Halldór Ásgrímsson látinn

19.05.15 | Fréttir
Halldór Ásgrímsson
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Halldór Ásgrímsson, fyrrum framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, er látinn, 67 ára að aldri.

Dagfinn Høybråten, núverandi framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, ritar eftirfarandi minningarorð:


– Fregnir af skyndilegu andláti Halldórs Ásgrímssonar valda okkur mikilli sorg. Með honum hafa Ísland og Norðurlönd misst stjórnmálaskörung og leiðtoga sem um langt skeið hefur tekið þátt í að móta þróun mála á þessu svæði. Hann hóf stjórnmálaferil sinn ungur og tók snemma við trúnaðarstöðum sem þingmaður, flokksformaður og ráðherra. Utan Íslands var hann einkum þekktur sem utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Hann hafði einnig víðtækt alþjóðlegt tengslanet frá þeim tíma. Þegar kom að því að Norræna ráðherranefndin þurfti að skipa nýjan framkvæmdastjóra varð hann fyrstur Íslendinga til að taka við þeirri stöðu. Halldór nýtti mikla og víðtæka reynslu sína þegar hann hóf fullt starf að norrænum málefnum, en það var viðfangsefni sem hann hafði haft brennandi áhuga á öll sín fullorðinsár. Honum tókst að afla stuðnings forsætisráðherra Norðurlanda, sem fara með æðsta vald í ríkisstjórnarsamstarfi landanna, við víðtæka norræna starfsemi á sviði alþjóðavæðingar og græns vaxtar. Hann kaus helst að fara fram af varkárni, en sterk hugsjón hans um aukið skuldbindandi og öflugt samstarf Norðurlanda fór ekki fram hjá neinum sem hitti hann.


Hugur okkar er nú hjá Sigurjónu, konu Halldórs, og öðrum fjölskyldumeðlimum og við heiðrum minningu hans.