Karlar blása til baráttu fyrir jafnrétti

10.10.17 | Fréttir
Gary Barker, Barbershop i Köpenhamn
Photographer
Irish GBV Consortium
Karlar sitja á flestum valdastólum samfélagsins en þeir eru jafnframt í meirihluta í þeim hópum sem minnst mega sín. Þörf er á fleiri konum í forystustörf í samfélaginu og atvinnulífinu en einnig fleiri körlum sem mennta sig, gæta að heilsu sinni og sinna börnum sínum. Á fimmtudaginn koma saman í Kaupmannahöfn fulltrúar atvinnulífsins og stjórnvalda auk alþjóðlega þekktra sérfræðinga í karlafræðum í þeim tilgangi að virkja karla í baráttunni fyrir jafnrétti.

12. október verður sá dagur þar sem norrænir karlar verða leiðandi í starfi að auknu jafnrétti.

Þá dag fer fram Rakarastofuráðstefna í bækistöðvum SÞ í Kaupmannahöfn, FN Byen. Volvo, Nokia og Ikea senda fulltrúa á ráðstefnuna en þar verða einnig norrænir ráðherrar og alþjóðlegir sérfræðingar á við Gary Barker, Michael Kaufman og Svend Aage Madsen.

Norræna ráðherranefndin heldur ráðstefnuna í samstarfi við UN Women (Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna). Stefnt er að því að Norðurlöndin gangi skrefinu lengra í jafnréttismálum og verði áfram öflug fyrirmynd annarra landa á því sviði.

Best í heimi en markinu þó ekki náð

„Í mínum huga felst jafnréttisstarf í að tryggja jöfn réttindi allra óháð kyni. Jafnrétti er ekki sérmál kvenna. Enn er margt óleyst í jafnréttismálum bæði hvað varðar karla og konur. Því er afar mikilvægt að karlar taki þátt í að allir öðlist jöfn tækifæri á öllum sviðum lífsins,“ segir Karen Ellemann, jafnréttismálaráðherra Danmerkur.

Norðurlöndin eru á margan hátt leiðandi afl þegar kemur að jafnrétti, sem á sinn þátt í því að hagkerfi svæðisins er eitt hið öflugasta í heimi. Fjárfestingar ríkjanna í menntun, umönnun barna og aldraðra og fæðingarorlofi hafa leitt til þess að atvinnuþátttaka norrænna kvenna er mun meiri en í öðrum OECD-ríkjum.

En atvinnulífinu hefur enn ekki tekist að nýta sér allan þann menntaða mannauð sem samfélagið hefur fjárfest í:    

 „61 prósent þeirra sem ljúka háskólaprófi á Norðurlöndum eru konur. Samt eru það karlar sem gegna flestum stjórnunarstörfum í atvinnulífinu. Enn eru það konurnar sem verja mestum tíma í húsverkin og fæðingarorlof og eru oft í hlutastörfum. Við verðum að brjóta upp þetta mynstur til að skapa farsæl samfélög þar sem jafnrétti ríkir,“ segir Þorsteinn Víglundsson, jafnréttismálaráðherra Íslands.

Feðraorlof er lykilatriði

Þrátt fyrir að karlar og konur á Norðurlöndum eigi sama rétt til fæðingarorlofs er það enn svo að konurnar taka meira en 70% af orlofinu og verja einni klukkustundu meira en karlarnir í húsverk á degi hverjum.

Sænsk rannsókn sýnir að fyrir hvern mánuð sem feður verja heima hjá ungum börnum aukast ævitekjur mæðra um 7%. 

 „Við náum aldrei fullu jafnrétti ef karlar axla ekki sinn helming heimilisstarfanna og umönnunar ungra barna,“ segir Gary Barker, sérfræðingur og stofnandi Promundo, en það eru samtök sem vinna að því um allan heim að virkja drengi og karla í baráttunni gegn kynjamismunun. Hann er einn ræðumanna á Rakarastofunni í Kaupmannahöfn.

Gary Barker er einn æ fleiri fulltrúa atvinnulífsins sem bendir á feðraorlof sem eitt mikilvægasta tækið til breytinga.

Karlar sem taka fæðingarorlof gæta meira að heilsunni, taka færri lyf og eru afkastameiri í vinnunni.

Karlar deyja fyrr og hafa minni menntun

Svend Aage Madsen, yfirmaður rannsókna við Kaupmannahafnarháskóla, segir fastgróin kynjahlutverk valda því að karlar deyja fyrr, veikjast oftar, hafa minni menntun og taka síður þátt í foreldrahlutverkinu.

 „Um áratuga skeið hafa konur barist fyrir jafnrétti í samfélaginu. Karlar hafa ekki háð sams konar baráttu fyrir réttindum sínum, þroska og stöðu. Við sjáum afleiðingarnar í dag. Margir karlar eru í efstu lögum samfélagsins á sama tíma og þeir dragast aftur úr á mjög mörgum sviðum. Karlar þurfa að láta til sín taka,“ segir Svend Aage Madsen.

 

  • Hér er að finna dagskrá og nánari upplýsingar um Rakarastofuráðstefnuna í Kaupmannahöfn. Dagskrá