BLOGGSÍÐA FRAMKVÆMDASTJÓRANS: Þekking sem nýtist

19.10.18 | Fréttir
Dagfinn Høybråten
Ljósmyndari
norden.irg/Thomas Glahn
Hvernig aukum við sveigjanleika félagsmálakerfa okkar og áhersluna á óskir og þarfir borganna? Hvernig virkjum við frjáls félagasamtök í að þróa og veita borgurum félagslega þjónustu? Hvernig aukum við þekkingu okkar á því hvað skilar árangri á félagsmálasviðinu? Þetta eru nokkrar þeirra spurninga sem leitað er svara við í skýrslunni: „Þekking sem nýtist“.

Bloggfærsla eftir Dagfinn Høybråten

Árni Páll Árnason fyrrum félags- og tryggingamálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra á Íslandi vann skýrsluna. Þetta er sú síðasta af sex svokölluðum stefnumótandi úttektum. Í fyrri skýrslunum var fjallað um atvinnulíf, umhverfismál, löggjafarmál, heilbrigðismál og orkumál. Skýrslurnar eru allar mikilvægir liðir endurbótastarfi Norrænu ráðherranefndarinnar „Ný Norðurlönd“ sem miðar að því að auka pólitíska stefnumótun og gildi norræns samstarfs. Með þessum stefnumótandi úttektum eru ráðherrarnir hvattir til þess að takast á við það sem norrænt samstarf ætti að beinast að á næstu fimm til tíu árum.  

Tillögurnar fjórtán um það hvernig við getum aukið norrænt samstarf á sviði félagsmála eru áhugaverðar aflestrar. Ég ætla ekki að gera grein fyrir öllum tillögunum fjórtán. Það sem ég tók sérstaklega eftir er að Árni Páll fullyrðir í inngangi sínum að í tengslum við rannsóknina hafi einna mesta athygli hans vakið það sjónarmið sem var gegnumgangandi – frá ráðherrum til embættismanna, frjálsra félagasamtaka og notenda - að þekkingargrunnurinn að baki félagslegum úrræðum er allt of lítill hér á Norðurlöndum. Hann segir að við þurfum að viðurkenna mikilvægi þess að fjárfesta í félagslegum úrræðum og þar með einnig að fjárfesta verði í að þróa og nýta þekkingu um hvað skilar árangri. Þetta á ekki síst við þegar við berum félagslega geirann saman við aðra geira.

Hann stingur upp á að við komum á fót vettvangi fyrir norrænt samstarf á sviði félagsmála sem verði framlag til þess að gera samstarfið um þekkingu og úrræði sem nýtast á félagsmálasviðinu kerfisbundnara og að við skoðum betur hvernig hvernig stofnanir norræns félagsmálasamstarfs innan ráðherranefndarinnar geti stutt við þá vinnu. Í mínum huga leikur enginn vafi á því að þetta er farsæl leið þegar litið er til þess hvernig við getum nýtt betur styrkleika norræns samstarfs á sviði félagsmála. 

Í mínum huga leikur enginn vafi á því að þetta er farsæl leið þegar litið er til þess hvernig við getum nýtt betur styrkleika norræns samstarfs á sviði félagsmála. 

Dagfinn Høybråten

Árni Páll Árnason bendir á að í norrænu samstarfi eigum við að leggja áherslu á félagslega nýsköpun og faglegar fjárfestingar til þess að auka sveigjanleika félagslegra kerfa okkar og auka áherslu þeirra á óskir og þarfir borgaranna þannig að kerfin snúist um borgarana. Þarna kemst hann að kjarna málsins, að norræna velferðarlíkanið, sem við með réttu erum stolt af, varð til sem nýsköpunarverkefni og þarf á reglulegri nýsköpun að halda til þess að vera áfram sterkt og skipta máli fyrir umheiminn. Til þess að auka áherslu á félagslega sviðið og félagslega nýsköpun leggur hann meðal annars til að komið verði á fót norrænum félagslegum nýsköpunarverðlaunum.

Hann leggur ennfremur til að að við skoðum hvernig frjáls félagasamtök geti fengið betri aðgang og meiri hvatningu til þess að veita félagslega þjónustu. Eins og hann segir í skýrslunni er í norrænu ríkjunum að finna dæmi um velheppnuð verkefni sem hafa verið þróuð af frumkvöðlum og frjálsum félagasamtökum og byggja brú milli félagslegra úrræða hins opinbera gegnum samstarfsnet sjálfboðaliða og notenda eða með því að blanda saman sjálfboðaliðum, fagfólki og notendum. Þetta eru góð dæmi um félagslega nýsköpun á Norðurlöndunum. Hann telur að við ættum að nýta betur þau tækifæri til nýsköpunar sem félagasamtökin geta lagt fram til þess að þróa og veita betri félagslega þjónustu sem sniðin er að þörfum notenda. 

Norræna velferðarlíkanið er einstakt á heimsvísu. Ég lít á tillögurnar í skýrslunni sem framlag til þess að á sviði félagsmála verði það áfram einstakt. Vinnan sem nú hefst hjá Norrænu ráðherranefndinni um heilbrigðis- og félagsmál við að raungera tillögurnar er því mikilvæg. Ég hlakka til hennar.

Tengiliður