Vatnið lykillinn að loftslagsaðlöguðum landbúnaði

24.06.19 | Fréttir
Korn
Photographer
Scanpix
Þurrkasumarið mikla 2018 gaf okkur smjörþefinn af þeim áskorunum sem blasa munu við í landbúnaði þegar breytingar verða á loftslagi jarðarinnar. Það að norrænu löndin þrói ný vatns- og ræktunarkerfi, sniðin að veðuröfgum, er ofarlega á verkefnalista vinnuhóps sem hefur kortlagt áhrifin af þurrkum síðasta árs fyrir landbúnaðinn.

„Vatnið er ofarlega á dagskrá, bæði hvað varðar áveitu og framræslu. Þótt árleg úrkoma sé þokkaleg hér á Norðurlöndum munum við þurfa að safna vatni fyrir þurrkatímabil í framtíðinni og einnig að verja okkur fyrir miklum rigningum. Þetta útheimtir þekkingu og nýja tækni,“ segir Per Hansson, formaður norræna vinnuhópsins um landbúnað og veðuröfgar, sem senn skilar af sér lokaskýrslu.

Viðbragðshópur ráðherranna

Vinnuhópurinn heyrir undir viðbragðshóp sem skógræktar- og landbúnaðarráðherrarnir skipuðu síðasta haust, þegar norrænn landbúnaður átti undir högg að sækja í kjölfar þurrka.

Verkefni hópsins var að kortleggja áhrif þurrkanna og leggja til hvernig efla mætti viðbúnað til skemmri tíma auk þess að laga landbúnaðinn að breyttu loftslagi til lengri tíma litið.  Innan skamms mun hópurinn skila skýrslu þar sem greint er frá umfangi vandans og afleiðingum hans fyrir bændur og matvælaiðnað.

Milljarðatap í norrænum landbúnaði 

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að danskur landbúnaður tapaði á bilinu 4–6 milljörðum danskra króna og sænskur landbúnaður rúmum 6 milljörðum sænskra króna í kjölfar þurrkanna árið 2018.  Í Noregi nam tekjutap og kostnaðaraukning um þremur milljörðum norskra króna og í finnskum landbúnaði hefur ábati á ársgrundvelli ekki verið minni síðan árið 2000.

Ræktunartímabilið í ár hefur farið umtalsvert betur af stað en á síðasta ári fyrir flesta norræna bændur. Margir þeirra súpa þó enn seyðið af veðuröfgum síðasta sumars.  Skortur á bæði gróffóðri og útsæði getur haft áhrif á arðsemi jarðræktar, dýraræktar og matvælaframleiðslu allt fram á árið 2020, að sögn vinnuhópsins.

Aukin meðvitund um loftslagsmál

Góðu fréttirnar eru þó, að sögn Pers Hansson, að þetta ófremdarástand hefur leitt til aukinnar meðvitundar um loftslagsbreytingar í landbúnaðargeiranum, allt frá bændum til aðila í matvælaiðnaði og norrænu ríkisstjórnanna 
Í fyrra var brugðist við ástandinu með því að koma á norrænu bráðabirgðasamstarfi um útflutning á gróffóðri og birgðaskráningu útsæðis. 


„Þetta þýðir að viðbúnaðurinn er umtalsvert betri i ár. Í ár verður fylgst grannt með þróun mála gegnum samstarfsnet sem mynduð voru í fyrra, fyrst og fremst á landsvísu en einnig á norrænum vettvangi.“

Nýjar viðnámsþolnar plöntur 

Eitt af lykilatriðum fyrir loftslagsaðlögun landbúnaðar eru plöntur sem eru betur í stakk búnar til að standa af sér hita- og þurrkatímabil, mikla úrkomu og storma.
Því leggur vinnuhópurinn til að NordForsk, NordGen og NKJ, Norræna nefndin um landbúnaðar- og matvælarannsóknir, leiði saman fulltrúa opinbera geirans og einkageirans á sviði plöntukynbóta með það fyrir augum að þróa viðnámsþolnari plöntutegundir.

Vinnuhópurinn, sem var skipaður fulltrúum landbúnaðarráðuneyta frá öllum norrænu löndunum, leggur ennfremur til að komið verði á fót föstu norrænu samstarfsneti sem geti starfað á krepputímum og skipulagt sameiginlegar aðgerðir sem miði að því að auka viðnámsþol í norrænum landbúnaði.

„Það býr mikill kraftur í því að leiða saman reynslumikla og hæfa aðila frá norrænu löndunum með þessum hætti,“ segir Per Hansson.

Þetta leggur vinnuhópurinn til: 

1. Þróa loftslagsvæn vatns- og ræktunarkerfi
2. Þróa plöntutegundir sem þola öfgafullt veðurfar  
3. Þróa stefnu fyrir hættuástand vegna veðuröfga í framtíðinni 
4. Miðla þekkingu milli norrænna ráðgjafa  
5. Koma á föstu norrænu samstarfsneti um landbúnað og veðuröfgar

Skýrslan verður birt á norden.org jafnskjótt og hún hefur verið kynnt á næsta fundi landbúnaðarráðherranna þann 26. ágúst 2019.