Fyrirtæki standa sig betur í að vinna í samræmi við Heimsmarkmið SÞ

09.09.19 | Fréttir
Arbetsmiljö
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Norræn fyrirtæki sem eru aðilar að samkomulagi SÞ um siðferði og ábyrgð í viðskiptum (Global Compact) eru áhugasöm um að vinna í samræmi við Heimsmarkmiðin. Þau eru einnig orðin betri í því að samþætta sjálfbærnimarkmiðin 17 við starfsemi sína. Þetta sýnir ný rannsókn þar sem fullyrt er að fyrirtækin gætu orðið enn betri ef stuðningur hins opinbera væri virkari.

Rannsóknin Nordic businesses and the 2030 Agenda – Global Compact Nordic Survey 2019 varpar ljósi á það hvernig norræn fyrirtæki vinna með Heimsmarkmiðin, sjálfbærnimarkmiðin 17. Fyrirtækin 243 sem þátt tóku í rannsókninni hafa öll undirritað samkomulag SÞ um siðferði og ábyrgð í viðskiptum. Það er ekki bindandi en það er stærsta sjálfbærniverkefni heims fyrir fyrirtæki og samtök.

Rannsóknin sýnir að fyrirtækin hafa almennt áhuga á að vinna með Heimsmarkmiðin og þau eru einnig fær um að greina hvaða markmið eru mikilvæg fyrir þeirra starfsemi sérstaklega.

Samkvæmt rannsókninni hafa Heimsmarkmiðin áhrif á alla starfsemi fyrirtækjanna og í 90 prósent tilvika var því svarað að æðsta stjórn fyrirtækjanna stæði ekki í veg fyrir samþættingu sjálfbærnimarkmiðanna. Aðeins 14 prósent svarenda segja að fjárhagslegar ákvarðanir standi í vegi fyrir samþættingu Heimsmarkmiðanna.

Fjórir af fimm, eða 79 prósent, segjast hafa samþætt sjálfbærni í stefnumörkun sinni. 42 prósent fyrirtækjanna hafa komið á fót stjórnunareiningu vegna sjálfbærnimarkmiðanna sem hefur ákvörðunarvald og fjárveitingu en 29 prósent segja að markmiðinn stuðli að því að þeir komi auga á ný viðskiptatækifæri.

Áhersla á starfsskilyrði og umhverfi

Fyrirtækin sjá stærstu tækifærin í því að vinna með markmiðin sem taka til ábyrgrar neyslu og framleiðslu (12. markmiðið), aðgerða í loftslagsmálum (13. markmiðið), góðrar atvinnu og hagvaxtar (8. markmiðið), heilsu og vellíðunar (3. markmiðið) og jafnréttis (5. markmiðið).

Minni áhersla er lögð á líf í vatni (14. markmiðið), líf á landi (15. markmiðið) og að vinna gegn fátækt (1. markmiðið) og hungri (2. markmiðið). Helstu hindranirnar í vegi vinnunnar við sjálfbærnimarkmiðin eru samkvæmt skýrslunni að grípa réttu tækifærin og samþætta markmiðin í starfsemi fyrirtækjanna og í ársreikningi þeirra.

Lýsa eftir meiri stuðningi

Fyrirtækin nefna almennt að þeim finnist skorta á stuðning stjórnvalda. Aðeins 13 prósent töldu að stuðningurinn væri nægilegur. Hins vegar sýnir rannsóknin að fyrirtækin hafa ekki nægilegar upplýsingar um áætlanir landanna og þann stuðning sem fyrir hendi er.

Með öðrum orðum eru fyrir hendi tækifæri til þróunar varðandi stuðning stjórnvalda ríkjanna en einnig varðandi æðstu stjórnir fyrirtækjanna. Skýrslan sýnir fram á að stjórnendur fyrirtækja hafa tækifæri til að auka vægi sjálfbærni í heildarafkomu fyrirtækjanna. Með því að tengja fjárhagsáætlun og árangur við sjálfbærnimarkmiðin eru Heimsmarkmiðin sett í forgang ofar í stjórnun fyrirtækja.