Eyrnamerkt feðraorlof öflug leið til að breyta venjum

14.11.19 | Fréttir
Pappa med två barn

pappa med två barn

Ljósmyndari
Moa Karlberg
90 prósent feðra á Norðurlöndum vilja taka ríkan þátt í umönnun barna sinna. Þeir telja þó ekki að aðrir karlar séu því samþykkir. Þetta er meðal niðurstaðna úr skýrslunni State of Nordic Fathers sem kemur út í dag. Meðal þess sem reynt er að svara í skýrslunni er hvers vegna feður á Norðurlöndum taka einungis á bilinu 10 og 30 prósent af öllu fæðingarorlofi.

Niðurstöðurnar byggja á svörum frá 7500 körlum og konum frá öllum Norðurlöndunum. Spurningarnar sneru meðal annars að því hversu góða foreldra þátttakendur töldu sig vera, hversu mikilvægt væri að skipta heimilisverkum og umönnun barna jafnt og einnig hvað þátttakendur teldu að samstarfsfólki og yfirmönnum fyndist um að þeir tækju fæðingarorlof.
 

Gjá milli orða og gjörða

Niðurstöðurnar sýna að karlar og konur á Norðurlöndum eru nokkurn veginn jafnánægð með þátttöku sína í barnaumönnun.

Þar að auki telja meira en 70% mæðra og feðra á Norðurlöndum að fæðingarorlofið eigi að skiptast jafnt milli foreldra. 


Þessi afgerandi stuðningur við jafna þátttöku og skiptingu stangast skýrt á við veruleikann, þar sem norrænir feður taka enn að meðaltali ekki nema 20 prósent af fæðingarorlofinu í heild.
 

Skýrsluhöfundurinn, Carl Cederström, dósent í rekstrarhagfræði við háskólann í Stokkhólmi, vann úr svörunum og dró niðurstöðurnar saman í tíu lykilatriði.

Karlar telja sig þegar sjá um helming vinnunnar

Ein lykilniðurstaðan er sú að feður á Norðurlöndum telja að ábyrgð á heimili og börnum sé þegar skipt á sanngjarnan hátt.

Tveir þriðju karlanna svöruðu því að vinna í kringum börnin skiptist jafnt milli beggja foreldra - en minna en helmingur kvennanna var því sammála. 

Meira en helmingur kvennanna álíta að í raun sjá þær um þungann af vinnunni. 

55 prósent karlanna sögðu að þeir sæju um helming hinnar hversdagslegu vinnu sem tengist börnunum og felst í að sækja börn úr dagvistun, tómstundum, fatnaði og hreinlæti barnanna. Aðeins 33 prósent kvennanna var sammála. 

Lengra feðraorlof breytir viðhorfum

Nokkrar af lykilniðurstöðunum sýna fram á skýrt og stöðugt samband milli lengra feðraorlofs og breyttra viðhorfa.


Feður sem taka lengra fæðingarorlof sinna heimilisverkum í meira mæli. Þeir eru líklegri til að leita sér upplýsinga um uppeldi í bókum eða frá vinum.

Þeir eru einnig ólíklegri til að vera sammála stöðluðum kynjahugmyndum á borð við að „börn þurfi meira á móður sinni að halda en föður sínum“ eða að „karlar eigi ekki að sýna ótta“. 

Finna til sektarkenndar gagnvart samstarfsfólki

Niðurstöður skýrslunnar staðfesta niðurstöður fyrri rannsókna sem sýna að karlar óttast að starfsframi þeirra bíði skaða vegna fæðingarorlofsins.

Ef ekki er fengin tímabundin afleysing fyrir þá á meðan fæðingarorlofinu stendur, finna þeir til ábyrgðar gagnvart samstarfsfólki sem þarf að sinna þeirra starfi. 

En State of Nordic Fathers sýnir einnig fram á greinilegan mun í viðhorfum milli þeirra sem taka langt fæðingarorlof og hinna sem taka stutt orlof. 

Vinna meðfram

Feður sem taka ekkert eða stutt fæðingarorlof óttast frekar að fæðingarorlofið hafi neikvæð áhrif á samband við samstarfsfólk og yfirmenn og á þróun launa og starfsframa. 


Feður í stuttu orlofi eru líklegri til að vinna meðfram orlofinu og til að segja að stundum þurfi þeir að setja vinnuna í forgang framyfir börnin. 


Feður sem taka lengra fæðingarorlof eru bjartsýnni um viðhorf yfirmanna og samstarfsfólks og óttast síður að missa af tækifærum til starfsframa og hærri launa.

Niðurstöðurnar eru hvetjandi

Þeir hika einnig síður við að biðja um sveigjanlegan vinnutíma sem gerir þeim kleift að samlaga vinnuna að því að fara með og sækja börnin í dagvistun. 


-    Niðurstöðurnar ættu að vera hvatning fyrir stjórnmálafólk og fyrirtæki í að auðvelda nýbökuðum feðrum að taka fæðingarorlof án þess að þurfa að hafa áhyggjur af neikvæðum afleiðingum á starfsframa og fjárhag, segir Carl Cederström. 

Eyrnamerkt feðraorlof virkar 

Hann segir einnig að munur sé á milli norrænu landanna þegar kemur að þátttöku feðra í fæðingarorlofi.

Í Danmörku og Finnlandi taka feður um 11 prósent af heildarorlofsdögunum, á Íslandi og í Svíþjóð taka þeir um 30 prósent og í Noregi um 20 prósent. 

Þessi munur helst í hendur við það hvort löndin notast við eyrnamerkt orlof til að hvetja feður til að taka meira fæðingarorlof, eins og Ísland, Svíþjóð og Finnland, eða hvort þau séu með sveigjanlegra kerfi, líkt og Danmörk og Finnland.   

- Sérstakt feðraorlof hefur reynst skilvirkasta leiðin til að fá karla til að vera lengur heima með ungbörnin sín – og það hefur svo áhrif á venjur og viðhorf á vinnumarkaði sem og innan fjölskyldunnar, skrifar skýrsluhöfundurinn.

Fróðleikur: 

Skýrslan byggir á skýrslunni State of the World‘s Fathers frá 2019 sem unnin var af alþjóðakarlasamtökunum Promundo.

State of Nordic Fathers er fyrsta norræna skýrslan.

Skýrslan er unnin fyrir Norrænu ráðherranefndina innan ramma The Nordic Gender Effect - verkefni norrænu forsætisráðherranna um alþjóðleg þekkingarskipti um jafnrétti á vinnumarkaði.

Carl Cederström skrifaði skýrsluna og ritstjórn var í höndum sænsku samtakanna Män. 

Helstu sérkenni landanna:

  • Sænskir feður eru líklegri en aðrir til að taka fæðingarorlof lengra en hálft ár. 
  • Íslenskir feður vilja helstir að fæðingarorlof sé langt. 
  • Finnskir feður eru líklegri en aðrir til að taka ekki fæðingarorlof. 
     
  • Danskir feður eru líklegri en aðrir til að verja einungis tveimur vikum heima með börnin sín. 
     
  • Reynslan í Noregi sýnir að fæðingarorlof feðra fylgist að við hversu margar vikur eru eyrnamerktar þeim í fæðingarorlofskerfinu.

Fyrirspurnir fjölmiðla um skýrsluna, 14.11.

Jens Karberg, MÄN, ritsjóri skýrslunnar, sími +46 76-790 5259

jens.karberg@mfj.se