Vinnuferðalangar greiði skatt í tveimur löndum eftir synjun fjármálaráðherranna

07.09.20 | Fréttir
Öresundsbron
Photographer
Johannes Jansson/norden.org

Í ár eru 20 ár liðin frá opnun brúarinnar yfir Eyrarsund en undanfarið hálft ár hefur kórónufaraldurinn valdið vinnuferðalöngum á svæðinu miklum vandræðum líkt og á öðrum landamærasvæðum.

Norrænir vinnuferðalangar sem unnið hafa heiman frá sér í kórónufaraldrinum gætu þurft að greiða skatt í tveimur löndum eftir að fjármálaráðherrar Norðurlanda höfnuðu undanþágu frá gildandi skattareglum.

Samkvæmt norræna tvísköttunarsamningnum ber vinnuferðalangi sem ferðast yfir landamæri að greiða skatt í því landi sem hann vinnur í. Á meðan kórónufaraldurinn hefur staðið yfir hafa margir vinnuferðalangar unnið heiman frá sér að ósk vinnuveitenda sinna en það hefur í för með sér að greiða þarf skatt í búsetulandinu fyrir hvern dag sem unnið er þar.

Á Eyrarsundssvæðinu er einnig í gildi sérstakur skattasamningur, Eyrarsundssamningurinn, sem felur í sér að hafi heimavinnan verið meiri en sem nemur 50 prósentum yfir þriggja mánaða tímabil gildi ekki sömu reglur og venjulega. Þess í stað ber þá að greiða skatt í búsetulandinu.

2. júní sendi Bertel Haarder, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins, bréf fyrir hönd fulltrúa landanna í Stjórnsýsluhindranaráðinu til allra norrænu skatta- og fjármálaráðherranna þar sem hann vakti máls á vandamálinu.

Í bréfinu lagði hann til lausn sambærilega þeirri sem notuð hefur verið í almannatrygginga- og atvinnuleysistryggingakerfinu þar sem launþegar eru áfram í kerfi vinnulandsins. Sú lausn myndi fela það í sér að vinnuferðalangar greiddu skatt í vinnulandinu en ekki i búsetulandinu.

Svör hafa nú borist frá Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Svörin hljóða öll á þann veg að ráðherrarnir hyggist sem stendur ekki grípa til aðgerða sem veiti undanþágu frá norræna tvísköttunarsamningnum eða Eyrarsundssamningnum.

Það þýðir að þeir vinnuferðalangar sem þetta snertir þurfa að telja fram og greiða skatt bæði í búsetu- og vinnulandinu, og í sumum tilvikum þarf að senda skattgreiðslur á milli landa, sem hefur í för með sér aukið vinnuálag fyrir launþegann, vinnuveitandann og stjórnvöld.

Vonuðust eftir jákvæðum viðbrögðum

„Ég er ánægður með að hafa fengið svör frá fjármálaráðherrunum en ég var að vonast eftir að svarið yrði eins jákvætt og það sem kom frá félagsmálaráðherrunum. Þeir leystu vandamálið með því að afgreiða vinnuferðalanga með sama hætti og þeir væru í vinnu eins og vanalega. Ég vona að málinu sé ekki lokið því það þýðir að vinnuferðalangar eigi einnig á hættu að lenda í vandræðum síðar. Ég held áfram að þrýsta á um þetta,“ sagði Bertel Haarder.

Anneli Hulthén, landsstjóri á Skáni, sem einnig hefur unnið ötullega að því að lágmarka neikvæðar afleiðingar faraldursins fyrir vinnuferðalanga, var vonsvikin.

„Þetta voru vægast sagt slæmar fréttir. Ég átti von á að ráðherrarnir kæmu fram með lausn í ljósi þess hve sérstakar aðstæður eru uppi. Það hefði átt að vera hægt að leysa þetta. Það hefur nóg mætt á vinnuferðalöngum í þessum faraldri,“ sagði Hulthén og bætti við að hún og fulltrúar annarra landamærasvæða myndu áfram hittast til að reyna að finna lausnir á sameiginlegum vandamálum.

34 nýjar stjórnsýsluhindranir vegna kórónuveirunnar

Skattamálin eru bara eitt dæmi um þau vandamál sem kórónufaraldurinn hefur valdið vinnuferðalöngum.Allan þann tíma sem faraldurinn hefur geisað hefur Stjórnsýsluhindranaráðið, sem vinnur að því að ryðja úr vegi hindrunum fyrir ferðafrelsi á Norðurlöndum, unnið að því með aðstoð upplýsingaskrifstofanna á landamærasvæðunum að safna upplýsingum um þær stjórnsýsluhindranir sem upp hafa komið í kjölfar takmarkana sem löndin hafa sett vegna faraldursins.

Samtals hafa 34 nýjar hindranir verið greindar í faraldrinum. Af þeim hafa 18 verið leystar en 16 eru eftir. Allar hindranir hafa verið tilkynntar til norrænu samstarfsráðherranna og norrænu samstarfsnefndarinnar.

Greining sem Stjórnsýsluhindranaráðið hefur unnið sýnir að mismunandi takmarkanir sem löndin hafa innleitt í baráttu sinni við COVID-19 hafa valdið mikilli gremju meðal margra sem búa við landamærin. Af þeim 1669 sem fyllt hafa út eyðublaðið segja 82,5 prósent að takmarkanirnar hafi skapað vanda.

    Ráðherrar ætla að læra af krísunni

    Hinar mismunandi aðgerðir landanna í baráttu þeirra við COVID-19 og þau vandamál sem þær hafa haft í för með sér fyrir ferðafrelsi innan Norðurlanda urðu til þess að Bertel Haarder og Stjórnsýsluhindranaráðið sendu norrænu forsætisráðherrunum einnig bréf í júní. Í bréfinu eru forsætisráðherrarnir hvattir til að taka upp samnorræna stefnu til að geta betur tekist á við krísur í framtíðinni um leið og hvatt er til þess að löndin upplýsi hvert annað tímanlega áður en ferðafrelsi yfir landamæri er skert.

    Í svarbréfi segir Mogens Jensen, samstarfsráðherra Norðurlanda í Danmörku, að samstarfsráðherrarnir hafi rætt ástandið á aukafundum ársins.

    „Við erum einnig sammála um að við þurfum að draga lærdóm af krísunni svo við stöndum betur að vígi næst,“ skrifar Jensen fyrir hönd allra norrænu samstarfsráðherranna.