Svanurinn: Umhverfisvottun sem er erfitt að fá en auðvelt að velja

01.06.23 | Fréttir
pressefoto Svanemærket kampagne
Photographer
Rasmus Brandin

Umhverfismerkið Svanurinn hefur ýtt úr vör herferð þar sem tekin eru viðtöl við vörur sem ekki uppfylla strangar kröfur merkisins um vottun. „Meiri umhverfislúðarnir,“ er meðal annars haft eftir svekktri boxdýnu.

Norræna umhverfismerkingin Svanurinn hefur allt frá níunda áratug síðustu aldar sett há viðmið fyrir umhverfisvottanir á Norðurlöndum og auðveldað norrænum almenningi að taka sjálfbærar og umhverfisvænar ákvarðanir. Í vikunni fer af stað fyrsta herferð Svansins sem nær til Norðurlanda í heild.

Mögulega sterkasta vörumerki Norðurlanda

Um 95% prósent aðspurðra á Norðurlöndum kannast við Svaninn og því má með sanni segja að hann standi traustum fótum og að um vel heppnað umhverfismerki sé að ræða, ef til vill eitt það best heppnaða í heimi. Frá því að Norræna ráðherranefndin setti Svansmerkið á fót hefur það náð til 57 vöruflokka og yfir 20 þúsund vörur hafa hlotið það. Það nær til flokka á borð við hreingerningarefna, fjárfestingarsjóða, rafhlaðna, hótela og byggingarefnis. Nú síðast bættust flutningar vegna netinnkaupa við. Netverslun færist í aukana og því er einnig talið mikilvægt að norrænir neytendur geti valið sjálfbæran flutning á vörum sínum.

Fólk þarf að láta minna sig á

Þótt Svanurinn sé þekktasta umhverfis- og loftslagsmerkingin á Norðurlöndum vita færri hvaða kröfur vörur og þjónusta þurfa að uppfylla til að fá Svansvottun. Einnig vita líklega fæstir af því að Svanurinn er opinber umhverfismerking Norðurlanda.

„Við gerum einhverjar ströngustu umhverfis- og loftslagskröfur í heimi til þeirra vara sem hljóta vottun frá okkur svo valið er einfalt fyrir neytendur,“ segir Christian Quarles van Ufford, markaðs- og samskiptastjóri Svansins í Svíþjóð og bætir við: „Við getum ekki vænst þess að fólk kynni sér langar og flóknar innihaldslýsingar þegar það kaupir sér vörur eða viti hvaða kostur sé bestur þegar „allt“ er merkt sem grænt og sjálfbært.“

Í þessari viku kynnti Svanurinn herferð sem ætlað er að vekja athygli á hinum miklu kröfum sem gerðar eru samkvæmt vottuninni og kynnir jafnframt nýtt slagorð merkisins: Erfitt að fá en auðvelt að velja. Í herferðinni fær maður að heyra í vörum sem ekki stóðust hinar ströngu kröfur. Herferðin er unnin af Forsman&Bodenfors. Hér má horfa á myndskeið herferðarinnar:

">

 

Herferðin er hluti af verkefninu Sjálfbær lífsstíll sem Norræna ráðherranefndin fjármagnar.

Umhverfisleiðbeiningar fyrir 27 milljónir manna

Svansmerkið leiðbeinir framleiðendum og neytendum svo þeir geti valið öruggustu vörurnar út frá heilbrigðis- og umvherfissjónarmiðum. Vottunin stuðlar með beinum hætti að því að draga úr losun, bæta nýtingu auðlinda og draga úr notkun efna sem eru skaðleg heilsu og umhverfi, auk þess að styrkja líffræðilega fjölbreytni á öllum Norðurlöndum.

Upplýsingar um umhverfismerkið Svaninn:

  • Stofnað árið 1989 af Norrænu ráðherranefndinni.
  • 95 prósent Norðurlandabúa þekkja til Svansins.
  • Kröfur Svansmerkingarinnar ná til umhverfis- og loftslagsáhrifa, félagslegra þátta og lífsferils vörunnar.
  • Strangt eftirlit: Alls eru gerðar 2074 kröfur sem skiptast á 57 vöruflokka.
  • Árlega er meira en 76 þúsund tímum varið í eftirlit og veitingu Svansvottunar á Norðurlöndum.
  • Svanurinn er umhverfismerki af gerð 1 samkvæmt ISO 14024 umhverfisvottunarstaðlinum Það þýðir að merkingin er valfrjáls, gerðar eru víðtækar umhverfiskröfur (margir flokkar), merkingin er byggð á lífsferli, kröfur eru hertar eftir því sem fram vindur, kröfur eru þróaðarmeð gagnsæjum hætti, kostnaður er opinber og rekið er vottunarkerfi óháðs þriðja aðila.