Norrænir loftslags- og umhverfisráðherrar funda með framkvæmdastjóra Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna
Miðvikudaginn 8. maí komu loftslags- og umhverfisráðherrar norrænu landanna saman í Stokkhólmi til ráðherrafundar sem haldinn er á hálfs árs fresti. Á fundinum ræddu ráðherrarnir lengi við Inger Andersen, framkvæmdastjóra Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Í viðræðunum var sérstök áhersla lögð á umhverfisþátt sjálfbærrar þróunar og nauðsyn þess að innleiða hringrásarhugsun við efnisnotkun á Norðurlöndum og heiminum.
Inger Andersen, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna: „Samstarf við norrænu löndin er mikilvægt þegar kemur að því að takast á við hinn þríþætta vanda heimsins, þ.e. loftslagsbreytingar, hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og mengun. Fundir eins og þessi undirstrika hvers vegna marghliða samvinna í umhverfismálum skiptir máli til þess að flýta fyrir þeirri þróun sem þörf er á. Ég er því mjög ánægð með vilja norrænu ráðherranna til þess að styrkja hlutverk umhverfisþings Sameinuðu þjóðanna, æðstu ákvörðunarstofnun heims á sviði umhverfismála, sem UNEP stendur fyrir. Þingið stuðlar að öruggri, inngildandi og marghliða framþróun og ég hlakka til að vinna með norrænu löndunum að því að flýta fyrir aðgerðum til að takast á við hinn þríþætta vanda.“
Romina Pourmokhtari, loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar: „Norrænu löndin leggja áherslu á mikilvægi samstarfs við UNEP til þess að setja markið hærra í tengslum við hringrásarhagkerfi á heimsvísu. Það er mikilvægt að atvinnulífið taki þátt í þeirri vinnu. Jafnframt hafa norrænu löndin góð tækifæri til þess að leggja fram lausnir, til dæmis á sviði byggingariðnaðar og vefnaðarvöru.“
Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar: „Auðlindanotkun okkar Norðurlöndum er mjög mikil og því er ábyrgð okkar einnig mikil svo ég er mjög ánægð með viðræðurnar við UNEP í dag um það hvernig norrænu löndin geta eflt alþjóðlegt umhverfis- og loftslagsstarf almennt, en ekki síst í tengslum við hringrásarhagkerfið. Við höfum þekkinguna og erum sammála um stefnuna og tilganginn en það er lykilatriði í því að ná árangri.“
Ráðherrarnir ræddu einnig við framkvæmdastjórann hvernig norrænu löndin geta stuðlað að því að setja markið hærra og tryggja styrkari stefnumótun á næstu Umhverfisþingum Sameinuðu þjóðanna (UNEA). Með hliðsjón af viðræðunum við framkvæmdastjórann skrifuðu ráðherrarnir undir sameiginlega yfirlýsingu.
Fundir eins og þessi undirstrika hvers vegna marghliða samvinna í umhverfismálum skiptir máli til þess að flýta fyrir þeirri þróun sem þörf er á. Ég er því mjög ánægð með vilja norrænu ráðherranna til þess að styrkja hlutverk umhverfisþings Sameinuðu þjóðanna.
Alþjóðlegar viðræður í loftslags- og umhverfismálum í brennidepli
Ráðherrarnir ræddu jafnframt yfirstandandi viðræður um alþjóðlegan samning á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem ætlað er að stöðva þann gríðarmikla vanda sem plastmengun er, væntanlegan fund Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (COP16) og sameiginlegar áherslur Norðurlanda á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna (COP29). Inger Andersen tók einnig þátt í umræðunum.
Norðurlönd hafa unnið margar greiningar í tengslum við yfirstandandi viðræður um plast og ráðherrarnir ræddu hvernig norrænu löndin geti unnið saman að því að ná fram metnaðarfullum alþjóðlegum samningi í viðræðunum (INC5) í haust.
Romina Pourmokhtari, loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar: „Við sjáum mikil tækifæri fyrir norrænu löndin að stuðla að metnaðarfullum samningi með því að halda í sameiningu áfram að knýja á um samning sem nær yfir vistferli plasts í heild sinni, þar með talið frumframleiðslu þess. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að stór framleiðslulönd vilja komast hjá þessu. Norrænu löndin geta lagt sitt af mörkum með þýðingarmikilli reynslu af meðhöndlun plasts á öllum stigum virðiskeðjunnar.“
Staðreyndir
Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNEP, ákvarðar stefnu í umhverfismálum á vegum Sameinuðu þjóðanna og stendur að gerð alþjóðlegra samninga á ýmsum sviðum sem tryggja umhverfisvæna og sjálfbæra þróun á heimsvísu. Norrænu löndin styðja UNEP hvert í sínu lagi og einnig í gegnum Norrænu ráðherranefndina.