Nýr forseti Norðurlandaráðs æskunnar kjörinn

26.10.20 | Fréttir
Aldís Mjöll Geirsdóttir
Photographer
Aldís Mjöll Geirsdóttir
Aldís Mjöll Geirsdóttir var kjörin forseti Norðurlandaráðs æskunnar (UNR) á árlegu þingi æskulýðssamtakanna um helgina.

Norðurlandaráð æskunnar þjófstartaði þingviku Norðurlandaráðs um helgina og kaus sér nýjan forseta fyrir næsta ár. Hin íslenska Aldís Mjöll Geirsdóttir varð fyrir valinu.

 

Að kjöri loknu sagði hinn nýi forseti: „Það er mér mikill heiður að vera treyst til að gegna stöðu forseta UNR. Staðan gerir mér kleift að berjast fyrir ungmenni á Norðurlöndum og verja réttindi þeirra og hagsmuni. UNR er ekki aðeins viðbót við norrænt samstarf, heldur öflugur drifkraftur og þátttakandi í samstarfinu. Ég ber miklar væntingar til þeirra áskorana og verkefna sem bíða mín og forsætisnefndarinnar á næsta ári.“

 

Ennfremur minnti Aldís Mjöll á nauðsyn þess að muna eftir unga fólkinu í tengslum við yfirstandandi heimsfaraldur og loftslagsvanda: „Við erum stödd í miðjum heimsfaraldri COVID-19 og einnig ríkir neyðarástand í loftslagsmálum. Nauðsynlegt er að gæta að því að unga fólkið gleymist ekki í aðgerðum norrænu ríkisstjórnanna.“

Það er mér mikill heiður að vera treyst til að gegna stöðu forseta UNR. Staðan gerir mér kleift að berjast fyrir ungmenni á Norðurlöndum og verja réttindi þeirra og hagsmuni. UNR er ekki aðeins viðbót við norrænt samstarf, heldur öflugur drifkraftur og þátttakandi í samstarfinu. Ég ber miklar væntingar til þeirra áskorana og verkefna sem bíða mín og forsætisnefndarinnar á næsta ári.

Aldís Mjöll Geirsdóttir, nýkjörinn forseti UNR

Auk forsetakjörsins voru fjölbreytt pólitísk málefni á dagskrá æskulýðsþingsins. Meðal umræðuefna voru stjórnsýsluhindranir í tengslum við yfirstandandi heimsfaraldur, loftslagmál og sjálfbærni auk æskulýðssamstarfs á norðurslóðum og í Eystrasaltslöndum.

 

Með kjöri Aldísar Mjallar Geirsdóttur til forseta markar þing Norðurlandaráðs æskunnar endalok forsetatíðar hins finnska Nicholasar Kujala. Hér að neðan má nálgast viðtal við Nicholas Kujala síðan í maí, þar sem hinn fráfarandi forseti UNR ræddi þörfina á auknu norrænu samstarfi á erfiðleikatímum.

Norðurlandaráð æskunnar er vettvangur stjórnmálasamtaka ungs fólks á Norðurlöndum, þar sem ungmenni sem virk eru í stjórnmálum starfa saman að því að setja mark sitt á viðfangsefni norræns samstarfs.