Menntasamningar- og áætlanir á Norðurlöndum

Studerende på bibliotek
Photographer
Yadid Levy/norden.org
Hér er gefið yfirlit yfir þá samninga sem Norðurlönd hafa gert með sér um menntamál og þá menntaáætlanir sem eru í gangi innan hins norræna samtarfs.

Norðurlöndin hafa gert með sér ýmsa samninga sem tryggja norrænum ríkisborgurum aðgang að námi og viðurkenningu á háskólagráðum í öllum norrænu löndunum. Auk þess eru ýmsar menntaáætlanir starfræktar innan hins norræna samstarfs sem bjóða námsmönnum á Norðurlöndum upp á ýmis tækifæri.

Menntasamningar á Norðurlöndum 

Gagnkvæm viðurkenning á háskólamenntun

Reykjavíkuryfirlýsingin er samnorræn yfirlýsing frá árinu 2004 um gagnkvæma viðurkenningu á háskólagráðum. Yfirlýsingin var endurskoðuð árið 2016.

Yfirlýsingin tryggir að háskólamenntun í einu norrænu landi er að reglunni til viðurkennd í öðrum norrænum löndum. Í sumum tilfellum er einnig hægt að fá menntun í öðru norrænu landi metna og þar með fá staðfestingu á því að menntunin sé viðurkennd í því landi.

Nánari upplýsingar fást á einni af fimm norrænum skrifstofum fyrir viðurkenningu á menntun (NORRIC).

Aðgangur að æðri menntun

Samningurinn milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um aðgang að æðri menntun er frá árinu 1996. Samningurinn tryggir að öll sem búa í norrænu landi eiga rétt á að sækja um nám á háskólastigi í öðru norrænu landi á sama grundvelli og umsækjendur frá því landi. Samningurinn gefur einnig rétt á að flytja námseiningar frá einu norrænu landi til annars á sama jafnréttisgrundvelli.

Samningurinn tryggir að hægt er að sækja um nám á háskólastigi í einu norrænu landi á grundvelli fyrri menntunar frá öðru norrænu landi.

Samningur um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi

Samningur um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi (almennir framhaldsskólar og iðn- og tækniskólar) tók gildi árið 2008. Tilgangur hans er að auka frjálsa för milli Norðurlanda með því að gefa námsfólki aðgang að menntun á framhaldsskólastigi til jafns við ríkisborgara hins landsins. Með samningnum skuldbinda löndin sig til að viðurkenna menntun sem sótt var með námi í öðru norrænu landi.

Það þýðir að hægt er að sækja um nám á framhaldsskólastigi í einu norrænu landi á grundvelli grunnskólamenntunar frá öðru norrænu landi og á sama grundvelli og umsækjendur frá því landi.

Tungumálasamningurinn

Tungumálasamningurinn frá árinu 1987 fjallar um fimm ríkismál Norðurlandanna: dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku. Samningurinn fjallar um möguleika norrænna ríkisborgara til að nota eigið tungumál í samskiptum við yfirvöld í öðru norrænu landi, í vissum kringumstæðum.

Samningurinn tryggir að fólk hefur rétt til að leita til yfirvalda í norrænu landi á dönsku, finnsku, íslensku, norsku og sænsku. Þetta á við um skrifleg og munnleg samskipti en ekki samskipti um síma. Samningurinn veitir ekki rétt til að nota hvert þessara tungumála sem er í námi.

Norrænar menntaáætlanir

Nordplus

Nordplus er stærsta menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði símenntunar, menntunar, frjálsrar farar og tungumála. Nordplus samanstendur af fimm undiráætlunum og styður ár hvert mörg þúsund skiptiáætlanir, samstarfsnet og þróunarverkefni fyrir alla aldurshópa og milli aðila á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Menntastofnanir danska minnihlutans í Þýskalandi (Suður-Slésvík) geta einnig sótt um styrki frá Nordplus með sérstökum samningi við Danmörku. Nordplus hefur verið starfrækt frá árinu 1988.

Nordplus gefur námsfólki tækifæri til að taka þátt í skiptiáætlunum á borð við námsdvöl eða verkefnum með öðrum námsfólki frá Norðurlöndum eða Eystrasaltsríkjunum. Til þess að taka þátt þarf menntastofnunin að taka þátt í Nordplus-verkefni með menntastofnunum frá öðru norrænu ríki eða Eystrasaltsríki.

Ef þú starfar hjá menntastofnun í norrænu ríki eða Eystrasaltsríki getur þú fengið stuðning til að koma af stað skiptiáætlun, samstarfsneti eða þróunarverkefni með menntastofnunum í öðru norrænu ríki eða Eystrasaltsríki.

Norræn meistaranámsáætlun

Norræna meistaranámsáætlunin gerir kleift að stunda tveggja ára meistaranám á ensku sem tvær eða fleiri norrænar menntastofnanir frá minnst tveimur mismunandi löndum bjóða upp á í sameiningu. Rannsóknir og mikil gæði eru höfð í hávegum í menntuninni.

Með Norrænu meistaranámsáætluninni er hægt að sækja sér meistaranámsgráðu með því að búa og stunda nám í ýmsum norrænum löndum og fá staðfestingu sem sýnir fram á nám frá tveimur eða fleiri menntastofnunum.

Nordkurs 

Nordkurs eru norræn sumarnámskeið á háskólastigi í tungumálum, bókmenntum og menningu Norðurlandanna. Námskeiðin gefa ECTS-einingar og eru haldin á hverju ári á dönsku, finnsku, finnlandssænsku, íslensku, norsku og sænsku. Sum ár er einnig boðið upp á námskeið á færeysku, grænlensku og samísku. Fleiri en 300 norrænir námsmenn sækja námskeiðin á hverju ári.

Það þýðir að háskólanemendur í einu norrænu landi geta varið 2 til 4 vikum af sumrinu í öðru norrænu landi til að sækja þar tungumálanámskeið eða kynnast bókmenntum eða menningu annars norræns lands. Námsfólk frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð getur fengið greiddan styrk sem stendur straum af hluta af ferða- og dvalarkostnaði (fæði, gisting og námsefni).

Nordiske sprogpiloter 

Nordiske sprogpiloter er verkefni sem hóf göngu sína árið 2007 og býður upp á endurmenntun fyrir kennara í dönsku, norsku og sænsku sem vilja auka færni sína í kennslufræði grannmála og koma samstarfsfólki sínu til aðstoðar í þeim efnum. Þetta á bæði við um kennara sem kenna dönsku, norsku eða sænsku sem móðurmál eða erlent mál. Sú menntun sem Nordiske sprogpiloter býður upp á er ætluð kennurum í grunnskólum og framhaldsskólum.

Verkefnið gefur grunn- og framhaldsskólakennurum tækifæri til að sækja námskeið til að fá dýpri innsýn í norræn tungumál sem nágrannamál eða erlend tungumál og geta þar þróað námsefni og aðferðafræði til að gera norrænt efni hluta af kennslunni. Námskeið og dvöl eru ókeypis en kennarar þurfa sjálfir að standa straum af ferðakostnaði.

Nordspråk

Nordspråk er norrænt tengslanet félaga móðurmálskennara og kennara sem kenna norræn tungumál sem erlend tungumál. Nordspråk býður upp á námskeið og ráðstefnur um bókmenntir, menningu og kennslufræði fyrir grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og kennara í kennaraháskólum. Félögin gefa út fagtímarit þar sem hægt er að miðla efni með norrænu sjónarhorni í greinum og þemaheftum.

Nordspråk býður kennurum sem kenna norræn mál sem erlent tungumál upp á tímarit, námskeið og ráðstefnur til að þeir geti aukið þekkingu sína á menningu og bókmenntum landsins og aflað sér nýrra kennsluverkfæra.

Norðurlönd 0–30

Norðurlönd 0-30 er verkefni sem styður við verkefni barna og ungmenna. Markmiðið er að efla skipulagningu, áhrif og þátttöku þeirra í pólitískum, menningarlegum og félagslegum málum. Markhópur verkefnisins eru börn og ungmenni yngri upp að 30 ára aldri og til að fá styrk þurfa þátttakendur í verkefninu að vera frá minnst þremur norrænum löndum.

Norðurlönd 0-30 gefur þeim sem stýra samtökum, hópum, sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum eða samstarfsnetum færi á að sækja um styrk til að standa fyrir tengslamyndunarviðburðum þar sem börn og ungmenni taka virkan þátt og sem stuðla að norrænni samvinnu. Þetta geta til dæmis verið fundir, sumarbúðir, vinnustofur eða verkefni á borð við ferli, herferðir eða skýrslur. Umsækjendur þurfa sjálfir ekki að tilheyra markhópnum. Hægt er að sækja um allt að 25.000 evrur en gerð er krafa um minnst 15% eignfjármögnun.

Volt 

Volt er menningar- og tungumálaáætlun fyrir börn og ungmenni upp að 25 ára aldri sem hefur verið starfrækt frá árinu 2017. Áætlunin styður verkefni sem vekja áhuga á listum, menningu og tungumálum í öðru norrænu landi og sem beinast að starfsemi barna og ungmenna á sviði lista, menningar og skapandi greina.

Við gefum einstaklingum, hópum og samtökum færi á að sækja um styrki fyrir verkefni sem miðast að menningarlegum og listrænum sköpunarkrafti barna og ungmenna. Öll listræn svið koma til greina. Umsækjendur þurfa sjálfir ekki tilheyra markhópnum. Til að fá styrk þurfa þátttakendur í verkefni að vera frá minnst þremur norrænum löndum.

Nánar um menntun í norrænu löndunum

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna