Óvissunni eytt – nýjar tölur varpa ljósi á ferðir fólks yfir landamæri vegna vinnu á Norðurlöndum

24.02.21 | Fréttir
någon går över norsk-svenska gränsen
Photographer
norden.org
Ferðum fólks milli Norðurlanda hafði þegar tekið að fækka áður en heimsfaraldurinn gerði fólki erfitt fyrir að vinna í öðru landi. Meðal annars fækkaði í hópi ungs fólks á Norðurlöndum sem sækir vinnu í nágrannalandi. Þetta kemur fram í fyrstu kerfisbundnu greiningunni á vinnu fólks þvert á landamæri á Norðurlöndum.

Með skýrslunni Nordic cross-border statistics unnu hagstofur landanna fimm í fyrsta skipti saman að því að greina þann hluta vinnumarkaðsins sem teygir sig yfir landamærin á Norðurlöndum.

Verkefnið var erfiðara en það lítur út fyrir að vera, meðal annars vegna þess að öllum löndunum er ekki frjálst að afhenda persónuupplýsingar um íbúa.


 

Óvissa skapar óöryggi

Grundvallarstaðreyndir um það hve margir starfa eða stunda nám í nágrannalandi eru mikilvægur grundvöllur stefnumótunar, sérstaklega á landamærasvæðum þar sem allt að 13% launafólks ferðast yfir landamæri vegna vinnu.

Til þessa hefur skortur á upplýsingum skapað mikla óvissu um raunverulega atvinnuþátttöku á landamærasvæðum – einfaldlega vegna þess að opinber tölfræði nær ekki til ferða á landamærasvæðum.

Atvinnuleysi er ofáætlað

„Þessi óvissa getur meðal annars haft þau áhrif að atvinnuþátttaka er stórlega vanmetin verulega á vissum svæðum. Þar sem tölfræðin tekur ekki til hluta starfandi fólks getur atvinnuleysi einnig verið ofáætlað,“ segir Kaija Ruotsalaine frá Hagstofu Finnlands, sem leiðir norræna hagstofuverkefnið.


Einnig hafa upplýsingar um menntun nærri 100.000 Norðurlandabúa verið uppfærðar þökk sé verkefninu, sem hefur gert löndunum kleift að leiðrétta tölfræði sína um menntunarstig íbúa.


Opinber tölfræði hefur hingað til ekki að fullu náð til þeirra sem hafa menntað sig í nágrannaríkjum.

Áhrif á aðdráttarafl landamærasvæða

Fyrir landamærasvæðin eru réttar tölur um fjölda íbúa sem starfa í öðru landi skilyrði fyrir því að bæði markaðssetja svæðið og skipuleggja íbúðarhúsnæði, skóla og samgöngur.


„Ef tölfræðigrundvöllur er ekki til staðar hefur það áhrif á aðdráttarafl landamærasvæðisins okkar, Stór-Kaupmannahafnarsvæðisins, þar sem við getum ekki sýnt fram á styrk vinnumarkaðarins. Þetta skapar einnig mikla óvissu þegar við skipuleggjum bæði innviði og menntun. Einnig gefur þetta skakka mynd af atvinnuþátttöku og barnafátækt í sveitarfélögum á Skáni, sem getur meðal annars leitt til þess að aðgerðir missa marks,“ segir Ulrika Geeraedts, þróunarstjóri hjá Region Skåne, svæðisyfirvöldum á Skáni.

Danir stökkva yfir Svíþjóð – starfa helst í Noregi


Heilt á litið er fólk sem ferðast yfir landamæri aðeins lítill hluti vinnuaflsins á Norðurlöndum, eða minna en eitt prósent vinnufærra borgara. Stærsti hlutinn er í Svíþjóð og sá næst stærsti á Íslandi.


Skýrslan Nordic cross-border statistics sýnir að árið 2015 störfuðu 51.000 Norðurlandabúar í öðru ríki en þeir bjuggu í. Þrír fjórðu hlutar þeirra eru Svíar sem ferðast til Danmerkur og Noregs.

Noregur er einnig aðlaðandi vinnumarkaður fyrir Dani. Ein óvæntasta niðurstaða skýrslunnar er að 63% þeirra Dana sem starfa í öðru norrænu landi vinna í Noregi.

Þróunin er niður á við

Á árunum 2015 til 2017 fækkaði þeim sem ferðuðust yfir landamæri vegna vinnu verulega, samkvæmt nýju greiningunni. Fyrst og fremst eru það ungir Svíar sem vinna ekki í sama mæli í Noregi. Svíar eru í meirihluta þeirra sem ferðast yfir landamæri vegna vinnu á Norðurlöndum.

 

Minnkað atvinnuleysi meðal ungs fólks í Svíþjóð, veikari norsk króna og samkeppni frá Pólverjum og Litháum í byggingariðnaði eru á meðal skýringa fyrir þessari þróun sem hélt áfram til að minnsta kosti ársins 2019.


Á sama tíma hefur fjöldi Dana sem ferðast til Noregs vegna vinnu haldist stöðugur á tímabilinu.

 

Atvinnuleysi stýrir ferðum

„Ferðir fólks yfir landamæri vegna vinnu breytast samhliða atvinnuleysi í löndunum. Gengisbreytingar hafa minni áhrif en yfir lengri tímabil geta breytingar á launum innan einstakra greina átt þátt í því að stuðla að hluta af þessum ferðum,“ segir Helge Næsheim hjá Norsku hafstofunni og einn af höfundum skýrslu um hreyfanleika á Norðurlöndum.


Fólk sem ferðast yfir landamæri vegna vinnu er ef til vill lítill hluti vinnumarkaðarins en á landamærasvæðum getur það verið meira en 10% starfandi fólks.


Í vesturhluta Svíþjóð er hlutfall þeirra sem ferðast yfir landamæri vegna vinnu hæst, eða 13,2% vinnufærra borgara. Í suðurhluta Svíþjóðar og norðurhluta Finnlands starfa um 3% í öðru landi.

Skýrslan er fyrsta skrefið

Skýrslan er arfrakstur fimm ára samstarfsverkefnis hagstofa landanna og inniheldur tölur um ferðir fólks yfir landamæri til ársins 2017.


Tölulegar upplýsingar liggja ekki fyrir um árin þar á eftir, þar sem upplýsingaskipti milli landanna eru ekki enn hluti af reglulegri samantekt landanna á tölulegum upplýsingum.

Norræna ráðherranefndin vinnur að því að gera söfnun upplýsinga sem ná yfir landamæri að varanlegum hluta af hagskýrslugerð.