Malin Klingenberg

Malin Klingenberg
Photographer
Caj Forst- Klingenberg
Malin Klingenberg: Alberta Ensten och uppfinnarkungen. Barna- og unglingaskáldsaga, Fontana Media, 2014.

Mamma Albertu Ensten er vísinda- og uppfinningakona. Henni hefur tekist að hanna fljúgandi hús sem er knúið af blöndu sólar- og skýjaorku. Húsþyrlan leynilega á að verða framlag mömmu Albertu í stóru uppfinningakeppnina. Alberta stendur sig passlega vel í skóla og er passlega fyrirferðarmikil. Hún sker sig hins vegar úr vegna þess að hún er með stór gleraugu og tannréttingateina sem skreyttir eru glitrandi demöntum. Demantarnir voru settir á vegna þess að tannlæknirinn misskildi hvað Albertu langaði í. Tor er feiminn strákur með falleg augu og hefur lengi verið skotinn í Albertu. Hann verður jafnvel enn spenntari fyrir henni þegar hún birtist með nýju gleraugun og teinana. Þegar hún gleymir veskinu sínu úti í búð grípur hann tækifærið og hleypur í humátt á eftir henni til að skila því. Tor eltir Albertu heim til hennar og ber að dyrum. Þegar enginn svarar fer hann inn. Augnabliki síðar lyftist húsið eins og það leggur sig upp af jörðinni. Mamma Albertu er búin að kveikja á húsþyrlunni og setur stefnuna á uppfinningakeppnina. Um borð eru þau Alberta og Tor. Þau vita ekki að lævís uppfinningaþjófur veitir þeim eftirför og ætlar að stela uppfinningu mömmu Albertu. Skýjum ofar rata Tor og Alberta í spennandi ævintýri.

Í bókum Malinar Klingenberg eru börnin framtakssamari, framsýnni og kærleiksríkari en fullorðna fólkið. Þrátt fyrir að fullorðna fólkið vilji vel er það gleymið, trúgjarnt og dálítið sjálfhverft og börnin þurfa því að sjá til þess að allt gangi sem best upp í sögulok. Meðvitund höfundar þegar kemur að kynhlutverkum persónanna ljær sögunni nútímalegt yfirbragð, auk þess sem myndskreytingar Idu-Mariu Wikström auka á tilfinningu fyrir tímaleysi. Í sameiningu tekst höfundi og myndskreyti vel upp við að skapa glettni sem gerir söguna fyndna og auðlesna. Vandað málfar gerir bókina að einstakri lestrarupplifun sem börn og fullorðnir geta deilt. Malin Klingenberg býr á Álandseyjum og hefur skrifað fjölda bóka fyrir börn og unglinga. Bók hennar, Alberta Ensten och uppfinnarkungen, er framlag Álendinga til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2015.