Gera á fólki með fötlun kleift að taka þátt án aðgreiningar

24.06.21 | Fréttir
Woman with PT
Photographer
© Copyright Johnér Bildbyrå AB
Meginboðskapur norrænu landanna var skýr: fólk með fötlun á að koma að ákvarðanatöku og hefur rétt á að lifa sjálfstæðu lífi. Þessum boðskap var komið á framfæri af Norrænu ráðherranefndinni, sem stóð fyrir rafrænum hliðarviðburði á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks (CRPD).

„Heimsfaraldur COVID-19 hefur sýnt að aukinna aðgerða er þörf til að tryggja að staðið verði við þær kröfur sem gerðar eru í samningum SÞ á þessu sviði (UNCRPD). Nú þurfum við metnaðarfulla stefnumótun og framkvæmdaáætlanir. Þetta er mikilvægt til að tryggja að skuldbindingum og markmiðum samninganna verði fylgt eftir í daglegu lífi fólks með fötlun,“ sagði finnski fjölskyldu- og félagsmálaráðherrann, Krista Kiuru, sem setti hinn norræna hliðarviðburð. Samfélagsþátttaka án aðgreiningar er forgangs- og áherslusvið undir formennsku Finna í Norrænu ráðherranefndinni 2021. Jafnframt er hún undirstaða norrænna gilda og mikilvægur hluti þeirra.   

 

 


 

Heimsfaraldur COVID-19 hefur sýnt að aukinna aðgerða er þörf til að tryggja að staðið verði við þær kröfur sem gerðar eru í samningum SÞ. Nú þurfum við metnaðarfulla stefnumótun og framkvæmdaáætlanir.

 

Krista Kiuru, fjölskyldu- og félagsmálaráðherra Finnlands

Rétturinn til sjálfstæðs lífs

Bæði ráðherrar og fulltrúar borgaralegra samtaka sóttu viðburðinn til að ræða áskoranir og lausnir í tengslum við nítjándu grein samningsins, sem var helsta þema hliðarviðburðarins. Nítjánda greinin gengur út á að fólk með fötlun eigi að geta tekið fullan þátt í samfélaginu án aðgreiningar og hafi rétt á að lifa sjálfstæðu lífi. Fólk með fötlun á að hafa möguleika á að koma að stefnumótun og pólitískum ákvörðunum sem varða líf þess. Þetta voru skýr skilaboð frá þeim sem tóku til máls á viðburðinum.

 

Fólk er sjálft sérfræðingar í eigin lífi

Astrid Krag, danski ráðherrann á sviði félagsmála og málefna eldri borgara, lagði einnig áherslu á þetta í máli sínu og undirstrikaði að fólk með fötlun væri sjálft helstu sérfræðingarnir í sínu eigin lífi og byggi því yfir dýrmætri vitneskju um það hvernig bæta ætti velferðarkerfið til að tryggja réttindi þess.


„Jafnvel þótt við búum í velferðarríkjum getum við ekki tekið sjálfstæðu lífi eða þátttöku án aðgreiningar sem sjálfsögðum hlutum,“ benti danski ráðherrann á.

 

Áhersla á jafnrétti og ungt fólk

Margir þeirra sem sóttu fundinn sem fulltrúar borgaralegra samtaka tóku dæmi úr eigin lífi í erindum sínum. Anna Caldén frá samtökunum Disability organisation Finland benti á mikilvægi þess að draga fram sjónarmið kvenna og stúlkna með fötlun. Line Skåtøy frá samtökunum Unge sagði að ungmenni með fötlun ættu að fá sæti við borðið þegar pólitískar ákvarðanir væru teknar.