Norræn yfirlýsing um viðurkenningu á vitnisburði um æðri menntun Reykjavíkuryfirlýsingin (Endurskoðuð 2016)

02.11.16 | Yfirlýsing
Norðurlönd eru opið mennta- og vinnumarkaðssvæði. Norrænt samstarf á sviði mennta og atvinnu er umfangsmikið og náið og ber að halda því áfram og auka enn frekar.

Upplýsingar

Samþykkt
02.11.2016
Staðsetning
Köpenhamn

Þann 15. mars 1971 undirritaði Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir (MR-U) Samning um samstarf á sviði menningarmála. Þar var leitast við að auðvelda nemendum á háskólastigi og öðrum að afla sér menntunar og þreyta próf á menntastofnunum í öðrum norrænum löndum, og tryggja gagnkvæma viðurkenningu lokaprófa og annarra vitnisburða um námsárangur.

Þann 9. júní 2004 undirritaði Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir (MR-U) Norræna yfirlýsingu um viðurkenningu á vitnisburði um æðri menntun (Reykjavíkuryfirlýsinguna). Yfirlýsingin byggði á samningi Evrópuráðsins og UNESCO um viðurkenningu á vitnisburði um æðri menntun á Evrópusvæðinu (Lissabonsamningnum um gagnkvæma viðurkenningu, 1997) og viðauka við hann.  Reykjavíkuryfirlýsingin átti að stuðla að nánari samvinnu um gagnkvæma viðurkenningu á æðri menntun á Norðurlöndum. Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir (MR-U) hefur nú ákveðið að endurskoða yfirlýsinguna.

Samkvæmt norrænu samstarfsráðherrunum (MR-SAM) er brýnt að skapa eins góðar forsendur og unnt er fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja um Norðurlönd. Með það fyrir augum hyggjast Norðurlöndin, Álandseyjar, Færeyjar og Grænland, vinna saman að því að ný löggjöf landanna og innleiðing ESB-löggjafar í löndunum skapi ekki nýjar hindranir og hamli ferðafrelsi innan svæðisins.

Norðurlandaþjóðirnar hafa unnið saman að menntamálum um margra ára skeið, í tengslum við Lissabonsamninginn um gagnkvæma viðurkenningu  og sem aðilar að Evrópska háskólasvæðinu.[1] Löndin bera þar af leiðandi traust til þess kerfis sem fyrir er hvað varðar gagnkvæma viðurkenningu á æðri menntun. Norrænt samstarfsnet um viðurkenningu erlendra prófa (NORRIC), sem ENIC/NARIC-skrifstofurnar[2] í löndunum standa að, hefur greint og leyst vandamál er varða viðurkenningu æðri menntunar, og jafnframt aukið gæði og skilvirkni í starfsháttum við viðurkenningar slíkrar menntunar innan svæðisins. Fyrir vikið gefst Norðurlöndum einstakt tækifæri á að marka sér stöðu sem brautryðjendur á sviði sjálfkrafa viðurkenningar.[3] Greiðir það fyrir enn nánara samstarfi um sameiginlegar viðmiðunarreglur og góða starfshætti við viðurkenningu lokaprófa, námslengdar og fyrri menntunar.

Menntamála- og rannsóknaráðherrarnir staðfestu norræn markmið og viðmiðunarreglur í hinni upprunalegu Reykjavíkuryfirlýsingu. Hin endurskoðaða útgáfa mun leiða til enn nánara samstarfs viðeigandi aðila, skapa grundvöll fyrir aðlögun að breyttum aðstæðum, og greiða fyrir að unnið verði sameiginlega að því að fylgja eftir þróun á sviði æðri menntunar á Norðurlöndum og evrópskum vettvangi.

 

Hin endurskoðaða Reykjavíkuryfirlýsing á að tryggja að:

 

  • æðri menntun í norrænu ríkjunum njóti fullrar gagnkvæmrar viðurkenningar;
  • Norðurlandaþjóðir vinni saman að markmiðum um að taka upp kerfi til sjálfkrafa viðurkenningar á sambærilegri æðri menntun á svæðinu, í samræmi við markmið Evrópska háskólasvæðisins;
  • Norðurlandaþjóðir  efli áfram samstarf á sviði stjórnsýslu og aðferðafræði við mat á æðri menntun sem aflað er á Norðurlöndum og annars staðar, t.d. með því að skipa starfshópa og halda áfram að miðla upplýsingum og góðum starfsháttum á sviði æðri menntunar, einkum gegnum NORRIC-samstarfsnetið. Viðeigandi ráðuneyti, yfirvöld og æðri menntastofnanir á Norðurlöndum munu taka virkan þátt í samstarfinu og miðlun upplýsinga;
  • aðilar í löndunum endurskoði stöðugt hvernig yfirlýsingin er innleidd og henni beitt, greina aðstæður og þróun við beitingu hennar er þarfnast sérstakrar athygli og virkja viðeigandi hagsmunaaðila í starfinu.

 

 

Norræna ráðherranefndin um menntamál og rannsóknir (MR-U) mun fylgjast með framkvæmd yfirlýsingarinnar og hrinda viðeigandi aðgerðum í framkvæmd .

2. nóvember 2016, Kaupmannahöfn

 

Ulla TørnæsRáðherra menntamála og rannsóknaDanmörk

Torbjørn Røe IsaksenÞekkingarráðherraNoregur

Sanni Grahn-LaasonenMennta- og menningarmálaráðherra Finnland

Helene Hellmark KnutssonRáðherra æðri menntunar og rannsóknaSvíþjóð

Illugi GunnarssonMennta- og menningarmálaráðherra Ísland

Rigmor DamRáðherra menntamála, rannsókna og menningarmálaFæreyjar

Doris JakobsenRáðherra mennta- og menningarmála, rannsókna og kirkju Grænland

Tony AsumaaMennta- og menningarmálaráðherra Álandseyjar

[1] Evrópska háskólasvæðið (EHEA) var kynnt á fundi menntamálaráðherranna í Búdapest og Vín í mars 2010.

[2]  European Network of National Information Centres on academic recognition and mobility, ENIC (Evrópskt samstarfsnet upplýsingamiðstöðva landanna á sviði viðurkenningar æðri menntunar og hreyfanleika), National Academic Recognition Information Centres, NARIC (Upplýsingamiðstöðvar í löndunum á sviði viðurkenningar æðri menntunar).

[3] Skilgreining EHEA Pathfinder Group á sjálfkrafa viðurkenningu: „Sjálfkrafa viðurkenning prófa veitir þeim umsækjanda sjálfkrafa réttindi sem býr yfir hæfi á tilteknu stigi sem veitir aðgang að framhaldsnámi á næsta stigi í hvaða aðildarlandi sem er á Evrópska háskólasvæðinu (aðgang).“

Ráðherra menntamála og rannsókna