Ráðherranefndin stofnar viðbragðshóp til að verja norrænan landbúnað fyrir loftslagsbreytingum

19.09.18 | Fréttir
Extraordinärt ministerådsmöte med skogs- och lantbruksministrarna.
Photographer
Ninni Andersson, Regeringskansliet
Verja verður skógrækt og landbúnað á Norðurlöndum fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og auka viðbúnað vegna skógarelda og öfga í veðráttu. Norrænu ráðherrarnir ákváðu á aukafundi sínum í dag að stofna viðbragðshóp sem á að greina áskoranir í skógrækt og landbúnaði vegna öfga í veðráttu í framtíðinni.

Loftslagsbreytingar áþreifanlegar

Nýjar tölur frá framkvæmdastjórn ESB sýna að hinir miklu þurrkar í sumar höfðu áhrif um alla Evrópu en bitnuðu sérstaklega á skógrækt og landbúnaði á Norðurlöndum.
Þetta er í fyrsta sinn sem loftslagsbreytingarnar bitna með svo áþreifanlegum hætti á norrænni frumframleiðslu. 
Í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi urðu mikil afföll af heyjum vegna þess að tún þurrkuðust upp. Þetta leiddi mikilla erfiðleika bæði hjá kjöt- og mjólkurbændum.

Sameiginlegur undirbúningur

Norrænir ráðherrar skógræktar og landbúnaðar komu saman að frumkvæði sænska landsbyggðarráðherrans, Sven-Erik Bucht, til þess að ræða hvernig löndin geta undirbúið sig sameiginlega undir þær öfgar í veðráttu sem koma skulu. 

„Loftslagsbreytingarnar með tilheyrandi veðuröfgum eiga sér engin takmörk og þetta kemur niður á bændum alls staðar á Norðurlöndum. Það er til mikils að vinna að þróa í sameiningu leiðir til þess að auka viðnámsþol landbúnaðarins bæði gegn miklum þurrkum og rigningum,“ segir Sven-Erik Bucht. 
 

Varnir gegn fræskorti

Ráðherrarnir voru sammála um að sumarið 2018 hafi sýnt þörfina fyrir að vinna saman að aðlögun að loftslagsbreytingunum bæði til skemmri og lengri tíma. Þeir ákváðu að setja á fót viðbragðshóp, vinnuhóp sem ætlað er að greina áskoranir landbúnaðar og skógræktar á tímum meiri veðuröfga. 
 

„Til skemmri tíma litið getur þetta tekið til samstarfs um varnir gegn skógareldum og gegn þeim skorti á fræi og dýrafóðri sem getur orðið þegar öfgar eru í veðri. 
Til lengri tíma getur þetta tekið til þess að auka viðnámsþol landbúnaðarins gagnvart loftslagsbreytingunum,“ segir Bård Hoksrud, landbúnaðar og matvælamálaráðherra Noregs.

NordGen nýtist

Þar getur norræni genabankinn NordGen skipt máli, til dæmis við að taka aftur í notkun frætegundir, svo sem gras með djúpar rætur sem getur lifað af langvarandi þurrka.

„NordGen getur stutt þróun norrænnar ræktunar með tilliti til þarfa landbúnaðar og skógræktar til lengri tíma, loftslagsbreytinga, umhverfisstefnu og þarfa neytenda,“ segir Jari Partanen, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneyti Finnlands.