 17. Ég tel að við eigum alla möguleika á að ganga á undan með gott fordæmi til að tryggja sjálfbæra framtíð fyrir okkur sjálf, börnin okkar og barnabörnin. Því ef Norðurlöndin geta ekki tekið forystu, hver á þá að gera það?

Tengiliður